1Og sjá, þegar Jeróbóam stóð fyrir altarinu til þess að færa þar reykelsisfórn, kom guðsmaður nokkur frá Júda til Betel að boði Drottins2og æpti gegn altarinu að boði Drottins og mælti: Altari, altari! Svo segir Drottinn: Sonur mun fæðast húsi Davíðs, Jósía að nafni. Hann mun á þér slátra hæðaprestunum, þeim er færa reykelsisfórnir á þér, og mannabeinum mun á þér brennt verða.3Og hann boðaði tákn þann dag og mælti: Þetta er tákn þess, að Drottinn hafi talað: Sjá, altarið mun rifna og askan, sem á því er, steypast niður.4Þegar konungur heyrði orð guðsmannsins, þau er hann æpti gegn altarinu í Betel, þá bandaði Jeróbóam með hendinni frá altarinu og mælti: Takið hann höndum! Þá visnaði hönd hans, er hann hafði bandað með móti honum, og hann gat ekki dregið hana að sér aftur.5En altarið rifnaði og askan steyptist niður af altarinu, samkvæmt tákninu, er guðsmaðurinn hafði boðað eftir skipun Drottins.6Þá tók konungur til máls og mælti við guðsmanninn: Blíðka þú Drottin, Guð þinn, og bið fyrir mér, svo að ég geti aftur dregið höndina að mér. Þá blíðkaði guðsmaðurinn Drottin, svo að konungur gat aftur dregið að sér höndina, og varð hún jafngóð.7Því næst mælti konungur við guðsmanninn: Kom þú heim með mér og hress þig, og mun ég gefa þér gjöf nokkra.8En guðsmaðurinn mælti við konung: Þótt þú gæfir mér hálfa aleigu þína, þá mundi ég samt eigi með þér fara, og eigi mundi ég matar neyta og eigi vatn drekka á þessum stað.9Því að svo hefir mér boðið verið fyrir orð Drottins, er var á þessa leið: Þú skalt eigi matar neyta né vatn drekka, og þú skalt eigi snúa aftur sömu leiðina sem þú komst.10Síðan fór hann burt aðra leið og sneri eigi aftur sömu leiðina sem hann hafði farið til Betel.11Í Betel bjó gamall spámaður. Og synir hans komu og sögðu honum frá öllu því, sem guðsmaðurinn hafði gjört í Betel þennan dag, og orð þau, er hann hafði talað til konungs. Og er þeir sögðu föður sínum frá þessu,12mælti faðir þeirra til þeirra: Hvaða leið fór hann? Og synir hans sýndu honum, hvaða leið guðsmaðurinn, sem kominn var frá Júda, hefði farið.13Og hann sagði við sonu sína: Söðlið mér asnann. Og þeir söðluðu asnann fyrir hann og hann steig á bak,14hélt á eftir guðsmanninum og fann hann, þar sem hann sat undir eik nokkurri. Hann mælti til hans: Ert þú guðsmaðurinn, sem kom frá Júda? Hinn svaraði: Er ég víst.15Þá sagði gamli spámaðurinn við hann: Kom þú heim með mér og neyt matar.16Hinn mælti: Ég get eigi snúið við með þér né með þér farið, mun og hvorki matar neyta né vatn drekka á þessum stað.17Því að við mig hefir verið sagt fyrir orð Drottins: Þú skalt hvorki neyta þar matar né vatn drekka, þú skalt ekki snúa aftur sömu leiðina sem þú komst.18Gamli spámaðurinn sagði þá við hann: Ég er einnig spámaður, eins og þú, og engill hefir talað við mig eftir orði Drottins á þessa leið: Far þú með hann aftur heim til þín, að hann megi matar neyta og vatn drekka. En hann laug að honum.19Sneri hann þá við með honum og neytti matar í húsi hans og drakk vatn.20En er þeir sátu undir borðum, kom orð Drottins til spámannsins, er snúið hafði hinum aftur.21Og hann kallaði til guðsmannsins, er kominn var frá Júda, og mælti: Svo segir Drottinn: Sökum þess að þú óhlýðnaðist skipun Drottins og varðveittir eigi boð það, er Drottinn, Guð þinn, fyrir þig lagði,22heldur snerir við og neyttir matar og drakkst vatn á þeim stað, er hann sagði um við þig: Þú skalt þar eigi matar neyta né vatn drekka þá skal lík þitt eigi koma í gröf feðra þinna.23En er gamli spámaðurinn hafði etið og drukkið, lét hann söðla asnann fyrir spámanninn, er hann hafði snúið aftur.24Hélt hann nú af stað, en ljón mætti honum á leiðinni og drap hann. Og lík hans lá þar endilangt á veginum, og asninn stóð yfir því, og ljónið stóð yfir líkinu.25Og er menn fóru þar fram hjá, sáu þeir líkið liggja endilangt á veginum og ljónið standandi yfir líkinu. Þá komu þeir og sögðu frá því í borginni, þar sem gamli spámaðurinn átti heima.26Og er spámaðurinn, er snúið hafði hinum aftur, heyrði þetta, mælti hann: Það er guðsmaðurinn, sem óhlýðnaðist skipun Drottins. Fyrir því hefir Drottinn gefið hann ljóninu. Það hefir mulið hann sundur og drepið hann eftir orði Drottins, er hann hafði til hans talað.27Þá mælti hann til sona sinna: Söðlið mér asnann. Þeir gjörðu svo.28Síðan hélt hann af stað og fann lík hans liggjandi endilangt á veginum, og asnann og ljónið standandi yfir líkinu. En ljónið hafði hvorki etið líkið né mulið sundur asnann.29Þá tók spámaðurinn upp lík guðsmannsins, lagði það á asnann og flutti það til borgarinnar til þess að harma hann og jarða.30Og hann lagði lík hans í gröf sína, og menn hörmuðu hann, segjandi: Æ, bróðir minn!31En er hann hafði jarðað hann, sagði hann við sonu sína: Þegar ég dey, þá jarðið mig í þeirri gröf, sem guðsmaðurinn er jarðaður í. Leggið mín bein hjá hans beinum.32Því að orðin, sem hann að boði Drottins æpti gegn altarinu í Betel og gegn öllum hæðahofunum í borgum Samaríu, munu vissulega rætast.33Ekki sneri Jeróbóam sér eftir þennan atburð frá sínum vonda vegi, heldur gjörði að nýju óvalda menn að hæðaprestum. Hann vígði hvern sem vildi, og varð sá hinn sami þannig hæðaprestur.34En þetta varð húsi Jeróbóams til syndar og til þess að uppræta það og afmá af jörðinni.
13.8 Helming eigna 4Mós 22.17-18; sbr Est 5.3,6; 7.2; Mrk 6.23
13.18 Engill Gal 1.8
13.22 Ekki koma í gröf Jes 14.19; Jer 8.1-2; sbr 1Mós 23; 49.30; 2Kon 22.20
13.24 Réðst ljón á hann 1Kon 20.36; 2Kon 2.24; 17.25