1Hiskía varð konungur, þá er hann var tuttugu og fimm ára gamall og tuttugu og níu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Abía Sakaríadóttir.2Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, að öllu svo sem gjört hafði Davíð forfaðir hans.3Í fyrsta mánuði á fyrsta ríkisári sínu opnaði hann dyrnar að musteri Drottins, og gjörði við þær.4Síðan lét hann prestana og levítana koma og stefndi þeim saman á auða svæðinu austan til.5Og hann sagði við þá: Hlýðið á mig, þér levítar! Helgið nú sjálfa yður og helgið musteri Drottins, Guðs feðra yðar, og útrýmið viðurstyggðinni úr helgidóminum.6Því að feður vorir hafa sýnt ótrúmennsku og gjört það, sem illt var í augum Drottins, Guðs vors, og yfirgefið hann. Þeir sneru augliti sínu burt frá bústað Drottins og sneru við honum bakinu.7Þá hafa þeir og læst dyrunum að forsalnum, slökkt á lömpunum, eigi brennt reykelsi og eigi fært Guði Ísraels brennifórn í helgidóminum.8Fyrir því kom reiði Drottins yfir Júda og Jerúsalem, og hann lét þá sæta misþyrmingu og gjörði þá að undri og athlægi, svo sem þér sjáið með eigin augum.9Nú eru þá feður vorir fallnir fyrir sverðseggjum, og synir vorir og dætur og konur eru hernumdar fyrir þetta.10Nú hefi ég einsett mér að gjöra sáttmála við Drottin, Guð Ísraels, til þess að hin brennandi reiði hans megi hverfa frá oss.11Verið þá eigi skeytingarlausir, synir mínir! Því að yður hefir Drottinn útvalið til þess að standa frammi fyrir sér, til þess að þjóna sér, og til þess að þér skuluð vera þjónustumenn hans og brenna reykelsi honum til handa.12Þá gengu fram levítarnir: Mahat Amasaíson og Jóel Asarjason af Kahatítaniðjum. Af Meraríniðjum: Kís Abdíson og Asarja Jehallelelsson. Af Gersonítum: Jóa Simmason og Eden Jóason.13Af Elísafsniðjum: Simrí og Jeíel. Af Asafsniðjum: Sakaría og Mattanja.14Af Hemansniðjum: Jehíel og Símeí. Af Jedútúnsniðjum: Semaja og Ússíel.15Stefndu þeir saman frændum sínum, helguðu sig og komu að boði konungs til þess að hreinsa musteri Drottins eftir fyrirmælum Drottins.16Og prestarnir fóru inn í musteri Drottins til þess að hreinsa það, og fóru með allt óhreint, er þeir fundu í musteri Drottins, út í forgarð musteris Drottins. Tóku levítarnir við því til þess að fara með það út í Kídronlæk.17Hófu þeir helgunina hinn fyrsta dag hins fyrsta mánaðar, og á áttunda degi mánaðarins voru þeir komnir að forsal Drottins. Helguðu þeir síðan musteri Drottins á átta dögum, og á sextánda degi hins fyrsta mánaðar var verkinu lokið.18Gengu þeir þá inn fyrir Hiskía konung og sögðu: Vér höfum hreinsað allt musteri Drottins og brennifórnaraltarið og öll áhöld þess, svo og borðið fyrir raðabrauðin og öll áhöld þess.19Og öll þau áhöld, er Akas konungur smáði af ótrúmennsku sinni, höfum vér sett fram og helgað. Standa þau nú frammi fyrir altari Drottins.20Næsta morgun snemma stefndi Hiskía konungur saman höfuðsmönnum borgarinnar og fór upp í musteri Drottins.21Færðu þeir þá sjö naut, sjö hrúta, sjö lömb og sjö geithafra í syndafórn fyrir ríkið og fyrir helgidóminn og fyrir Júda. Og hann bauð niðjum Arons, prestunum, að færa hana á altari Drottins.22Slátruðu þeir þá nautunum, og tóku prestarnir við blóðinu og stökktu á altarið. Síðan slátruðu þeir hrútunum og stökktu blóðinu á altarið. Þá slátruðu þeir lömbunum og stökktu blóðinu á altarið.23Síðan færðu þeir syndafórnarhafrana fram fyrir konung og söfnuðinn, og lögðu þeir hendur sínar á þá.24Síðan slátruðu prestarnir þeim og færðu blóð þeirra í syndafórn á altarinu til þess að friðþægja fyrir allan Ísrael, því að konungur hafði fyrirskipað brennifórnina og syndafórnina fyrir allan Ísrael.25Og hann setti levítana í musteri Drottins með skálabumbur, hörpur og gígjur, samkvæmt fyrirmælum Davíðs og Gaðs, sjáanda konungs, og Natans spámanns. Því að þessi fyrirmæli voru að tilstilli Drottins, fyrir munn spámanna hans.26Stóðu þá levítarnir með hljóðfæri Davíðs, og prestarnir með lúðra.27Þá bauð Hiskía að láta brennifórnina á altarið og er brennifórnin var hafin, hófst og söngur Drottins og lúðrarnir kváðu við undir forustu hljóðfæra Davíðs Ísraelskonungs.28Þá féll allur söfnuðurinn fram, söngurinn kvað við og lúðrarnir gullu, allt þetta, þar til er brennifórninni var lokið.29Og er fórnfæringunni var lokið, beygði konungur kné sín og allir þeir, er með honum voru, og féllu fram.30Bauð þá Hiskía konungur og höfuðsmennirnir levítunum að syngja Drottni lofsöng með orðum Davíðs og Asafs sjáanda, og sungu þeir lofsönginn með gleði, hneigðu sig og féllu fram.31Þá tók Hiskía til máls og sagði: Nú hafið þér vígt yður Drottni. Gangið nú fram og farið með sláturfórnir og þakkarfórnir í musteri Drottins. Færði þá söfnuðurinn sláturfórnir og þakkarfórnir, og hver, sem til þess var fús, færði brennifórnir.32En talan á brennifórnunum, er söfnuðurinn færði, var: sjötíu naut, hundrað hrútar og tvö hundruð lömb. Var allt þetta ætlað til brennifórnar Drottni til handa.33Og þakkarfórnirnar voru sex hundruð naut og þrjú þúsund sauðir.34En prestarnir voru of fáir, svo að þeir gátu ekki flegið öll brennifórnardýrin. Hjálpuðu þá frændur þeirra, levítarnir, þeim, uns starfinu var lokið og prestarnir helguðu sig, því að levítarnir höfðu einlægari áhuga á því að helga sig en prestarnir.35Auk þessa voru færðar margar brennifórnir, ásamt hinum feitu stykkjum heillafórnanna og dreypifórnum þeim, er brennifórnunum fylgdu. Þannig var þjónustunni við musteri Drottins komið í lag.36En Hiskía og allur lýðurinn gladdist yfir því, er Guð hafði búið lýðnum, því að þessu var komið í kring samstundis.
29.3 Opnaði hliðin 2Kro 28.24
29.8 Orðið til háðungar 1Kon 9.7+
29.11 Færa reykelsisfórnir 4Mós 3.10
29.15 Hreinsa hús Drottins 1Makk 4.36-61; 2Makk 10.1-8; Matt 21.12-13
29.24 Brennifórn, syndafórn 3Mós 1; 4
29.26 Hljóðfri levítanna Esr 3.10+