1Enginn sá, er meiddur hefir verið eistnamari eða hreðurskorinn, má vera í söfnuði Drottins.2Enginn bastarður má vera í söfnuði Drottins, jafnvel ekki tíundi maður frá honum má vera í söfnuði Drottins.3Enginn Ammóníti eða Móabíti má vera í söfnuði Drottins. Jafnvel ekki tíundi maður frá þeim má vera í söfnuði Drottins að eilífu,4vegna þess að þeir komu ekki í móti yður með brauð og vatn, þá er þér voruð á leiðinni frá Egyptalandi, og vegna þess að þeir keyptu í móti þér Bíleam Beórsson frá Petór í Mesópótamíu til þess að bölva þér.5En Drottinn Guð þinn vildi ekki hlýða á Bíleam, og Drottinn Guð þinn sneri bölvaninni í blessan fyrir þig, af því að Drottinn Guð þinn elskaði þig.6Þú skalt aldrei alla ævi þína láta þér annt um farsæld þeirra og velgengni.7Þú skalt eigi hafa andstyggð á Edómítum, því að þeir eru bræður þínir. Þú skalt eigi hafa andstyggð á Egyptum, því að þú dvaldir sem útlendingur í landi þeirra.8Afkomendur þeirra í þriðja lið mega vera í söfnuði Drottins.9Þegar þú fer í hernað móti óvinum þínum, þá skalt þú gæta þín við öllum illum hlutum.10Ef einhver, sem með þér er, er ekki hreinn vegna þess, sem hann hefir hent um nóttina, þá skal hann ganga út fyrir herbúðirnar og má eigi koma inn í herbúðirnar,11en að áliðnum degi skal hann lauga sig í vatni, og er sól er setst, má hann aftur ganga inn í herbúðirnar.12Þú skalt og hafa afvikinn stað fyrir utan herbúðirnar. Þangað skalt þú fara erinda þinna.13Og þú skalt hafa spaða í tækjum þínum, og er þú þarft að setjast niður úti, þá skalt þú grafa holu með honum, moka því næst aftur yfir og hylja saurindin.14„Því að Drottinn Guð þinn er á gangi um herbúðir þínar til þess að frelsa þig og gefa óvini þína á þitt vald; fyrir því skulu herbúðir þínar helgar vera, svo að hann sjái ekkert óþokkalegt hjá þér og snúi sér burt frá þér.“15Þú skalt eigi framselja í hendur húsbónda þræl, sem flúið hefir til þín frá húsbónda sínum.16Hann skal setjast að hjá þér, í landi þínu, á þeim stað, er hann sjálfur velur, í einhverri af borgum þínum, þar sem honum best líkar. Þú skalt ekki sýna honum ójöfnuð.17Á meðal Ísraels dætra má engin vera, sú er helgi sig saurlifnaði, og á meðal Ísraels sona má enginn vera, sá er helgi sig saurlifnaði.18Þú skalt eigi bera skækjulaun eða hundsgjald inn í hús Drottins Guðs þíns eftir neinu heiti, því að einnig hvort tveggja þetta er Drottni Guði þínum andstyggilegt.19Þú skalt ekki taka fjárleigu af bróður þínum, hvorki fyrir peninga, matvæli né nokkurn hlut annan, er ljá má gegn leigu.20Af útlendum manni mátt þú taka fjárleigu, en af bróður þínum mátt þú ekki taka fjárleigu, til þess að Drottinn Guð þinn blessi þig í öllu því, er þú tekur þér fyrir hendur í landinu, sem þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar.21Þegar þú gjörir Drottni Guði þínum heit, þá skalt þú ekki láta dragast að efna það, því að ella mun Drottinn Guð þinn krefjast þess af þér og það verða þér til syndar.22En þótt þú sleppir því að gjöra heit, þá hvílir engin sekt á þér fyrir það.23Það sem komið hefir yfir varir þínar, skalt þú halda og breyta eftir því, eins og þú sjálfviljuglega hefir heitið Drottni Guði þínum, það sem þú hefir talað með munni þínum.24Þegar þú kemur í víngarð náunga þíns, þá mátt þú eta vínber eins og þig lystir, þar til er þú ert mettur, en í ker þitt mátt þú ekkert láta.25Þegar þú kemur á kornakur náunga þíns, þá mátt þú tína öx með hendinni, en sigð mátt þú ekki sveifla yfir kornstöngum náunga þíns.
23.2 Afkvæmi blandaðs sambands sbr Neh 13.23-27
23.3 Ammóníti, Móabíti Neh 13.1-3
23.4 Brauð og vatn 1Mós 18.4-5 – Bíleam 4Mós 22.5+
23.5 Bölvan snúið í blessan Jós 24.10 – Guð elskar 5Mós 4.37+
23.7 Bræður 5Mós 2.4; sbr 1Mós 36 – Ísrael aðkomumaður í Egyptalandi 5Mós 10.19+ – ekki andstyggð á Egyptum Jes 19.18-25
23.8 Í þriðja lið 5Mós 5.9; 2Mós 20.5-6; 4Mós 14.18
23.10-11 Lauga í vatni 3Mós 15.16
23.14 Guð er nálægur 5Mós 20.4; 4Mós 5.3
23.15 Ekki framselja þræl 1Sam 30.11-15; Fílm 8-21
23.16 Ekki beita ofríki 2Mós 22.21
23.17 Helga sig saurlifnaði 1Mós 38.21-22; 1Kon 14.24; 15.12; 22.47; 2Kon 23.7; Hós 4.14 – Drottni andstyggilegt 5Mós 7.25+
23.19 Lán 2Mós 22.25+
23.20 Samlandinn rétthærri 5Mós 15.3 – landið til eignar 5Mós 1.21+
23.21 Heit 4Mós 30.2-16+ ; Slm 66.13; Okv 20.25; Sír 18.22
23.23 Efna 5Mós 5.1+
23.25 Tína öx Matt 12.1 og hlst.