1Drottinn talaði við Móse og sagði:2Þetta skulu vera ákvæðin um líkþráan mann, þá er hann er hreinsaður: Skal leiða hann fyrir prest,3og prestur skal ganga út fyrir herbúðirnar, og prestur skal líta á. Og sjái hann að líkþrárskellan á hinum líkþráa er gróin,4þá skal presturinn bjóða að taka fyrir þann, er lætur hreinsa sig, tvo hreina fugla lifandi, sedrusvið, skarlat og ísópsvönd.5Og prestur skal bjóða að slátra öðrum fuglinum í leirker yfir rennandi vatni.6En lifandi fuglinn, sedrusviðinn, skarlatið og ísópsvöndinn skal hann taka og drepa því, ásamt lifandi fuglinum, í blóð fuglsins, er slátrað var yfir rennandi vatni.7Og hann skal stökkva sjö sinnum á þann, sem lætur hreinsa sig af líkþránni, og dæma hann hreinan, en sleppa lifandi fuglinum út á víðavang.8Sá er lætur hreinsa sig, skal þvo klæði sín, raka allt hár sitt og lauga sig í vatni, og er þá hreinn. Og síðan gangi hann í herbúðirnar, en skal þó sjö daga hafast við fyrir utan tjald sitt.9Og á sjöunda degi skal hann raka allt hár sitt, bæði höfuð sitt, skegg og augabrúnir, allt hár sitt skal hann raka. Og hann skal þvo klæði sín og lauga líkama sinn í vatni, og er þá hreinn.10Á áttunda degi skal hann taka tvö hrútlömb gallalaus og eina gimbur veturgamla gallalausa og þrjá tíunduparta úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn, og einn lóg af olíu.11Og presturinn, er hreinsar, skal færa manninn, er lætur hreinsa sig, ásamt þessu fram fyrir Drottin að dyrum samfundatjaldsins.12Og presturinn skal taka annað hrútlambið og fórna því í sektarfórn, ásamt olíu-lóginum, og veifa hvorutveggja að veififórn frammi fyrir Drottni.13„Og lambinu skal slátra á þeim stað, þar sem syndafórninni er slátrað og brennifórninni, á helgum stað; því að eins og syndafórn heyrir presti, svo er og um sektarfórn. Hún er háheilög.“14Prestur skal taka nokkuð af blóði sektarfórnarinnar, og prestur skal ríða því á hægri eyrnasnepil þess, er lætur hreinsa sig, og á þumalfingur hægri handar hans og á stórutá hægri fótar hans.15Og prestur skal taka nokkuð af olíu-lóginum og hella í vinstri lófa sér.16Og prestur skal drepa hægri fingri sínum í olíuna, sem er í vinstri lófa hans, og stökkva olíunni með fingri sínum sjö sinnum frammi fyrir Drottni.17Og af leifunum af olíunni, sem er í lófa hans, skal prestur ríða á hægri eyrnasnepil þess, er lætur hreinsa sig, og á þumalfingur hægri handar hans og á stórutá hægri fótar hans, ofan á blóðið úr sektarfórninni.18Og því, sem leift er af olíunni í lófa prestsins, skal hann ríða á höfuð þess, sem lætur hreinsa sig, og prestur skal friðþægja fyrir hann frammi fyrir Drottni.19Þá skal prestur fórna syndafórninni og friðþægja fyrir þann, er lætur hreinsa sig, vegna óhreinleika hans, og síðan skal hann slátra brennifórninni.20Og prestur skal fram bera á altarið brennifórnina og matfórnina. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir hann, og er hann þá hreinn.21En sé hann fátækur og á ekki fyrir þessu, þá skal hann taka eitt hrútlamb í sektarfórn til veifunar, til þess að friðþægt verði fyrir hann, og einn tíunda part úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn, og lóg af olíu22og tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur, eftir því sem efni hans leyfa. Skal önnur vera til syndafórnar, en hin til brennifórnar.23Og hann skal færa þær prestinum á áttunda degi frá hreinsun sinni að dyrum samfundatjaldsins fram fyrir Drottin.24Og prestur skal taka sektarfórnarlambið og olíu-lóginn, og prestur skal veifa því til veififórnar frammi fyrir Drottni.25Síðan skal sektarfórnarlambinu slátrað. Prestur skal taka nokkuð af blóði sektarfórnarinnar og ríða á hægri eyrnasnepil þess, er lætur hreinsa sig, og á þumalfingur hægri handar hans og á stórutá hægri fótar hans.26Og nokkru af olíunni skal prestur hella í vinstri lófa sér.27Og prestur skal stökkva nokkru af olíunni, sem er í vinstri lófa hans, með hægri fingri sínum sjö sinnum frammi fyrir Drottni.28Og prestur skal ríða nokkru af olíunni, sem er í lófa hans, á hægri eyrnasnepil þess, er lætur hreinsa sig, og á þumalfingur hægri handar hans og stórutá hægri fótar hans, á þann stað þar sem blóðið úr sektarfórninni er.29En því, sem leift er af olíunni í lófa prestsins, skal hann ríða á höfuð þess, er lætur hreinsa sig, til þess að friðþægja fyrir hann frammi fyrir Drottni.30Þá skal hann fórna annarri turtildúfunni eða annarri ungu dúfunni, eftir því sem hann hafði efnin til,31annarri í syndafórn og hinni í brennifórn, ásamt matfórninni. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir þann, er lætur hreinsa sig, frammi fyrir Drottni.32Þetta eru ákvæðin um þann, sem hefir líkþrársótt og ekki á fyrir hreinsun sinni.33Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:34Þá er þér komið í Kanaanland, sem ég mun gefa yður til eignar, og ég læt koma líkþrárskellu á hús í eignarlandi yðar,35þá skal sá fara, sem húsið á, og greina presti frá og segja: Mér virðist sem skella sé á húsinu.36Og prestur skal bjóða að láta ryðja húsið áður en prestur gengur inn til þess að líta á skelluna, svo að ekki verði allt óhreint, sem í húsinu er. Síðan skal prestur ganga inn til þess að skoða húsið.37Og hann skal líta á skelluna, og sjái hann, að skellan á veggjum hússins eru dældir grænleitar eða rauðleitar, og þær ber lægra en vegginn,38þá skal prestur ganga út úr húsinu að dyrum hússins og byrgja húsið sjö daga.39Og prestur skal koma aftur á sjöunda degi og líta á, og sjái hann að skellan hefir færst út á veggjum hússins,40þá skal prestur bjóða að brjóta þá steina úr, sem skellan er á, og varpa þeim á óhreinan stað utan borgar.41Og húsið skal hann láta skafa allt að innan, og skulu þeir steypa niður vegglíminu, er þeir skafa af, á óhreinan stað utan borgar.42Og þeir skulu taka aðra steina og setja í stað hinna steinanna, og annað vegglím skal taka og ríða á húsið.43En ef skellan kemur aftur og brýst út á húsinu, eftir að steinarnir hafa verið brotnir úr og eftir að húsið hefir verið skafið og síðan verið riðið á vegglími,44þá skal prestur koma og líta á. Og sjái hann að skellan hefir færst út á húsinu, þá er það skæð líkþrá á húsinu. Það er óhreint.45Og skal rífa húsið, steinana í því, viðina og allt vegglím hússins, og færa út fyrir borgina á óhreinan stað.46Hver sem gengur inn í húsið alla þá stund, sem það er byrgt, skal vera óhreinn til kvelds.47Og hver sem hvílir í húsinu, skal þvo klæði sín, og hver sem matar neytir í húsinu, skal þvo klæði sín.48En ef prestur kemur og lítur á og sér, að skellan hefir ekki færst út á húsinu eftir að riðið var vegglími á húsið, þá skal prestur dæma húsið hreint, því að skellan er þá læknuð.49Og hann skal taka tvo fugla, sedrusvið, skarlat og ísópsvönd til þess að syndhreinsa húsið.50Og hann skal slátra öðrum fuglinum í leirker yfir rennandi vatni.51En sedrusviðinn, ísópsvöndinn, skarlatið og lifandi fuglinn skal hann taka og drepa þeim í blóð fuglsins, er slátrað var, og í rennandi vatnið og stökkva á húsið sjö sinnum.52Og hann skal syndhreinsa húsið með blóði fuglsins og rennandi vatninu, með lifandi fuglinum, sedrusviðinum, ísópsvendinum og skarlatinu.53En lifandi fuglinum skal hann sleppa út fyrir borgina, út á víðavang, og friðþægja þannig fyrir húsið, og er það þá hreint.54Þetta eru ákvæðin um hvers konar líkþrársótt og skurfu,55um líkþrá í fati og á húsi,56um þrota, hrúður og gljádíla,57til leiðbeiningar um það, hvenær eitthvað er óhreint og hvenær það er hreint. Þetta eru ákvæðin um líkþrá.
14.3 Holdsveiki 3Mós 13.46
14.4 Ísóps 2Mós 12.22; 4Mós 19.18; Heb 9.19
14.7 Fuglinn sem lifir 3Mós 14.53; sbr 16.10,20-22
14.14 Hægri eyrnasnepill … sbr 3Mós 8.23-24+
14.16 Sjö sinnum sbr 3Mós 4.6,17
14.21 Um fórnir fátækra 3Mós 5.7+
14.34 Kanaansland 3Mós 19.23-25; 23.10; 1Mós 17.8; Slm 105.11
14.49 Hreinsa af synd 3Mós 8.15+