1Davíð konungur mælti til alls safnaðarins: Salómon sonur minn, hinn eini, er Guð hefir kjörið, er ungur og óreyndur, en starfið er mikið, því að eigi er musteri þetta manni ætlað, heldur Drottni Guði.2Ég hefi af öllum mætti dregið að fyrir musteri Guðs míns, gull í gulláhöldin, silfur í silfuráhöldin, eir í eiráhöldin, járn í járnáhöldin og tré í tréáhöldin, sjóamsteina og steina til að greypa inn, gljásteina og mislita steina, alls konar dýra steina og afar mikið af alabastursteinum.3Enn fremur vil ég, sakir þess að ég hefi mætur á musteri Guðs míns, gefa það, er ég á af gulli og silfri, til musteris Guðs míns, auk alls þess, er ég hefi dregið að fyrir helgidóminn:4Þrjú þúsund talentur af gulli og það af Ófírgulli, sjö þúsund talentur af skíru silfri til þess að klæða með veggina í herbergjunum5og til þess að útvega gull í gulláhöldin og silfur í silfuráhöldin, og til alls konar listasmíða. Hver er nú fús til þess að færa Drottni ríflega fórnargjöf í dag?6Þá kváðust ætthöfðingjarnir, höfðingjar kynkvísla Ísraels, þúsundhöfðingjarnir og hundraðshöfðingjarnir og ráðsmennirnir yfir störfum í konungsþjónustu vera fúsir til þess,7og þeir gáfu til Guðs húss fimm þúsund talentur gulls, tíu þúsund Daríus-dali, tíu þúsund talentur silfurs, átján þúsund talentur eirs og hundrað þúsund talentur járns.8Og hver sá, er átti gimsteina, gaf þá í féhirslu húss Drottins, er Jehíel Gersoníti hafði umsjón yfir.9Þá gladdist lýðurinn yfir örlæti þeirra, því að þeir höfðu af heilum hug fært Drottni sjálfviljagjafir, og Davíð konungur gladdist einnig stórum.10Þá lofaði Davíð Drottin, að öllum söfnuðinum ásjáanda, og Davíð mælti: Lofaður sért þú, Drottinn, Guð Ísraels, forföður vors, frá eilífð til eilífðar.11Þín, Drottinn, er tignin, mátturinn og dýrðin, vegsemdin og hátignin, því að allt er þitt, á himni og jörðu. Þinn er konungdómurinn, Drottinn, og sá, er gnæfir yfir alla sem höfðingi.12„Auðlegðin og heiðurinn koma frá þér; þú drottnar yfir öllu, máttur og megin er í hendi þinni, og á þínu valdi er það, að gjöra hvern sem vera skal mikinn og máttkan.“13Og nú, Guð vor, vér lofum þig og tignum þitt dýrlega nafn.14Því að hvað er ég, og hvað er lýður minn, að vér skulum vera færir um að gefa svo mikið sjálfviljuglega? Nei, frá þér er allt, og af þínu höfum vér fært þér gjöf.15Því að vér erum aðkomandi og útlendingar fyrir þér, eins og allir feður vorir. Sem skuggi eru dagar vorir á jörðunni, og engin er vonin.16Drottinn, Guð vor, öll þessi auðæfi, er vér höfum dregið að til þess að reisa þér þínu heilaga nafni hús, frá þér eru þau og allt er það þitt.17Og ég veit, Guð minn, að þú rannsakar hjartað og hefir þóknun á hreinskilni. Ég hefi með hreinum hug og sjálfviljuglega gefið allt þetta, og ég hefi með gleði horft á, hversu lýður þinn, sem hér er, færir þér sjálfviljagjafir.18Drottinn, Guð feðra vorra, Abrahams, Ísaks og Jakobs, varðveit þú slíkar hugrenningar í hjarta lýðs þíns að eilífu, og bein hjörtum þeirra til þín.19En gef þú Salómon syni mínum einlægt hjarta, að hann megi varðveita boðorð þín, vitnisburði og fyrirskipanir, og að hann megi gjöra allt þetta og reisa musterið, er ég hefi dregið að föng til.20Síðan mælti Davíð til alls safnaðarins: Lofið Drottin, Guð yðar! Lofaði þá allur söfnuðurinn Drottin, Guð feðra sinna, hneigðu sig og lutu Drottni og konungi.21Næsta morgun færðu þeir Drottni sláturfórn og færðu honum í brennifórn: þúsund naut, þúsund hrúta og þúsund lömb, og drykkjarfórnir, er við áttu, svo og sláturfórnir í ríkum mæli fyrir allan Ísrael.22Átu þeir svo og drukku frammi fyrir Drottni þann dag í miklum fagnaði og tóku Salómon, son Davíðs, öðru sinni til konungs og smurðu hann þjóðhöfðingja Drottni til handa, en Sadók til prests.23Sat Salómon þannig sem konungur Drottins í hásæti í stað Davíðs föður síns og var auðnumaður, og allir Ísraelsmenn hlýddu honum.24Og allir höfðingjarnir og kapparnir, svo og allir synir Davíðs konungs, hylltu Salómon konung.25Og Drottinn gjörði Salómon mjög vegsamlegan í augum allra Ísraelsmanna og veitti honum tignarmikinn konungdóm, svo að enginn konungur í Ísrael hafði slíkan haft á undan honum.26Davíð Ísaíson ríkti yfir öllum Ísrael.27En sá tími, er hann ríkti yfir Ísrael, var fjörutíu ár. Í Hebron ríkti hann sjö ár, en í Jerúsalem ríkti hann þrjátíu og þrjú.28Dó hann í góðri elli, saddur lífdaga, auðæfa og sæmdar, og tók Salómon sonur hans ríki eftir hann.29En saga Davíðs konungs frá upphafi til enda er skráð í Sögu Samúels sjáanda, svo og í Sögu Natans spámanns og í Sögu Gaðs sjáanda.30Þar er og sagt frá öllum konungdómi hans og hreystiverkum svo og atburðum þeim, er fyrir hann komu og fyrir Ísrael og öll ríki landanna.
29.22 Mjög glaðir 1Kon 1.40 – Salómon smurður 1Kon 1.39
29.25 Enginn hans líki 1Kon 3.12-14
29.27 sbr 1Kon 2.11
29.28 Varð konungur eftir hann 1Kon 2.12