1Þegar þú ert kominn inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar, og þú hefir tekið það til eignar og ert setstur að í því,2þá skalt þú taka nokkuð af frumgróða alls ávaxtar landsins, er þú fær af landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér, láta það í körfu og fara með það til þess staðar, er Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar.3Þú skalt fara til prestsins, sem þá er, og segja við hann: Ég játa í dag fyrir Drottni Guði þínum, að ég er kominn inn í landið, sem Drottinn sór feðrum vorum að gefa oss.4Og presturinn skal taka körfuna af hendi þér og setja hana niður fyrir framan altari Drottins Guðs þíns.5Þá skalt þú taka til máls og segja frammi fyrir Drottni Guði þínum: Faðir minn var umreikandi Aramei, og hann fór suður til Egyptalands fáliðaður og dvaldist þar sem útlendingur og varð þar að mikilli, sterkri og fjölmennri þjóð.6En Egyptar fóru illa með oss og þjáðu oss og lögðu á oss þunga þrælavinnu.7Þá hrópuðum vér til Drottins, Guðs feðra vorra, og Drottinn heyrði raust vora og sá eymd vora, þraut og ánauð.8Og Drottinn flutti oss af Egyptalandi með sterkri hendi og útréttum armlegg, með mikilli skelfingu og með táknum og undrum.9Og hann leiddi oss hingað og gaf oss þetta land, land, sem flýtur í mjólk og hunangi.10Og nú færi ég hér frumgróðann af ávexti landsins, þess er þú, Drottinn, hefir gefið mér. Því næst skalt þú setja það niður frammi fyrir Drottni Guði þínum og falla fram fyrir Drottni Guði þínum.11Og þú skalt gleðjast yfir öllum þeim gæðum, sem Drottinn Guð þinn hefir gefið þér, þú og skyldulið þitt, og levítinn og útlendingurinn, sem hjá þér eru.12Þegar þú hefir greitt alla tíund af afrakstri þínum þriðja árið, tíundarárið, og hefir fengið hana í hendur levítanum, útlendingnum, munaðarleysingjanum og ekkjunni, svo að þau megi eta hana innan borgarhliða þinna og verða mett,13þá skalt þú segja frammi fyrir Drottni Guði þínum: Ég hefi flutt hið heilaga burt úr húsinu og fengið það í hendur levítanum, útlendingnum, munaðarleysingjanum og ekkjunni og farið þannig nákvæmlega eftir boðorði þínu, því er þú hefir fyrir mig lagt. Ég hefi eigi breytt út af neinu boðorða þinna né gleymt nokkru þeirra.14Ég hefi eigi etið neitt af því í sorg minni, eigi flutt neitt af því burt, er ég var óhreinn, og eigi gefið dauðum manni neitt af því. Ég hefi hlýtt raustu Drottins Guðs míns og gjört allt eins og þú hefir fyrir mig lagt.15Lít niður frá þínum heilaga bústað, frá himnum, og blessa þú lýð þinn Ísrael og landið, sem þú hefir gefið oss, eins og þú sórst feðrum vorum, land sem flýtur í mjólk og hunangi.16Í dag býður Drottinn Guð þinn þér að halda þessi lög og ákvæði. Þú skalt því varðveita þau og halda þau af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni.17Þú hefir látið Drottin lýsa yfir því í dag, að hann vilji vera þinn Guð og að þér skuluð ganga á hans vegum og varðveita lög hans, skipanir og ákvæði og hlýða hans raustu.18Og Drottinn hefir látið þig lýsa yfir því í dag, að þú viljir vera hans eignarlýður, eins og hann hefir boðið þér, og að þú viljir varðveita allar skipanir hans,19svo að hann geti hafið þig yfir allar þjóðir, er hann hefir skapað, til lofs, frægðar og heiðurs, og þú sért Drottni Guði þínum helgaður lýður, eins og hann hefir sagt.

26.1 Landið gefið til eignar 5Mós 3.20+
26.2 Frumgróði 5Mós 18.4; 26.10+ – Guð velur 5Mós 12.5+
26.3 Fyrirheitna landið 5Mós 1.8+
26.5 Egyptaland sbr 5Mós 10.19+ – fjölmenn þjóð 2Mós 1.7+
26.6 Ill meðferð 2Mós 1.11-14; 4Mós 20.15
26.7 Guð feðranna 5Mós 1.11+ – við hrópuðum 2Mós 2.23+
26.8 Sterk hönd 5Mós 4.34+ – tákn og stórmerki 5Mós 4.34+
26.10 Frumgróðinn 2Mós 23.19; 34.26; 3Mós 23.10; Sír 35.10
26.11 Gleðjast 5Mós 12.7+
26.12 Tíund 5Mós 14.22+ – Levíti 5Mós 10.18+
26.13 Ekki gleyma Drottni 5Mós 4.9+
26.14 Hlýða Drottni 5Mós 4.30+
26.15 Líta niður af himni Slm 102.20 – fyrirheitna landið 5Mós 1.8+
26.16 Varðveita og halda 5Mós 5.1+ – af allri sálu þinni 5Mós 4.29+
26.17 Hlýða fyrirmælum Drottins 5Mós 4.30+
26.18 Eignarlýður Guðs 5Mós 7.6+
26.19 Helguð þjóð 5Mós 7.6+