1Dagar Söru voru hundrað tuttugu og sjö ár, það var aldur Söru.2Og Sara dó í Kirjat Arba það er Hebron í Kanaanlandi. Og Abraham fór til að harma Söru og gráta hana.3Síðan gekk hann burt frá líkinu og kom að máli við Hetíta og sagði:4Ég er aðkomandi og útlendingur meðal yðar. Látið mig fá legstað til eignar hjá yður, að ég megi koma líkinu frá mér og jarða það.5Þá svöruðu Hetítar Abraham og sögðu:6Heyr oss fyrir hvern mun, herra minn. Þú ert Guðs höfðingi vor á meðal. Jarða þú líkið í hinum besta af legstöðum vorum. Enginn meðal vor skal meina þér legstað sinn, að þú megir jarða líkið.7Þá stóð Abraham upp og hneigði sig fyrir landslýðnum, fyrir Hetítum,8og mælti við þá: Ef það er yðar vilji, að ég megi jarða líkið og koma því frá mér, þá heyrið mig og biðjið fyrir mig Efron Sóarsson,9að hann láti mig fá Makpelahelli, sem hann á og er yst í landeign hans. Hann láti mig fá hann fyrir fullt verð til grafreits meðal yðar.10En Efron sat þar meðal Hetíta. Þá svaraði Hetítinn Efron Abraham, í viðurvist Hetíta, frammi fyrir öllum þeim, sem gengu út og inn um borgarhlið hans, og mælti:11Nei, herra minn, heyr mig! Landið gef ég þér, og hellinn, sem í því er, hann gef ég þér líka. Í augsýn samlanda minna gef ég þér hann. Jarða þú þar líkið.12Þá hneigði Abraham sig fyrir landslýðnum,13mælti því næst til Efrons í viðurvist landslýðsins á þessa leið: Heyr nú, gef gaum að máli mínu! Ég greiði fé fyrir landið. Tak þú við því af mér, að ég megi jarða líkið þar.14Þá svaraði Efron Abraham og mælti:15Herra minn, gef fyrir hvern mun gaum að máli mínu! Jörð, sem er fjögur hundruð silfursikla virði, hvað er það okkar í milli? Jarða þú líkið.16Og Abraham lét að orðum Efrons, og Abraham vó Efron silfrið, sem hann hafði til tekið í viðurvist Hetíta, fjögur hundruð sikla í gangsilfri.17Þannig var landeign Efrons, sem er hjá Makpela gegnt Mamre, landeignin og hellirinn, sem í henni var, og öll trén, er í landeigninni voru, innan takmarka hennar hringinn í kring,18fest Abraham til eignar, í viðurvist Hetíta, frammi fyrir öllum, sem út og inn gengu um borgarhlið hans.19Eftir það jarðaði Abraham Söru konu sína í helli Makpelalands gegnt Mamre það er Hebron í Kanaanlandi.20Þannig fékk Abraham landið og hellinn, sem í því var, hjá Hetítum til eignar fyrir grafreit.
23.10 Í áheyrn allra samborgara sinna (Borgarhliðið) 5Mós 21.19; 22.15; 25.7; Jer 17.19; Slm 9.15
23.13 Ég greiði verð … 2Sam 24.24
23.16 Abrahan reiddi fram verðið Jer 32.9