1Þá fréttu þeir Sefatja Mattansson, Gedalja Pashúrsson, Júkal Selemjason og Pashúr Malkíason þau orð, er Jeremía talaði til alls lýðsins:2Svo segir Drottinn: Þeir, sem verða kyrrir í þessari borg, munu deyja fyrir sverði, af hungri og af drepsótt, en þeir, sem fara út til Kaldea, munu lífi halda og hljóta líf sitt að herfangi og lifa.3Svo segir Drottinn: Þessi borg mun vissulega verða gefin her Babelkonungs á vald og hann mun vinna hana!4Þá sögðu höfðingjarnir við konung: Lát drepa mann þennan! Því að hann gjörir hermennina, sem eftir eru í þessari borg, huglausa og allan lýðinn með því að tala slík orð til þeirra, því að þessi maður leitar ekki þess, sem þessum lýð er til heilla, heldur þess, sem honum er til ógæfu.5En Sedekía konungur svaraði: Sjá, hann er á yðar valdi, því að konungurinn megnar ekkert á móti yður.6Þá tóku þeir Jeremía og köstuðu honum í gryfju Malkía konungssonar, sem var í varðgarðinum, og létu þeir Jeremía síga niður í böndum, en í gryfjunni var ekkert vatn, heldur leðja, og Jeremía sökk ofan í leðjuna.7En er Ebed-Melek, blálenskur geldingur, sem var í konungshöllinni, frétti, að þeir hefðu varpað Jeremía í gryfjuna, en konungur sat þá í Benjamínshliði,8þá gekk Ebed-Melek út úr konungshöllinni og mælti til konungs á þessa leið:9Minn herra konungur! Illverk hafa þessir menn framið með öllu því, er þeir hafa gjört við Jeremía spámann, sem þeir köstuðu í gryfjuna, svo að hann hlýtur að deyja þar úr hungri, því að ekkert brauð er framar til í borginni.10Þá skipaði konungur Ebed-Melek Blálendingi á þessa leið: Tak héðan með þér þrjá menn og drag Jeremía spámann upp úr gryfjunni, áður en hann deyr.11Og Ebed-Melek tók mennina með sér og fór inn í konungshöllina, inn undir féhirsluna, og tók þar sundurrifna fataræfla og klæðaslitur og lét síga í böndum niður í gryfjuna til Jeremía.12Síðan mælti Ebed-Melek Blálendingur til Jeremía: Legg rifnu og slitnu fataræflana undir hendur þér undir böndin! Og Jeremía gjörði svo.13Og þeir drógu Jeremía upp með böndunum og hófu hann upp úr gryfjunni. Og sat nú Jeremía í varðgarðinum.14Sedekía konungur sendi menn og lét sækja Jeremía spámann til sín að þriðju dyrunum, sem eru í musteri Drottins, og konungur mælti til Jeremía: Ég vil spyrja þig nokkurs, leyn mig engu!15En Jeremía mælti til Sedekía: Hvort munt þú ekki deyða mig, ef ég segi þér það? Og þótt ég ráðleggi þér eitthvað, þá hlýðir þú mér ekki!16Þá vann Sedekía konungur Jeremía eið á laun og mælti: Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er skapað hefir í oss þetta líf, skal ég ekki deyða þig né selja þig á vald þessara manna, sem sitja um líf þitt.17Þá sagði Jeremía við Sedekía: Svo segir Drottinn, Guð allsherjar, Ísraels Guð: Ef þú gengur á vald höfðingjum Babelkonungs, þá munt þú lífi halda og borg þessi eigi verða brennd í eldi, og þú munt lífi halda og fólk þitt.18En gangir þú ekki á vald höfðingjum Babelkonungs, þá mun borg þessi seld verða á vald Kaldea, og þeir munu brenna hana í eldi, og þú munt ekki heldur komast undan þeim.19Þá sagði Sedekía konungur við Jeremía: Ég óttast þá Júdamenn, sem þegar hafa hlaupist yfir til Kaldea, að menn kynnu að selja mig þeim á vald og þeir draga dár að mér!20En Jeremía sagði: Þeir munu eigi framselja þig. Hlýð þú boði Drottins í því, er ég segi þér, þá mun þér vel vegna og þú lífi halda.21En ef þú færist undan að ganga á vald þeirra, þá hefir Drottinn birt mér þetta:22Sjá, allar þær konur, sem eftir munu verða í höll Júdakonungs, munu fluttar verða til höfðingja Babelkonungs, og þær munu segja: Menn, sem voru í vináttu við þig, hafa ginnt þig og orðið þér yfirsterkari. Þegar fætur þínir sukku í foræðið, hörfuðu þeir aftur á bak!23Og allar konur þínar og börn þín munu færð verða Kaldeum, og ekki munt þú heldur komast undan þeim, heldur munt þú gripinn verða og seldur á vald Babelkonungs, og þessi borg mun brennd verða í eldi.24Þá sagði Sedekía við Jeremía: Enginn maður má vita af þessum viðræðum, ella verður það þinn bani.25En þegar höfðingjarnir frétta, að ég hafi talað við þig, og þeir koma til þín og segja við þig: Seg oss, hvað þú talaðir við konung, leyn oss engu, ella drepum vér þig og hvað konungur talaði við þig,26þá seg við þá: Ég bað konung auðmjúklega að láta mig ekki fara aftur í hús Jónatans til þess að deyja þar.27Og allir höfðingjarnir komu til Jeremía og spurðu hann, en hann skýrði þeim með öllu svo frá sem konungur hafði lagt fyrir. Þá gengu þeir rólegir burt frá honum, því að þetta hafði ekki orðið hljóðbært.28Og Jeremía sat í varðgarðinum allt til þess dags, er Jerúsalem var unnin.
38.2 Borgin umsetin Jer 21.9 – sverð, hungur, drepsótt Jer 14.12+ – halda lífi Jer 21.9
38.4 Dregur úr hugrekki Jer 6.24
38.5 Á yðar valdi Dan 6.16; VDan 2.30
38.6 Forgarður varðliðsins Jer 32.2+
38.7 Benjamínshlið Jer 37.13
38.16 Svo sannarlega sem Drottinn lifir Jer 4.2; 16.14; 44.26
38.17 Halda lífi Jer 38.2
38.20 Hlusta á orð Drottins Jer 42.6
38.22 Blekkja Ób 7
38.26 Hús Jónatans Jer 37.15
38.28 Í forgarði varðliðsins Jer 38.6,13; Jer 32.2+