1En svo bar við á hvíldardegi, að hann fór um sáðlönd, og tíndu lærisveinar hans kornöx, neru milli handanna og átu.2Þá sögðu farísear nokkrir: Hví gjörið þér það, sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?3Og Jesús svaraði þeim: Hafið þér þá ekki lesið, hvað Davíð gjörði, er hann hungraði og menn hans?4Hann fór inn í Guðs hús, tók skoðunarbrauðin og át og gaf mönnum sínum, en þau má enginn eta nema prestarnir einir.5Og hann sagði við þá: Mannssonurinn er herra hvíldardagsins.6Annan hvíldardag gekk hann í samkunduna og kenndi. Þar var maður nokkur með visna hægri hönd.7En fræðimenn og farísear höfðu nánar gætur á Jesú, hvort hann læknaði á hvíldardegi, svo að þeir fengju tilefni að kæra hann.8En hann vissi hugsanir þeirra og sagði við manninn með visnu höndina: Statt upp, og kom hér fram. Og hann stóð upp og kom.9Jesús sagði við þá: Ég spyr yður, hvort er heldur leyfilegt að gjöra gott eða gjöra illt á hvíldardegi, bjarga lífi eða granda því?10Hann leit í kring á þá alla og sagði við manninn: Réttu fram hönd þína. Hann gjörði svo, og hönd hans varð heil.11En þeir urðu æfir við og ræddu sín á milli, hvað þeir gætu gjört Jesú.12En svo bar við um þessar mundir, að hann fór til fjalls að biðjast fyrir og var alla nóttina á bæn til Guðs.13Og er dagur rann, kallaði hann til sín lærisveina sína, valdi tólf úr þeirra hópi og nefndi þá postula.14Þeir voru: Símon, sem hann nefndi Pétur, Andrés bróðir hans, Jakob og Jóhannes, Filippus og Bartólómeus,15Matteus og Tómas, Jakob Alfeusson og Símon, kallaður vandlætari,16og Júdas Jakobsson og Júdas Ískaríot, sem varð svikari.17Hann gekk ofan með þeim og nam staðar á sléttri flöt. Þar var stór hópur lærisveina hans og mikill fjöldi fólks úr allri Júdeu, frá Jerúsalem og sjávarbyggðum Týrusar og Sídonar,18er komið hafði til að hlýða á hann og fá lækning meina sinna. Einnig voru þeir læknaðir, er þjáðir voru af óhreinum öndum.19Allt fólkið reyndi að snerta hann, því að frá honum kom kraftur, er læknaði alla.20Þá hóf hann upp augu sín, leit á lærisveina sína og sagði: Sælir eruð þér, fátækir, því að yðar er Guðs ríki.21Sælir eruð þér, sem nú hungrar, því að þér munuð saddir verða. Sælir eruð þér, sem nú grátið, því að þér munuð hlæja.22Sælir eruð þér, þá er menn hata yður, þá er þeir útskúfa yður og smána og bera út óhróður um yður vegna Mannssonarins.23Fagnið á þeim degi og leikið af gleði, því laun yðar eru mikil á himni, og á sama veg fóru feður þeirra með spámennina.24En vei yður, þér auðmenn, því að þér hafið tekið út huggun yðar.25Vei yður, sem nú eruð saddir, því að yður mun hungra. Vei yður, sem nú hlæið, því að þér munuð sýta og gráta.26Vei yður, þá er allir menn tala vel um yður, því að á sama veg fórst feðrum þeirra við falsspámennina.27En ég segi yður, er á mig hlýðið: Elskið óvini yðar, gjörið þeim gott, sem hata yður,28blessið þá, sem bölva yður, og biðjið fyrir þeim, er misþyrma yður.29Slái þig einhver á kinnina, skaltu og bjóða hina, og taki einhver yfirhöfn þína, skaltu ekki varna honum að taka kyrtilinn líka.30Gef þú hverjum sem biður þig, og þann, sem tekur þitt frá þér, skaltu eigi krefja.31Og svo sem þér viljið, að aðrir menn gjöri við yður, svo skuluð þér og þeim gjöra.32Og þótt þér elskið þá, sem yður elska, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar elska þá líka, sem þá elska.33Og þótt þér gjörið þeim gott, sem yður gjöra gott, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar gjöra og hið sama.34Og þótt þér lánið þeim, sem þér vonið að muni borga, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar lána einnig syndurum til þess að fá allt aftur.35Nei, elskið óvini yðar, og gjörið gott og lánið án þess að vænta nokkurs í staðinn, og laun yðar munu verða mikil, og þér verða börn hins hæsta, því að hann er góður við vanþakkláta og vonda.36Verið miskunnsamir, eins og faðir yðar er miskunnsamur.37Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða. Sakfellið eigi, og þér munuð eigi sakfelldir verða. Sýknið, og þér munuð sýknaðir verða.38Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.39Þá sagði hann þeim og líkingu: Hvort fær blindur leitt blindan? Munu ekki báðir falla í gryfju?40Ekki er lærisveinn meistaranum fremri, en hver sem er fullnuma, verður eins og meistari hans.41Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga sjálfs þín?42Hvernig fær þú sagt við bróður þinn: Bróðir, lát mig draga flísina úr auga þér, en sérð þó eigi sjálfur bjálkann í þínu auga? Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.43Því að ekki er til gott tré, er beri slæman ávöxt, né heldur slæmt tré, er beri góðan ávöxt.44En hvert tré þekkist af ávexti sínum, enda lesa menn ekki fíkjur af þistlum né vínber af þyrnirunni.45Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. Af gnægð hjartans mælir munnur hans.46En hví kallið þér mig herra, herra, og gjörið ekki það, sem ég segi?47Ég skal sýna yður, hverjum sá er líkur, sem kemur til mín, heyrir orð mín og breytir eftir þeim.48Hann er líkur manni, er byggði hús, gróf djúpt fyrir og grundvallaði það á bjargi. Nú kom flóð og flaumurinn skall á því húsi, en fékk hvergi hrært það, vegna þess að það var vel byggt.49Hinn, er heyrir og gjörir ekki, er líkur manni, sem byggði hús á jörðinni án undirstöðu. Flaumurinn skall á því, og það hús féll þegar, og fall þess varð mikið.
6.1 Kornöx týnd 5Mós 23.25
6.2 Ekki leyfilegt 2Mós 34.21; Jóh 5.10
6.3-4 Davíð og skoðunarbrauðin 1Sam 21.2-7; sbr 3Mós 24.5-9
6.7 Höfðu gætur á Jesú Lúk 14.1 – lækning á hvíldardegi Lúk 13.14; 14.1-2
6.8 Vissi hugsanir þeirra Matt 12.25; Lúk 5.22; 9.47; 11.17; 20.23
6.12-16 Hlst. Matt 10.1-4; Mrk 3.13-19
6.12 Bæn Jesú Lúk 3.21+
6.13 Valdi tólf Jóh 6.70 – hinir tólf postular Lúk 9.10; 11.49; 17.5; 22.14; 24.10
6.14-16 Postularnir Matt 10.2+
6.14 Símon, Pétur, Andrés Matt 4.18+ – gefa nafn 1Mós 17.5,15; 32.29; 2Kon 23.34; 24.17 – Jakob, Jóhannes Matt 4.21+ – Filippus Matt 10.3+
6.15 Matteus Matt 9.9+ – Tómas 10.3+
6.16 Júdas Jakobsson Post 1.13; Jóh 14.22 – Júdas Ískaríot Matt 10.4+
6.17-19 Hlst. Matt 4.23-25
6.17 Mikill fjöldi fólks Mrk 3.8+
6.19 Snerta Jesú Matt 14.36; Mrk 6.56; Lúk 8.44,46 og hlst. – kraftur, er læknar Mrk 5.30
6.20-26 Hlst. Matt 5.1-12
6.20 Sælir Matt 5.3+ ; sbr Jes 30.18; 32.20; Dan 12.12; Slm 32.1-2; 84.5; Okv 3.13; 8.32,34 – fátækir Slm 34.18; 40.18; Matt 11.5; Lúk 4.18; 7.22; sbr 10.21; 14.11; 18.14 – Guðs ríki Matt 3.2+ ; 6.10+
6.21 Hungraðir, saddir Jes 49.10; Jer 31.25 – umskipti Lúk 1.51-53; 16.19-26 – grátur og gleði Slm 126.5-6; Jes 25.6-9; 61.3; Opb 7.16-17
6.22 Hataðir vegna Jesú Mrk 13.13+ – Mannssonurinn Matt 8.20+ +
6.23 Spámönnum misþyrmt 2Kro 36.16; Matt 23.30-31; Lúk 11.47; 13.33-34; sbr Matt 21.35+
6.24 Vei Matt 11.21+ ; Lúk 10.13; 11.42-52; 17.1; 21.23; 22.22; sbr Jes 3.10-11; Jer 17.5-8; Okv 28.14; Préd 10.16-17 – auðmenn Jak 5.1 – hafið fengið yðar skerf Lúk 16.25
6.26 Hæla Jak 4.4
6.27-36 Hlst. Matt 5.38-48; 7.12a
6.27 Elskið óvini yðar Matt 5.44+
6.28 Blessið … Róm 12.14
6.29 Bjóða hina kinnina sbr Jóh 18.22-23; Post 23.3
6.31 Gullna reglan Matt 7.12; Róm 13.8-10
6.35 Elskið óvini yðar Lúk 6.27 – án vonar um endurgjald 3Mós 25.35-36
6.36 Miskunnsöm 2Mós 34.6; 5Mós 4.31; Slm 78.38; 86.15
6.37-42 Hlst. Matt 7.1-5
6.37 Fyrirgefið … Matt 6.14
6.38 Með þeim mæli Matt 7.2; Mrk 4.24
6.39 Blindur leiðir blindan Matt 15.14; 23.16; Róm 2.19
6.40 Lærisveinninn og meistari hans Matt 10.24-25; Jóh 13.16; 15.20
6.43-45 Hlst. Matt 7.17-20; 12.34b-35
6.44 Af ávextinum þekkist tréð Matt 7.16; 12.33; sbr Jak 3.11-12
6.46-49 Hlst. Matt 7.24-27
6.46 Orð og gjörðir Mal 1.6; Matt 7.21; sbr Jes 29.13; Matt 15.8; Mrk 7.6 – gera Matt 7.21; Róm 2.13; Jak 1.22,25; 1Jóh 2.17