1Örk Drottins var sjö mánuði í Filistalandi.2Og Filistar kölluðu prestana og spásagnarmennina og sögðu: Hvað eigum vér að gjöra við örk Drottins? Segið oss til, hvernig vér eigum að senda hana heim á sinn stað.3Þeir svöruðu: Ef þér sendið burt örk Ísraels Guðs, þá sendið hana ekki gjafalaust, heldur greiðið henni sektarfórn. Þá munuð þér heilir verða, og yður mun verða kunnugt, hvers vegna hönd hans hefir ekki frá yður vikið.4Þá sögðu Filistar: Hvaða sektarfórn eigum vér að greiða henni? Þeir svöruðu: Fimm kýli af gulli og fimm mýs af gulli, eins og höfðingjar Filista eru margir til, því að sama plágan hefir gengið yfir yður og höfðingja yðar.5Búið nú til myndir af kýlum yðar og myndir af músum yðar, þeim er eyða landið, og gefið Ísraels Guði dýrðina: Má vera að hann létti þá af yður hendi sinni og af guði yðar og af landi yðar.6Hvers vegna viljið þér herða hjörtu yðar, eins og Egyptar og Faraó hertu hjarta sitt? Var ekki svo, að þegar hann hafði leikið þá hart, þá slepptu þeir þeim, svo að þeir fóru burt?7Og takið nú og gjörið nýjan vagn og tvær kýr, sem kálfar ganga undir og ok hefir ekki komið á, og beitið kúnum fyrir vagninn, en takið kálfana undan þeim og farið heim með þá.8Takið síðan örk Drottins og setjið hana á vagninn, en gullgripi þá, er þér greiðið henni í sektarfórn, skuluð þér láta í kistil við hlið hennar. Látið hana síðan fara leiðar sinnar.9„Og hyggið að: Ef hún fer veginn til síns lands upp til Bet Semes, þá er það hann, sem hefir látið oss þessa miklu ógæfu að höndum bera. En fari hún ekki veginn, þá vitum vér, að ekki er það hönd hans, sem hefir lostið oss; þá er það tilviljun, er oss hefir að höndum borið.“10Og menn gjörðu svo. Þeir tóku tvær kýr, er kálfar gengu undir, og beittu þeim fyrir vagninn, en kálfana byrgðu þeir inni heima.11Síðan settu þeir örk Drottins á vagninn, svo og kistilinn með gullmúsunum og kýlamyndunum.12Og kýrnar fóru beina leið til Bet Semes. Þræddu þær brautina og bauluðu án afláts og viku hvorki til hægri né vinstri, og höfðingjar Filista fóru á eftir þeim allt að landamærum Bet Semes.13Bet Semes-búar voru að hveitiuppskeru í dalnum. Varð þeim nú litið upp og sáu þeir örkina, og urðu þeir fegnir að sjá hana.14Og vagninn kom inn á akur Jósúa í Bet Semes og nam þar staðar. En þar var stór steinn. Og þeir klufu viðinn úr vagninum og fórnuðu kúnum í brennifórn Drottni til handa.15En levítarnir tóku örk Drottins niður og kistilinn, sem hjá henni var og gullgripirnir voru í, og settu á stóra steininn. Og Bet Semes-búar fórnuðu brennifórnum og slátruðu sláturfórnum á þeim degi Drottni til handa.16Og höfðingjar Filistanna fimm sáu það og fóru þann sama dag aftur til Ekron.17En þessi voru gullkýlin, sem Filistar greiddu Drottni í sektarfórn: eitt fyrir Asdód, eitt fyrir Gasa, eitt fyrir Askalon, eitt fyrir Gat, eitt fyrir Ekron,18auk þess gullmýsnar, jafnmargar og allar borgir Filistahöfðingjanna fimm, bæði víggirtu borgirnar og bændaþorpin. Og stóri steinninn, er þeir settu örk Drottins niður á, er vottur þessa fram á þennan dag á akri Jósúa í Bet Semes.19Drottinn laust nokkra af mönnunum í Bet Semes, af því að þeir skoðuðu örk Drottins, og hann laust af fólkinu sjötíu manns. En fólkið harmaði það, að Drottinn hafði gjört svo mikið mannfall meðal fólksins.20Og Bet Semes-búar sögðu: Hver fær staðist fyrir Drottni, þessum heilaga Guði? Og til hvers mun hann nú fara, er hann fer frá oss?21„Þá gerðu þeir sendimenn á fund íbúanna í Kirjat Jearím og létu segja þeim: Filistar hafa skilað aftur örk Drottins; komið hingað og flytjið hana til yðar.“
6.6 Eins og Faraó 2Mós 7.3+ – leyfðu að fara 2Mós 12.31
6.7 Nýr vagn 2Sam 6.3; sbr 2Kon 2.20 – ekki lagt ok á 4Mós 19.2; 5Mós 21.3; sbr 2Mós 20.25
6.14 Fórn 2Sam 24.22; 1Kon 19.21
6.19 Hann refsaði 2Sam 6.7
6.20 Hver getur staðist? Mal 3.2; Slm 76.8