1Davíð fór þaðan og komst undan í Adúllamhelli. Og er bræður hans og allt hús föður hans fréttu það, komu þeir þangað til hans.2Og allir nauðstaddir menn söfnuðust til hans og allir þeir, sem komnir voru í skuldir, svo og allir þeir, er óánægðir voru, og gjörðist hann höfðingi þeirra. Voru nú með honum um fjögur hundruð manns.3Davíð fór þaðan til Mispe í Móab og sagði við Móabskonung: Leyf föður mínum og móður minni að vera hér hjá yður, uns ég fæ að vita, hvað Guð gjörir við mig.4Síðan skildi hann þau eftir hjá Móabskonungi, og þau voru hjá honum meðan Davíð var í virkinu.5Og Gað spámaður sagði við Davíð: Þú skalt ekki vera kyrr í virkinu. Haf þig á braut og far til Júda. Þá fór Davíð af stað og kom í Heretskóg.6Nú fréttir Sál, að Davíð sé fundinn og þeir menn, sem með honum voru. Sál sat í Gíbeu undir tamarisktrénu á hæðinni og hafði spjót í hendi, og allir þjónar hans stóðu umhverfis hann.7Þá mælti Sál við þjóna sína, sem stóðu umhverfis hann: Heyrið, þér Benjamínítar! Ætli Ísaísonur gefi yður öllum akra og víngarða og gjöri yður alla að hersveitarforingjum og hundraðshöfðingjum?8Þér hafið allir gjört samsæri á móti mér, og enginn sagði mér frá því, þegar sonur minn gjörði bandalag við Ísaíson, og enginn yðar hefir kennt í brjósti um mig og sagt mér frá því, að sonur minn hefir eflt þegn minn til fjandskapar í móti mér, eins og nú er fram komið.9Þá tók Dóeg Edómíti til máls, en hann stóð hjá þjónum Sáls og mælti: Ég sá Ísaíson koma til Nób, til Ahímeleks Ahítúbssonar,10og gekk hann til frétta við Drottin fyrir hann. Hann gaf honum og vistir, og sverð Golíats Filista fékk hann honum.11Þá sendi konungur eftir Ahímelek presti Ahítúbssyni og öllu frændliði hans, prestunum í Nób, og þeir komu allir á konungs fund.12Þá mælti Sál: Heyr þú, Ahítúbsson! Hann svaraði: Hér er ég, herra minn!13Sál mælti til hans: Hví hafið þið gjört samsæri í móti mér, þú og Ísaíson, þar sem þú fékkst honum brauð og sverð og gekkst til frétta við Guð fyrir hann, svo að hann gæti risið til fjandskapar í gegn mér, eins og nú er fram komið?14Ahímelek svaraði konungi og mælti: Hver er svo trúr sem Davíð meðal allra þjóna þinna, tengdasonur konungsins, foringi lífvarðar þíns og mikils metinn í húsi þínu?15Er þetta þá í fyrsta sinni, sem ég geng til frétta við Guð fyrir hann? Fjarri fer því. Konungur má eigi gefa þjóni sínum og öllu frændliði mínu sök á þessu, því að þjónn þinn vissi alls ekki neitt um þetta.16En konungur mælti: Þú skalt lífið láta, Ahímelek, þú og allt frændlið þitt.17Og konungur mælti til varðmannanna, sem hjá honum stóðu: Komið hingað og deyðið presta Drottins, því að einnig þeir hafa hjálpað Davíð. Og þótt þeir vissu, að hann var að flýja, þá létu þeir mig ekki vita það. En þjónar konungs vildu ekki leggja hendur á presta Drottins.18Þá sagði konungur við Dóeg: Kom þú hingað og drep þú prestana. Og Dóeg Edómíti gekk þangað, og hann drap prestana og deyddi á þeim degi áttatíu og fimm menn, sem báru línhökul.19„Og Nób, borg prestanna, eyddi hann með sverðseggjum; bæði karla og konur, börn og brjóstmylkinga, uxa, asna og sauði felldi hann með sverðseggjum.“20Aðeins einn af sonum Ahímeleks Ahítúbssonar komst undan. Hann hét Abjatar og flýði til Davíðs og gekk í sveit með honum.21Og Abjatar sagði Davíð frá, að Sál hefði myrt presta Drottins.22Davíð sagði við Abjatar: Ég vissi það þá þegar, úr því að Dóeg Edómíti var þar, að hann mundi segja Sál frá því. Ég á sök á lífláti allra ættmenna þinna.23Vertu hjá mér og óttast ekki, því að sá sem leitar eftir mínu lífi, leitar eftir þínu lífi. Hjá mér er þér óhætt.
22.2 Að honum 2Sam 15.1-6
22.3 Föður mínum og móðir 2Mós 20.12; Matt 15.3-6 og hlst.
22.7 Víngarðar 1Sam 8.12,14-15
22.8 Gjörði sáttmála 1Sam 18.3
22.9 Dóeg 1Sam 21.8; Slm 52.1
22.14 Í miklum metum 1Sam 18.17-30
22.17 Vildu ekki Slm 105.15
22.19 Eyddi 1Sam 15.3
22.20 Einn komst undan 2Kon 11.2; Job 1.15,16,17,19 – Abjatar 1Kon 2.26-27