1Að morgni gjörðu allir æðstu prestarnir og öldungar lýðsins samþykkt gegn Jesú, að hann skyldi af lífi tekinn.2Þeir létu binda hann og færa brott og framseldu hann Pílatusi landshöfðingja.3Þegar Júdas, sem sveik hann, sá, að hann var dæmdur sekur, iðraðist hann og skilaði æðstu prestunum og öldungunum silfurpeningunum þrjátíu4og mælti: Ég drýgði synd, ég sveik saklaust blóð. Þeir sögðu: Hvað varðar oss um það? Það er þitt að sjá fyrir því.5Hann fleygði þá silfrinu inn í musterið og hélt brott. Síðan fór hann og hengdi sig.6Æðstu prestarnir tóku silfrið og sögðu: Ekki má láta það í guðskistuna, því þetta eru blóðpeningar.7Og þeir urðu ásáttir um að kaupa fyrir þá leirkerasmiðs akurinn til grafreits handa útlendingum.8Þess vegna kallast hann enn í dag Blóðreitur.9Þá rættist það, sem sagt var fyrir munn Jeremía spámanns: Þeir tóku silfurpeningana þrjátíu, það verð, sem sá var metinn á, er til verðs var lagður af Ísraels sonum,10og keyptu fyrir þá leirkerasmiðs akurinn eins og Drottinn hafði fyrir mig lagt.11Jesús kom nú fyrir landshöfðingjann. Landshöfðinginn spurði hann: Ert þú konungur Gyðinga? Jesús svaraði: Þú segir það.12Æðstu prestarnir og öldungarnir báru á hann sakir, en hann svaraði engu.13Þá spurði Pílatus hann: Heyrir þú ekki, hve mjög þeir vitna gegn þér?14En hann svaraði honum ekki, engu orði hans, og undraðist landshöfðinginn mjög.15Á hátíðinni var landshöfðinginn vanur að gefa lýðnum lausan einn bandingja, þann er þeir vildu.16Þá var þar alræmdur bandingi í haldi, Barabbas að nafni.17Sem þeir nú voru saman komnir, sagði Pílatus við þá: Hvorn viljið þér, að ég gefi yður lausan, Barabbas eða Jesú, sem kallast Kristur?18Hann vissi, að þeir höfðu fyrir öfundar sakir framselt hann.19Meðan Pílatus sat á dómstólnum, sendi kona hans til hans með þessi orð: Láttu þennan réttláta mann vera, þungir hafa draumar mínir verið í nótt hans vegna.20En æðstu prestarnir og öldungarnir fengu múginn til að biðja um Barabbas, en að Jesús yrði deyddur.21Landshöfðinginn spurði: Hvorn þeirra tveggja viljið þér, að ég gefi yður lausan? Þeir sögðu: Barabbas.22Pílatus spyr: Hvað á ég þá að gjöra við Jesú, sem kallast Kristur? Þeir segja allir: Krossfestu hann.23Hann spurði: Hvað illt hefur hann þá gjört? En þeir æptu því meir: Krossfestu hann!24Nú sér Pílatus, að hann fær ekki að gjört, en ólætin aukast. Hann tók vatn, þvoði hendur sínar frammi fyrir fólkinu og mælti: Sýkn er ég af blóði þessa manns! Svarið þér sjálfir fyrir!25Og allur lýðurinn sagði: Komi blóð hans yfir oss og yfir börn vor!26Þá gaf hann þeim Barabbas lausan, en lét húðstrýkja Jesú og framseldi hann til krossfestingar.27Hermenn landshöfðingjans fóru nú með hann inn í höllina og söfnuðu um hann allri hersveitinni.28Þeir afklæddu hann og færðu hann í skarlatsrauða kápu,29fléttuðu þyrnikórónu og settu á höfuð honum, en reyrsprota í hægri hönd hans. Síðan féllu þeir á kné fyrir honum og höfðu hann að háði og sögðu: Heill þú, konungur Gyðinga!30Og þeir hræktu á hann, tóku reyrsprotann og slógu hann í höfuðið.31Þegar þeir höfðu spottað hann, færðu þeir hann úr kápunni og í hans eigin klæði. Þá leiddu þeir hann út til að krossfesta hann.32Á leiðinni hittu þeir mann frá Kýrene, er Símon hét. Hann neyddu þeir til að bera kross Jesú.33Og er þeir komu til þess staðar, er heitir Golgata, það þýðir hauskúpustaður,34gáfu þeir honum vín að drekka, galli blandað. Hann bragðaði það, en vildi ekki drekka.35Þá krossfestu þeir hann. Og þeir köstuðu hlutum um klæði hans og skiptu með sér,36sátu þar svo og gættu hans.37Yfir höfði hans festu þeir sakargift hans svo skráða: ÞESSI ER JESÚS, KONUNGUR GYÐINGA.38Þá voru krossfestir með honum tveir ræningjar, annar til hægri, hinn til vinstri.39Þeir, sem fram hjá gengu, hæddu hann, skóku höfuð sín40og sögðu: Þú sem brýtur niður musterið og reisir það á þrem dögum. Bjarga nú sjálfum þér, ef þú ert sonur Guðs, og stíg niður af krossinum!41Eins gjörðu æðstu prestarnir gys að honum og fræðimennirnir og öldungarnir og sögðu:42Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað. Hann er konungur Ísraels, stígi hann nú niður af krossinum, þá skulum vér trúa á hann.43Hann treystir Guði. Nú ætti Guð að frelsa hann, ef hann hefur mætur á honum. Eða sagði hann ekki: Ég er sonur Guðs?44Einnig ræningjarnir, sem með honum voru krossfestir, smánuðu hann á sama hátt.45En frá hádegi varð myrkur um allt land til nóns.46Og um nón kallaði Jesús hárri röddu: Elí, Elí, lama sabaktaní! Það þýðir: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?47Nokkrir þeirra, er þar stóðu, heyrðu þetta og sögðu: Hann kallar á Elía!48Jafnskjótt hljóp einn þeirra til, tók njarðarvött og fyllti ediki, stakk á reyrstaf og gaf honum að drekka.49Hinir sögðu: Sjáum til, hvort Elía kemur að bjarga honum.50En Jesús hrópaði aftur hárri röddu og gaf upp andann.51Þá rifnaði fortjald musterisins í tvennt, ofan frá og niður úr, jörðin skalf og björgin klofnuðu,52grafir opnuðust og margir líkamir helgra látinna manna risu upp.53Eftir upprisu Jesú gengu þeir úr gröfum sínum og komu í borgina helgu og birtust mörgum.54Þegar hundraðshöfðinginn og þeir, sem með honum gættu Jesú, sáu landskjálftann og atburði þessa, hræddust þeir mjög og sögðu: Sannarlega var þessi maður sonur Guðs.55Þar voru og margar konur, sem álengdar horfðu á, þær höfðu fylgt Jesú frá Galíleu og þjónað honum.56Meðal þeirra var María Magdalena, María, móðir þeirra Jakobs og Jósefs, og móðir Sebedeussona.57Um kvöldið kom auðugur maður frá Arímaþeu, Jósef að nafni, er sjálfur var orðinn lærisveinn Jesú.58Hann gekk til Pílatusar og bað hann um líkama Jesú. Pílatus bauð þá að fá Jósef hann.59Jósef tók líkið, sveipaði það hreinu línklæði60og lagði í nýja gröf, sem hann átti og hafði látið höggva í klett, velti síðan stórum steini fyrir grafarmunnann og fór burt.61María Magdalena var þar og María hin, og sátu þær gegnt gröfinni.62Næsta dag, daginn eftir aðfangadag, gengu æðstu prestarnir og farísearnir saman fyrir Pílatus63og sögðu: Herra, vér minnumst þess, að svikari þessi sagði í lifanda lífi: Eftir þrjá daga rís ég upp.64Bjóð því, að grafarinnar sé vandlega gætt allt til þriðja dags, ella gætu lærisveinar hans komið og stolið honum og sagt fólkinu: Hann er risinn frá dauðum. Þá verða síðari svikin verri hinum fyrri.65Pílatus sagði við þá: Hér hafið þér varðmenn, farið og búið svo tryggilega um sem best þér kunnið.66Þeir fóru og gengu tryggilega frá gröfinni og innsigluðu steininn með aðstoð varðmannanna.
27.1 Samþykkt Matt 12.14; Mrk 3.6
27.2 Framselja Matt 26.2+
27.3-10 Hlst. Post 1.18-19
27.3 Þrjátíu silfurpeningar Matt 26.15+
27.4 Það er þitt Matt 27.24
27.8 Blóðreitur Post 1.19
27.9 Ritningar rætast Matt 1.22+
27.9-10 Sbr Sak 11.12-13; Jer 18.2-3; 19.1-2; 32.6-15
27.11-14 Hlst. Mrk 15.2-5; Lúk 23.3-5; Jóh 18.33-38
27.11 Konungur gyðinga Matt 2.2+
27.12 Svaraði engu Matt 26.63+
27.15-26 Hlst. Mrk 15.6-15; Lúk 23.13-25; Jóh 18.39-19.16
27.22 Krossfestu hann Post 3.13; 13.28
27.24 Þvoði hendur sínar sbr 5Mós 21.6-8 – sýkn Post 18.6; 20.26 – svarið sjálf Matt 27.4
27.25 Yfir okkur 2Sam 1.13-16; Post 5.28 – yfir börn okkar Lúk 23.28
27.26 Húðstrýking Matt 10.17; 23.34; Post 5.40; 22.19
27.27-31 Hlst. Mrk 15.16-20; Jóh 19.2-3
27.29 Hæða Matt 20.19; 27.41; sbr Slm 22.8; 44.14; 52.8 – konungur Gyðinga Matt 2.2+
27.30 Hrækja Matt 26.67; sbr Jes 50.6
27.33-44 Hlst. Mrk 15.21-32; Lúk 23.26-43; Jóh 19.17-27
27.32 Kýrene Post 2.10; 11.20
27.34 Sbr Slm 69.22
27.35 Sbr Slm 22.19
27.38 Ræningjar Matt 26.55; sbr Jes 53.12 – með honum Matt 20.21
27.39 Hæðast að Slm 22.8; 109.25; Hlj 2.15
27.40 Brýtur niður musterið Matt 26.61+ – sonur Guðs Matt 14.33+
27.41 Gera gys að Matt 27.29
27.42 Konungur Ísraels Jóh 1.49; 12.13
27.43 Sbr Slm 22.9; SSal 2.13,18-20 – sagði hann ekki … Jóh 5.18; 10.36; 19.7
27.45-56 Hlst. Mrk 15.33-41; Lúk 23.44-49; Jóh 19.28-30
27.45 Myrkur 2Mós 10.22; Am 8.9-10
27.46 Sbr Slm 22.2
27.47 Elía Matt 11.14+
27.48 Sbr Slm 69.22
27.51 Fortjald musterisins 2Mós 26.31-35; Heb 6.19; 10.20
27.51-53 Náttúruhamfarir Am 8.3; Jes 26.19; Esk 37.12; Dan 12.2
27.53 Borgin helga Matt 4.5+
27.54 Sonur Guðs Matt 14.33+
27.55 Konur Lúk 8.2-3
27.56 María Magdalena Matt 27.61; 28.1; Mrk 15.40,47; 16.1,9; Lúk 8.2; 24.10; Jóh 19.25; 20.1-18 – kona Sebedeusar Matt 20.20
27.57-61 Hlst. Mrk 15.42-47; Lúk 23.50-56; Jóh 19.38-42
27.58 Sbr 5Mós 21.22-33
27.60 Gröf Mrk 6.29; Post 13.29 – stór steinn Matt 28.2; Mrk 16.3-4
27.61 María hin Matt 27.56; 28.1; Mrk 15.40,47; 16.1; Lúk 24.10; Jóh 19.25
27.62 Hvíldardaginn Mrk 15.42; Lúk 23.54; Jóh 19.31,42
27.63 Þrír dagar Matt 12.40; 16.21 og hlst.; 17.23 og hlst.; 20.19; Lúk 24.7