1Benhadad konungur á Sýrlandi dró saman allan her sinn. Voru þrjátíu og tveir konungar með honum, með hestum og vögnum, og hann fór, settist um Samaríu og gjörði áhlaup á hana.2Og hann sendi menn til Akabs Ísraelskonungs inn í borgina3og lét segja honum: Svo segir Benhadad: Silfur þitt og gull er mitt, svo og hinar fegurstu konur þínar og synir.4Ísraelskonungur svaraði og sagði: Eins og þú vilt vera láta, minn herra konungur. Ég er þinn og allt, sem ég á.5Og sendimennirnir komu aftur og sögðu: Svo segir Benhadad: Ég hefi gjört þér þessa orðsending: Þú skalt gefa mér silfur þitt og gull, konur þínar og sonu.6Þegar ég á morgun í þetta mund sendi menn mína til þín, munu þeir rannsaka hús þitt og hús þinna manna, og skulu þeir taka og hafa á burt með sér sérhvað það, sem þeir ágirnast.7Þá kallaði Ísraelskonungur alla öldunga landsins fyrir sig og mælti: Hyggið að og sjáið, að hann býr yfir illu, því að hann sendi til mín eftir konum mínum og sonum, silfri mínu og gulli, og synjaði ég honum þess ekki.8Þá sögðu allir öldungarnir og allur lýðurinn við hann: Gegn þú eigi þessu og samþykk þú það eigi.9Þá sagði Akab við sendimenn Benhadads: Segið mínum herra konunginum: Allt það, sem þú gjörðir þjóni þínum orð um í fyrstu, vil ég gjöra, en þetta get ég ekki gjört. Þá fóru sendimennirnir og færðu honum svarið.10Þá sendi Benhadad til hans og lét segja: Guðirnir gjöri mér hvað sem þeir vilja, nú og síðar: Rykið í Samaríu mun eigi nægja til þess að fylla lúkurnar á öllu þessu liði, sem með mér er.11En Ísraelskonungur svaraði og sagði: Segið honum: Eigi skyldi sá, er hervæðist, hrósa sér sem sá, er leggur af sér vopnin.12Þegar Benhadad heyrði þetta svar, þar sem hann sat að drykkju með konungunum í laufskálunum, mælti hann til sinna manna: Færið fram hervélarnar. Og þeir færðu þær fram gegnt borginni.13En spámaður nokkur gekk fyrir Akab Ísraelskonung og mælti: Svo segir Drottinn: Sér þú allan þennan mikla manngrúa? Hann gef ég þér í hendur í dag, svo að þú viðurkennir, að ég er Drottinn.14Þá mælti Akab: Fyrir hvers fulltingi? Spámaðurinn svaraði: Svo segir Drottinn: Fyrir fulltingi sveina héraðshöfðingjanna. Þá spurði Akab: Hver á að hefja orustuna? Hinn svaraði: Þú.15Þá kannaði Akab sveina héraðshöfðingjanna, og voru þeir tvö hundruð þrjátíu og tveir. Og að því búnu kannaði hann allt liðið, alla Ísraelsmenn, sjö þúsund manns.16Um hádegið réðu þeir til útgöngu, en Benhadad sat þá ölvaður að drykkju í laufskálunum, hann og þeir þrjátíu og tveir konungar, er komnir voru honum til liðs.17Sveinar héraðshöfðingjanna fóru fremstir. Þá sendi Benhadad menn til að njósna. Þeir sögðu honum svo frá: Menn fara út frá Samaríu.18Þá sagði hann: Hvort sem þeir fara út til þess að biðjast friðar eða til þess að berjast, þá takið þá höndum lifandi.19Og er sveinar héraðshöfðingjanna og liðið, sem þeim fylgdi, fóru út af borginni20drápu þeir hver sinn mann. Flýðu þá Sýrlendingar, en Ísraelsmenn eltu þá. Og Benhadad Sýrlandskonungur komst undan á vagnhesti með nokkra riddara.21En Ísraelskonungur fór út og náði hestunum og vögnunum. Og hann vann mikinn sigur á Sýrlendingum.22Þá gekk spámaður fyrir Ísraelskonung og mælti til hans: Ver hugrakkur og hygg vandlega að, hvað þú skulir gjöra, því að næsta ár mun Sýrlandskonungur fara með her á hendur þér.23Menn Sýrlandskonungs sögðu við hann: Guð Ísraelsmanna er fjallaguð, þess vegna urðu þeir oss yfirsterkari, en ef vér mættum berjast við þá á jafnsléttu, mundum vér vissulega vinna sigur á þeim.24En gjör þú þetta: Vík öllum konungunum frá völdum og set jarla í þeirra stað.25Safna síðan að þér jafnfjölmennu liði sem það lið var, er þú misstir, og jafnmörgum hestum og jafnmörgum vögnum sem þú misstir, og skulum vér berjast við þá á jafnsléttu, og munum vér vissulega sigrast á þeim. Fór hann að ráðum þeirra og gjörði svo.26Árið eftir kannaði Benhadad Sýrlendinga og hélt til Afek til þess að berjast við Ísraelsmenn.27En Ísraelsmenn voru og kannaðir og birgðir að vistum, og fóru þeir í móti þeim, og settu Ísraelsmenn herbúðir gegnt þeim. Voru þeir sem tveir geitfjárhópar, en Sýrlendingar fylltu landið.28Þá gekk guðsmaður nokkur fram, talaði til Ísraelskonungs og mælti: Svo segir Drottinn: Sakir þess að Sýrlendingar hafa sagt: Drottinn er fjallaguð, en enginn dalaguð þá vil ég gefa þennan mikla manngrúa í þínar hendur, svo að þér kannist við, að ég er Drottinn.29Þannig lágu þeir í herbúðunum, hverir gegnt öðrum, í sjö daga, en á sjöunda degi tókst orusta, og felldu Ísraelsmenn hundrað þúsundir fótgönguliðs af Sýrlendingum á einum degi.30En þeir, sem eftir urðu, flýðu til Afek, inn í borgina, en þá féll borgarmúrinn á þau tuttugu og sjö þúsund manns, sem eftir voru. Benhadad var og flúinn og komst inn í borgina, úr einu herberginu í annað.31Þá sögðu menn hans við hann: Vér höfum heyrt, að konungar Ísraelshúss séu miskunnsamir konungar. Skulum vér nú gyrðast hærusekk um lendar vorar og vefja bandi um höfuð vor og ganga síðan fyrir Ísraelskonung. Má vera að hann gefi þér líf.32Síðan gyrtust þeir hærusekk um lendar sér, vöfðu bandi um höfuð sér og gengu síðan á fund Ísraelskonungs og sögðu: Þjónn þinn Benhadad segir: Gef þú mér líf. Akab svaraði: Er hann enn á lífi? Hann er bróðir minn.33Þetta þótti mönnunum góðs viti, og flýttu þeir sér að taka hann á orðinu og sögðu: Benhadad er bróðir þinn! En Akab mælti: Farið og sækið hann. Þá gekk Benhadad út til hans, og hann lét hann stíga upp í vagninn til sín.34Og Benhadad sagði við hann: Borgunum, sem faðir minn tók frá föður þínum, skal ég skila aftur, og þú mátt gjöra þér torg í Damaskus, eins og faðir minn gjörði í Samaríu. Hvað mig snertir, mælti Akab, þá vil ég láta þig lausan með þessum skilmálum. Og hann gjörði við hann sáttmála og lét hann í brott fara.35Maður nokkur af spámannasveinunum sagði við félaga sinn eftir orði Drottins: Slá þú mig! En maðurinn færðist undan að slá hann.36Þá sagði spámaðurinn við hann: Sökum þess að þú hlýddir ekki raust Drottins, þá mun ljón ljósta þig jafnskjótt og þú gengur burt frá mér. Og er hann gekk í burt frá honum, mætti ljón honum og drap hann.37Og spámaðurinn hitti annan mann og mælti: Slá þú mig! Og maðurinn sló hann, svo að hann varð sár.38Síðan fór spámaðurinn burt og gekk í veg fyrir konung og gjörði sig ókennilegan með því að binda fyrir augun.39En er konungur fór fram hjá, kallaði hann til konungs og mælti: Þjónn þinn fór í bardagann. Þá gekk maður fram úr fylkingunni, færði mér mann og sagði: Geymdu þennan mann. Komist hann í burt, þá skal líf þitt við liggja, eða þú skalt greiða talentu silfurs.40En svo fór, að þar sem þjónn þinn hafði í hinu og þessu að snúast, þá varð maðurinn allur á burtu. Ísraelskonungur sagði við hann: Það er þinn dómur. Þú hefir sjálfur kveðið hann upp.41Þá tók hann í skyndi bandið frá augunum, og Ísraelskonungur þekkti hann, að hann var einn af spámönnunum.42Spámaðurinn mælti þá til hans: Svo segir Drottinn: Sökum þess að þú slepptir þeim manni úr hendi þér, sem ég hafði banni helgað, þá skal líf þitt koma fyrir hans líf og þín þjóð fyrir hans þjóð.43Og Ísraelskonungur hélt heim til sín, hryggur og reiður, og kom til Samaríu.
20.16 Benhadad ölvaður 1Kon 16.9+
20.27 Liðsmunur Dóm 7.1-15
20.36 Mæta ljóni 1Kon 13.24+
20.38 Spádómur í dæmisögu 2Sam 12.1-12; 14.1-20
20.43 Gramur og reiður 1Kon 21.4