1Svo segir Drottinn: Varðveitið réttinn og gjörið það, sem rétt er, því að hjálpræði mitt er í nánd og réttlæti mitt birtist bráðlega.2Sæll er sá maður, sem gjörir þetta, og það mannsbarn, sem heldur fast við það, sá sem gætir þess að vanhelga ekki hvíldardaginn og varðveitir hönd sína frá því að gjöra nokkuð illt.3Eigi má útlendingurinn, er gengið hefir Drottni á hönd, segja: Drottinn mun skilja mig frá lýð sínum! Og eigi má geldingurinn segja: Ég er visið tré!4Því að svo segir Drottinn: Geldingunum, sem halda hvíldardaga mína og kjósa það, sem mér vel líkar, og halda fast við sáttmála minn,5þeim vil ég gefa minningarmark og nafn í húsi mínu og á múrveggjum mínum, sem er betra en synir og dætur. Eilíft nafn vil ég gefa þeim, það er aldrei mun afmáð verða.6Og útlendinga, sem gengið hafa Drottni á hönd til þess að þjóna honum og til þess að elska nafn Drottins, til þess að verða þjónar hans alla þá, sem gæta þess að vanhelga ekki hvíldardaginn og halda fast við minn sáttmála,7þá mun ég leiða til míns heilaga fjalls og gleðja þá í bænahúsi mínu. Brennifórnir þeirra og sláturfórnir skulu vera mér þóknanlegar á altari mínu. Því að hús mitt skal nefnast bænahús fyrir allar þjóðir.8Hinn alvaldi Drottinn segir: Þegar ég safna saman hinum burtreknu af Ísrael, mun ég og safna mörgum auk þeirra!9Safnist saman, öll dýr merkurinnar, komið til að eta, öll dýr skógarins!10Varðmenn Ísraels eru allir blindir, vita ekki neitt, þeir eru allir hljóðlausir hundar, sem ekki geta gelt. Þeir liggja í draummóki, þeim þykir gott að lúra.11Og hundarnir eru gráðsoltnir, fá aldrei fylli sína. Og hirðarnir sjálfir hafa ekki vit á að taka eftir, þeir fara hver sinna ferða, líta allir á eigin hag:12Komið, ég ætla að sækja vín, vér skulum drekka ósleitulega! Og morgundagurinn skal verða sem þessi, dýrlegur næsta mjög!
56.2 Sæll Slm 1.1+ – hvíldardagurinn Jes 58.13; 2Mós 20.8; Am 8.5
56.3 Geldingurinn 3Mós 21.20; 5Mós 23.1-8; Sír 3.14; Matt 19.12
56.4 Sem mér þóknast Jes 65.12; 66.4
56.5 Betra en synir 1Sam 1.8; SSal 4.1 – eilíft nafn Jes 55.13; Opb 3.5
56.6 Útlendinga 2Mós 12.43; 5Mós 14.21; 15.3; 23.19; Esk 44.7-9; 1Kon 8.41-43
56.7 Heilaga fjalls Slm 15.1; sbr Slm 3.5+ – þóknanlegar fórnir Jes 60.7 – hús mitt … Mrk 11.17 og hlst.
56.8 Burtreknir safnast saman Jes 11.12; Slm 147.2 – enn fleirum Jes 43.9; 66.18
56.11 Fjárhirðar Jer 23.1; Esk 34.2 – hver sína leið Jes 53.6; 57.17
56.12 Teyga bjór Jes 5.11; 28.7