1Svo bar til á dögum Akasar, konungs í Júda, Jótamssonar, Ússíasonar, að Resín Sýrlandskonungur og Peka Remaljason, konungur í Ísrael, fóru upp til Jerúsalem til að herja á hana, en fengu ekki unnið hana.2Þá kom húsi Davíðs þessi fregn: Sýrland hefir gjört bandalag við Efraím. Skalf þá hjarta konungs og hjarta þjóðar hans, eins og skógartré skjálfa fyrir vindi.3Þá sagði Drottinn við Jesaja: Gakk þú og Sear Jasúb, sonur þinn, til móts við Akas, að enda vatnstokksins úr efri tjörninni, við veginn út á bleikivöllinn,4og seg við hann: Gæt þín og haf kyrrt um þig. Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast fyrir þessum tveimur rjúkandi brandabrotum, fyrir brennandi reiði þeirra Resíns, Sýrlendinga og Remaljasonar.5Sökum þess að Sýrland, Efraím og Remaljasonur hafa haft ill ráð með höndum gegn þér og sagt:6Vér skulum fara herferð á hendur Júda og skjóta mönnum skelk í bringu, taka landið herskildi og setja Tabelsson þar til konungs,7sökum þess segir hinn alvaldi Drottinn: Það skal eigi takast og það skal eigi verða.8Damaskus er höfuð Sýrlands og Resín höfuð Damaskus. Og áður en liðin eru sextíu og fimm ár skal Efraím gjöreytt verða og eigi verða þjóð upp frá því.9Og Samaría er höfuð Efraíms og Remaljasonur höfuð Samaríu. Ef þér trúið eigi, munuð þér eigi fá staðist.10Og enn talaði Drottinn við Akas og sagði:11Bið þér tákns af Drottni, Guði þínum, hvort sem þú vilt heldur beiðast þess neðan úr undirheimum eða ofan að frá hæðum.12En Akas sagði: Ég vil einskis biðja og eigi freista Drottins.13Þá sagði Jesaja: Heyrið, þér niðjar Davíðs, nægir yður það eigi að þreyta menn, úr því að þér þreytið einnig Guð minn?14Fyrir því mun Drottinn gefa yður tákn sjálfur: Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel.15Við súrmjólk og hunang skal hann alast, þá er hann fer að hafa vit á að hafna hinu illa og velja hið góða.16Áður en sveinninn hefir vit á að hafna hinu illa og velja hið góða, skal mannauðn verða í landi þeirra tveggja konunga, sem nú skelfa þig.17Drottinn mun láta yfir þig og yfir þjóð þína og yfir hús föður þíns þá daga koma, að ekki hafa slíkir yfir liðið síðan Efraím skildist frá Júda Assýríukonung.18Á þeim degi mun Drottinn blístra á flugurnar, sem eru við mynnið á Níl-kvíslunum á Egyptalandi, og á býflugurnar, sem eru í Assýríu,19og þær munu allar koma og setjast í dalverpin og bergskorurnar, í alla þyrnirunna og í öll vatnsból.20Á þeim degi mun Drottinn með rakhnífi, leigðum fyrir handan fljót með Assýríukonungi raka höfuðið og kviðhárin, og skeggið mun hann einnig nema burt.21Á þeim degi mun maður hafa kvígu og tvær ær,22og vegna þess, hve vel þær mjólka, mun hann hafa súrmjólk til matar. Á súrmjólk og hunangi skal hver maður lifa, sem eftir verður í landinu.23Og á þeim degi mun svo fara, að alls staðar þar sem áður stóðu þúsund vínviðir, þúsund sikla virði, þar skulu vaxa þyrnar og þistlar.24Menn skulu ekki fara þar um, nema þeir hafi með sér örvar og boga, því að landið skal ekki annað vera en þyrnar og þistlar.25Og öll fellin, sem nú eru stungin upp með skóflu þangað skal enginn maður koma af hræðslu við þyrna og þistla. Nautpeningi verður hleypt þangað og sauðfénaður látinn traðka þau niður.
7.2 Fjölskylda Davíðs 2Sam 7.11-14; Slm 89.30-38; 132.11-12
7.3 Sear-Jasúb Jes 10.21; sbr 4.3+ – efri tjörnin Jes 36.2 – þvottavöllurinn sbr 1Kon 1.9
7.4 Haltu ró þinni Jes 30.15 – óttastu ekki Jes 8.12 – hálfbrunnin sprek sbr Jes 42.3; 43.17; 51.12-13; 2Sam 14.7; Job 18.5-6
7.7 Það skal ekki takast Jes 8.10; 28.18; Slm 33.10
7.8 Höfuð Arams 2Kon 8.7; 2Kro 28.23
7.9 Trúið 2Kro 20.20
7.11 Tákn Jes 7.14; 8.18; Matt 16.1-4
7.12 Freista Drottins Slm 78.18+
7.14 Sonur yngismeyjar 1Mós 16.11; Dóm 13.3; Lúk 1.31 – Immanúel Jes 8.8,10; 41.10+; 4Mós 23.21; Am 5.14; Mík 3.11; Sef 3.15; Slm 46.8,12+
7.15 Hafna hinu illa 5Mós 1.39; 2Sam 14.17; 1Kon 3.9
7.16 Áður en … Jes 8.4
7.17 Assýríukonungur Jes 8.7-8; 36.1
7.18 Drottinn blístrar Jes 5.26 – Egyptaland Jes 37.9
7.20 Hár og skegg rakað Jes 3.24; Esk 5.1; sbr 2Sam 10.4-6
7.22 Þeir sem eftir verða Jes 4.3+
7.23 Auðæfi Samaríu Jes 2.7; 28.1 – eyðing Samaríu Jes 7.8-9; 8.4; 10.17-19; 17.4-6 – þyrnar og þistlar Jes 5.6+ ; 8.4
7.25 Niður tröðkuð af sauðfé Jes 17.2; 27.10; 32.14; Esk 25.5; Sef 2.6-7