1Um þessar mundir bar enn svo við, að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar. Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá:2Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Þeir hafa nú hjá mér verið þrjá daga og hafa ekkert til matar.3Láti ég þá fara fastandi heim til sín, örmagnast þeir á leiðinni, en sumir þeirra eru langt að.4Þá svöruðu lærisveinarnir: Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?5Hann spurði þá: Hve mörg brauð hafið þér? Þeir sögðu: Sjö.6Þá bauð hann fólkinu að setjast á jörðina, tók brauðin sjö, gjörði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum, að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið.7Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann þakkaði Guði og bauð, að einnig þeir skyldu fram bornir.8Menn neyttu og urðu mettir. Síðan tóku þeir saman leifarnar, sjö körfur.9En þeir voru um fjórar þúsundir. Síðan lét hann þá fara.10Og hann sté þegar í bátinn með lærisveinum sínum og kom í Dalmanútabyggðir.11Þangað komu farísear og tóku að þrátta við hann, þeir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni.12Hann andvarpaði þungan innra með sér og mælti: Hví heimtar þessi kynslóð tákn? Sannlega segi ég yður: Tákn verður alls ekki gefið þessari kynslóð.13Hann skildi síðan við þá, sté aftur í bátinn og fór yfir um.14Þeir höfðu gleymt að taka brauð, höfðu ekki nema eitt brauð með sér í bátnum.15Jesús áminnti þá og sagði: Gætið yðar, varist súrdeig farísea og súrdeig Heródesar.16En þeir ræddu sín á milli, að þeir hefðu ekki brauð.17Hann varð þess vís og segir við þá: Hvað eruð þér að tala um, að þér hafið ekki brauð? Skynjið þér ekki enn né skiljið? Eru hjörtu yðar forhert?18Þér hafið augu, sjáið þér ekki? Þér hafið eyru, heyrið þér ekki? Eða munið þér ekki?19Þegar ég braut brauðin fimm handa fimm þúsundum, hve margar körfur fullar af brauðbitum tókuð þér saman? Þeir svara honum: Tólf.20Eða brauðin sjö handa fjórum þúsundunum, hve margar körfur fullar af brauðbitum tókuð þér þá saman? Þeir svara: Sjö.21Og hann sagði við þá: Skiljið þér ekki enn?22Þeir koma nú til Betsaídu. Þar færa menn til Jesú blindan mann og biðja, að hann snerti hann.23Hann tók í hönd hins blinda, leiddi hann út úr þorpinu, skyrpti í augu hans, lagði hendur yfir hann og spurði: Sér þú nokkuð?24Hann leit upp og mælti: Ég sé menn, ég greini þá líkt og tré, þeir ganga.25Þá lagði hann aftur hendur yfir augu hans, og nú sá hann skýrt, varð albata og heilskyggn á allt.26Jesús sendi hann síðan heim til sín og sagði: Inn í þorpið máttu ekki fara.27Jesús fór nú ásamt lærisveinum sínum til þorpanna hjá Sesareu Filippí. Á leiðinni spurði hann lærisveina sína: Hvern segja menn mig vera?28Þeir svöruðu honum: Jóhannes skírara, aðrir Elía og aðrir einn af spámönnunum.29Og hann spurði þá: En þér, hvern segið þér mig vera? Pétur svaraði honum: Þú ert Kristur.30Og hann lagði ríkt á við þá að segja engum frá sér.31Þá tók hann að kenna þeim: Mannssonurinn á margt að líða, honum mun útskúfað verða af öldungum, æðstu prestum og fræðimönnum, hann mun líflátinn, en upp rísa eftir þrjá daga.32Þetta sagði hann berum orðum. En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann.33Jesús sneri sér við, leit til lærisveina sinna, ávítaði Pétur og sagði: Vík frá mér, Satan, eigi hugsar þú um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er.34Og hann kallaði til sín mannfjöldann ásamt lærisveinum sínum og sagði við þá: Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.35Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu vegna mín og fagnaðarerindisins, mun bjarga því.36Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn, en fyrirgjöra sálu sinni?37Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?38En þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð hjá þessari ótrúu, syndugu kynslóð, mun Mannssonurinn blygðast sín fyrir, er hann kemur í dýrð föður síns með heilögum englum.
8.11-13 Hlst. Matt 16.1-4
8.11 Jesú freistað Matt 16.1+ – tákn af himni Jes 7.10-14; Matt 12.38; 16.1; Lúk 11.16; Jóh 6.30; 1Kor 1.22; sbr 5Mós 18.20-22
8.12 Þessi kynslóð Matt 11.16; 12.41; Mrk 13.30 og hlst.; Lúk 7.31; 11.29-32,50-51; 17.25; Heb 3.10; sbr Matt 12.39+ – synjað um tákn Matt 12.39+
8.14-21 Hlst. Matt 16.5-12
8.15 Súrdeig farísea Lúk 12.1; sbr 1Kor 5.6-8; Gal 5.9
8.17 Skilningsleysi lærisveinanna Mrk 4.13; 6.52; 7.18 – sljó hjörtu Mrk 3.5+
8.18 Sbr Jer 5.21; Esk 12.2; Mrk 4.12; Post 28.26
8.19 Brauðin fimm Mrk 6.35-44 og hlst.
8.20 Brauðin sjö Matt 15.32-38; Mrk 8.1-9
8.22 Blindur maður Mrk 10.46-52
8.23 Sbr Mrk 7.32-33 – skyrpti Jóh 9.6
8.27-30 Hlst. Matt 16.13-20; Lúk 9.18-21
8.28 Hvern töldu þeir hann? Mrk 6.14-15; Lúk 9.7-8 – Elía Matt 11.14+
8.29 Kristur Mrk 1.1; 14.61-62; Lúk 4.41+
8.30 Segja engum Mrk 1.25+ ; Matt 8.4+
8.31-9.1 Hlst. Matt 16.21-28; Lúk 9.22-27
8.31 Á margt að líða Matt 17.12,22; Mrk 9.12; Lúk 17.25; Post 17.3; sbr Mrk 9.30-32; 10.32-34 – Mannssonurinn Matt 8.20+ – eftir þrjá daga Mrk 10.34
8.33 Satan Mrk 1.13+
8.34 Fylgja Jesú Matt 4.19+ ; Mrk 1.17,20 – taka kross sinn Matt 10.38; Lúk 14.27
8.35 Týna og bjarga Matt 10.39+ – fagnaðarerindið Mrk 1.1+
8.38 Blygðast sín Matt 10.33; Lúk 12.9; 2Tím 2.12; sbr Matt 7.23; 25.12; Róm 1.16