1Gangið fram og aftur um stræti Jerúsalem, litist um og rannsakið og leitið á torgunum, hvort þér finnið nokkurn mann, hvort þar sé nokkur, sem gjörir það sem rétt er og leitast við að sýna trúmennsku, og mun ég fyrirgefa henni.2Og þótt þeir segi: svo sannarlega sem Drottinn lifir, sverja þeir engu að síður meinsæri.3En, Drottinn, líta ekki augu þín á trúfesti? Þú laust þá, en þeir kenndu ekkert til, þú eyddir þeim, en þeir vildu ekki taka aga. Þeir gjörðu andlit sín harðari en stein, þeir vildu ekki snúa við.4En ég hugsaði: Það eru aðeins hinir lítilmótlegu, sem breyta heimskulega, af því að þeir þekkja ekki veg Drottins, réttindi Guðs síns.5Ég ætla að fara til stórmennanna og tala við þá, því að þeir þekkja veg Drottins, réttindi Guðs síns. En einmitt þeir höfðu allir saman brotið sundur okið og slitið af sér böndin.6Fyrir því drepur þá ljón úr skóginum, fyrir því eyðir þeim úlfurinn, sem hefst við á heiðunum. Pardusdýrið situr um borgir þeirra, svo að hver sá, er út úr þeim fer, verður rifinn sundur, því að afbrot þeirra eru mörg, fráhvarfssyndir þeirra miklar.7Hví skyldi ég fyrirgefa þér? Börn þín hafa yfirgefið mig og svarið við þá, sem ekki eru guðir, og þótt ég mettaði þá, tóku þeir fram hjá og þyrptust að hóruhúsinu.8Eins og sællegir stóðhestar hlaupa þeir til og frá og hvía hver að annars konu.9Ætti ég ekki að hegna slíkum mönnum? segir Drottinn, eða hefna mín á annarri eins þjóð og þessari?10Stígið upp á víngarðshjalla þjóðar minnar og rífið niður, en gjörið þó ekki aleyðing, takið burt vínviðargreinar hennar, því að þær heyra ekki Drottni.11Því að Ísraels hús og Júda hús hafa breytt mjög sviksamlega gegn mér segir Drottinn.12Þeir hafa afneitað Drottni og sagt: Það er ekki hann, og engin ógæfa mun yfir oss koma, sverð og hungur munum vér ekki sjá.13Spámennirnir munu verða að vindi, því að orð Guðs býr ekki í þeim.14Fyrir því mælir Drottinn, Guð allsherjar, svo: Af því að þeir hafa mælt slíkum orðum, fer svo fyrir þeim sjálfum! Ég gjöri orð mín í munni þínum að eldi og þessa þjóð að eldiviði, til þess að hann eyði henni.15Sjá, ég læt þjóð koma yfir yður úr fjarlægu landi, Ísraels hús segir Drottinn. Það er óbilug þjóð, það er afar gömul þjóð, tungu þeirrar þjóðar þekkir þú ekki, og skilur ekki, hvað hún segir.16Örvamælir hennar er sem opin gröf, allir eru þeir kappar.17Hún mun eta uppskeru þína og neyslukorn þitt, þeir munu eta sonu þína og dætur. Hún mun eta sauði þína og naut, hún mun eta víntré þín og fíkjutré, hún mun brjóta niður með sverði hinar víggirtu borgir þínar, er þú reiðir þig á.18En á þeim dögum segir Drottinn mun ég samt ekki gjöra aleyðing á yður.19En ef þér þá segið: Fyrir hvað gjörir Drottinn, Guð vor, oss allt þetta? þá skalt þú segja við þá: Eins og þér hafið yfirgefið mig og þjónað öðrum guðum í yðar landi, svo skuluð þér verða annarra þrælar í landi, sem ekki er yðar land.20Kunngjörið það í húsi Jakobs og boðið það í Júda:21Heyr þetta, þú heimski og skilningslausi lýður, þér sem hafið augu, en sjáið ekki, þér sem hafið eyru, en heyrið ekki!22Mig viljið þér ekki óttast segir Drottinn eða skjálfa fyrir mínu augliti? fyrir mér, sem hefi sett hafinu fjörusandinn að takmarki, ævarandi girðingu, sem það kemst ekki yfir. Og þótt öldur þess komi æðandi, þá vinna þær ekki á, og þótt þær gnýi, þá komast þær ekki yfir hana.23En lýður þessi er þverúðarfullur og þrjóskur í hjarta. Þeir hafa vikið af leið og horfið burt,24en sögðu ekki í hjarta sínu: Óttumst Drottin, Guð vorn, sem gefur regnið, haustregnið og vorregnið, í réttan tíma og viðheldur handa oss ákveðnum uppskeruvikum.25Misgjörðir yðar hafa fært allt þetta úr skorðum, og syndir yðar hafa hrundið blessuninni burt frá yður.26Meðal lýðs míns eru óguðlegir menn. Þeir liggja í fyrirsát, eins og þegar fuglarar húka, þeir leggja snörur til þess að veiða menn.27„Eins og fuglabúr fullt af fuglum, svo eru hús þeirra full af svikum; á þann hátt eru þeir orðnir miklir og auðugir.“28Þeir eru orðnir feitir, það stirnir á þá. Þeir eru og fleytifullir af illskutali, málefni munaðarleysingjans taka þeir ekki að sér til þess að bera það fram til sigurs, og þeir reka ekki réttar fátæklinganna.29Ætti ég ekki að hegna slíkum mönnum? segir Drottinn eða hefna mín á annarri eins þjóð og þessari?30Óttalegt og hryllilegt er það, sem við ber í landinu!31Spámennirnir kenna lygar og prestarnir drottna eftir tilsögn þeirra, og þjóð minni þykir fara vel á því. En hvað ætlið þér að gjöra, þegar að skuldadögunum kemur?
5.2 Sverja Jer 4.2+ – meinsæri Jer 7.9
5.3 Sveið ekki undan Jer 2.30; 3.3; Am 4.6-11 – létu sér ekki segjast Jer 7.28; 17.23; 32.33; Sef 3.2 – vildu ekki Jer 8.5; sbr 15.7
5.4 Kröfur Guðs Jer 8.7
5.5 Stórmennin Mík 3.1 – brotið okið Jer 2.20; sbr 2.8
5.6 Ljón Jer 4.7 – makleg málagjöld Jer 30.15
5.7 Yfirgefið mig Jer 2.13+ – ekki guðir Jer 2.11+ ; 2Mós 23.13; 1Kon 19.18; Gal 4.8
5.8 Annars konu Jer 13.27; Esk 22.11; sbr Jer 9.2+
5.9 Ætti ég ekki að refsa? Jer 5.29; 6.15; 9.8; 11.22; 21.14; 46.25
5.10 Gereyðing Jer 4.27 – teinungar sbr Jes 5.1+
5.12 Hann er ekkert Sef 1.12; Slm 10.4; 14.1 – engin ógæfa Jes 28.15 – sverð og hungur Jer 14.13
5.14 Í munni þér Jer 1.9+ – eldur Jer 20.9+ ; Jes 10.17; Opb 11.5
5.15 Úr fjarlægu landi Jer 6.22; 5Mós 28.49; Hab 1.6
5.17 Gleypa uppskeru þína 3Mós 26.16; 5Mós 28.33,51; Jes 65.22; sbr Jer 6.12
5.19 Hvers vegna? Jer 16.10; 22.8; 5Mós 29.23-25 – þjóna öðrum Jer 1.16; 16.11; 17.13; 1Sam 7.3
5.21 Hafa augu en sérð ekki Jes 6.9-10; Matt 13.15; Mrk 4.12; 8.18
5.22 Óttast Drottin Jer 10.7 – skjálfa Jer 2.19 – setti hafinu takmörk Slm 104.9
5.23 Þverúðarfull Jer 6.28; 5Mós 31.27; Hós 11.7
5.24 Regn á réttum tíma Jer 10.13; 5Mós 11.14; Jl 2.23; Sak 10.1
5.25 Úr skorðum Jer 3.3; 14.1-7; 1Mós 3.17-19; sbr Jes 59.2
5.26 Leynast Slm 10.9+ ; Okv 1.11
5.27 Velgengni guðlausra Slm 73.3,12
5.28 Feit 5Mós 32.15; Slm 73.7
5.29 Refsa Jer 5.9+
5.30 Hræðilegt Jer 18.13; 23.14; Hós 6.10
5.31 Lygaspámenn Jer 20.6 – þjóð minni fellur það vel Mík 2.11; sbr Jóh 3.19