1Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:2Nú tekur einhver þrota, hrúður eða gljádíla í skinnið á hörundi sínu og verður að líkþrárskellu í skinninu á hörundi hans. Þá skal leiða hann fyrir Aron prest eða einhvern af prestunum, sonum hans.3Og prestur skal líta á skelluna í skinninu á hörundinu, og hafi hárin í skellunni gjörst hvít og beri skelluna dýpra en skinnið á hörundi hans, þá er það líkþrárskella. Og prestur skal líta á hann og dæma hann óhreinan.4En sé hvítur gljádíli í skinninu á hörundi hans og beri ekki dýpra en skinnið og hafi hárin í honum ekki gjörst hvít, þá skal prestur byrgja inni sjö daga þann, er skelluna hefir tekið.5Og prestur skal líta á hann á sjöunda degi, og sjái hann að jafnmikið ber á skellunni og hafi skellan ekki færst út í skinninu, þá skal prestur byrgja hann enn inni sjö daga.6Og prestur skal enn líta á hann á sjöunda degi, og sjái hann þá, að skellan hefir dökknað, og hafi skellan ekki færst út í skinninu, skal prestur dæma hann hreinan. Þá er það hrúður, og hann skal þvo klæði sín og er þá hreinn.7En færist hrúðrið út í skinninu eftir að hann sýndi sig prestinum til þess að verða dæmdur hreinn, þá skal hann aftur sýna sig prestinum.8Og prestur skal líta á, og sjái hann, að hrúðrið hefir færst út í skinninu, þá skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrá.9Nú tekur einhver líkþrárskellu, og skal leiða hann fyrir prest.10Og prestur skal líta á, og sjái hann, að hvítur þroti er í skinninu og hefir gjört hárin hvít, og lifandi kvika er í þrotanum,11þá er það gömul líkþrá í skinninu á hörundi hans, og skal prestur dæma hann óhreinan. Hann skal eigi byrgja hann inni, því að hann er óhreinn.12En brjótist líkþráin út um skinnið og hylji líkþráin allt skinnið frá hvirfli til ilja á þeim, er skellurnar hefir tekið, hvar sem prestur rennir augum til,13þá skal prestur líta á, og sjái hann, að líkþráin hefir hulið allt hörund hans, þá skal hann dæma hreinan þann, er skellurnar hefir tekið. Hann hefir þá allur gjörst hvítur og er þá hreinn.14En þegar er ber á kviku holdi á honum, skal hann vera óhreinn.15Og prestur skal líta á kvika holdið og dæma hann óhreinan. Kvika holdið er óhreint. Þá er það líkþrá.16En hverfi kvika holdið og gjörist hvítt, þá skal hann ganga fyrir prest.17Og prestur skal líta á hann, og sjái hann að skellurnar hafa gjörst hvítar, þá skal prestur dæma hreinan þann, er skellurnar hefir tekið. Þá er hann hreinn.18Nú kemur kýli í hörundið, út í skinnið, og grær,19og kemur í stað kýlisins hvítur þroti eða gljádíli ljósrauður, þá skal hann sýna sig presti.20Og prestur skal líta á, og sjái hann, að dílann ber lægra en skinnið og hárin í honum hafa gjörst hvít, skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt, sem brotist hefir út í kýlinu.21En ef prestur lítur á hann og sér, að engin hvít hár eru í honum og hann er ekki lægri en skinnið og hefir dökknað, þá skal prestur byrgja hann inni sjö daga.22En færist hann út í skinninu, skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt.23En ef gljádílinn stendur í stað og færist eigi út, þá er það kýlis-ör, og prestur skal dæma hann hreinan.24En ef brunasár kemur á hörundið og brunakvikan verður að gljádíla ljósrauðum eða hvítum,25þá skal prestur líta á hann. Og sjái hann, að hárin í gljádílanum hafa gjörst hvít og ber hann dýpra en skinnið, þá er það líkþrá, sem hefir brotist út í brunanum, og skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt.26En ef prestur lítur á hann og sér, að engin hvít hár eru í gljádílanum og hann er ekki lægri en skinnið og hefir dökknað, þá skal prestur byrgja hann inni sjö daga.27Og prestur skal líta á hann á sjöunda degi. Hafi hann þá færst út í skinninu, skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt.28En ef gljádílinn stendur í stað og hefir eigi færst út í skinninu, en dökknað, þá er það brunaþroti, og skal prestur dæma hann hreinan, því að þá er það bruna-ör.29Nú tekur karl eða kona skellu í höfuðið eða skeggið.30Þá skal prestur líta á skelluna, og sjái hann, að hana ber dýpra en skinnið og gulleit visin hár eru í henni, þá skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það skurfa, það er líkþrá í höfði eða skeggi.31Og er prestur lítur á skurfuskelluna og sér, að hana ber ekki dýpra en skinnið og engin svört hár eru í henni, þá skal prestur byrgja inni sjö daga þann, er skurfuskelluna hefir tekið.32Og prestur skal líta á skelluna á sjöunda degi, og sjái hann, að skurfan hefir eigi færst út og engin gulleit hár eru í henni og skurfuna ber eigi dýpra en skinnið,33þá skal hann raka sig, en skurfuna skal hann ekki raka, og prestur skal enn byrgja inni sjö daga þann, er skurfuna hefir tekið.34Og prestur skal líta á skurfuna á sjöunda degi, og sjái hann, að skurfan hefir eigi færst út í skinninu og hana ber ekki dýpra en skinnið, þá skal prestur dæma hann hreinan. Og hann skal þvo klæði sín og er þá hreinn.35En ef skurfan færist út í skinninu eftir að hann hefir verið dæmdur hreinn,36þá skal prestur líta á hann. Og sjái hann, að skurfan hefir færst út í skinninu, þá skal prestur ekki leita að gulleitu hárunum. Þá er hann óhreinn.37En ef jafnmikið ber á skurfunni og svört hár hafa sprottið í henni, þá er skurfan gróin. Hann er þá hreinn, og prestur skal dæma hann hreinan.38Nú tekur karl eða kona gljádíla, hvíta gljádíla í skinnið á hörundi sínu,39þá skal prestur líta á. Og sjái hann, að gljádílarnir í skinninu á hörundi þeirra eru dumb-hvítir, þá er það hringormur, sem hefir brotist út í skinninu. Þá er hann hreinn.40Nú verður einhver sköllóttur ofan á höfðinu, þá er hann hvirfilskalli og er hreinn.41Og ef hann verður sköllóttur framan á höfðinu, þá er hann ennisskalli og er hreinn.42En sé ljósrauð skella í hvirfilskallanum eða ennisskallanum, þá er það líkþrá, er út brýst í hvirfilskalla hans eða ennisskalla.43Prestur skal þá líta á hann, og sjái hann að skelluþrotinn í hvirfilskalla hans eða ennisskalla er ljósrauður, á að sjá sem líkþrá í skinninu á hörundinu,44þá er hann maður líkþrár og er óhreinn. Prestur skal sannlega dæma hann óhreinan. Líkþrársóttin er í höfði honum.45Líkþrár maður, er sóttina hefir, klæði hans skulu vera rifin og hár hans flakandi, og hann skal hylja kamp sinn og hrópa: Óhreinn, óhreinn!46Alla þá stund, er hann hefir sóttina, skal hann óhreinn vera. Hann er óhreinn. Hann skal búa sér. Bústaður hans skal vera fyrir utan herbúðirnar.47Nú kemur líkþrárskella á fat, hvort heldur er ullarfat eða línfat,48eða vefnað eða prjónles af líni eða ullu, eða skinn eða eitthvað það, sem af skinni er gjört,49og sé skellan grænleit eða rauðleit á fatinu eða skinninu eða vefnaðinum eða prjónlesinu eða nokkrum hlut af skinni gjörvum, þá er það líkþrárskella, og skal sýna það prestinum.50Og prestur skal líta á skelluna og byrgja inni sjö daga það, er skellan er á.51Og hann skal líta á skelluna á sjöunda degi. Hafi skellan færst út á fatinu eða vefnaðinum eða prjónlesinu eða skinninu, til hverra nota sem skinnið er haft, þá er skellan skæð líkþrá. Þá er það óhreint.52Og skal brenna fatið eða vefnaðinn eða prjónlesið, hvort það er heldur af ullu eða líni, eða hvern hlut af skinni gjörvan, er skellan er á, því að það er skæð líkþrá. Það skal í eldi brenna.53En ef prestur lítur á og sér, að skellan hefir eigi færst út í fatinu eða vefnaðinum eða prjónlesinu eða á einhverjum hlut af skinni gjörvum,54þá skal prestur bjóða að þvo það, sem skellan er á, og hann skal enn byrgja það inni sjö daga.55Og prestur skal líta á, eftir að það, sem skellan er á, er þvegið, og sjái hann, að skellan hefir eigi breytt lit og skellan hefir eigi færst út, þá er það óhreint. Þú skalt brenna það í eldi, þá er það áta, hvort það er heldur á úthverfunni eða rétthverfunni.56En ef prestur lítur á og sér, að skellan hefir dökknað, eftir að hún var þvegin, þá skal hann rífa hana af fatinu eða skinninu eða vefnaðinum eða prjónlesinu.57En komi hún enn í ljós á fatinu eða vefnaðinum eða prjónlesinu eða á nokkrum hlut af skinni gjörvum, þá er það líkþrá, sem er að brjótast út. Þú skalt brenna í eldi það, er skellan er á.58En það fat eða vefnaður eða prjónles, eða sérhver hlutur af skinni gjör, sem skellan gengur af, ef þvegið er, það skal þvo annað sinn, og er þá hreint.59Þessi eru ákvæðin um líkþrársótt í ullarfati eða línfati eða vefnaði eða prjónlesi eða nokkrum hlut af skinni gjörvum, er það skal dæma hreint eða óhreint.
13.4 Einangra 3Mós 14.38; 4Mós 12.14-15
13.46 Holdsveiki 3Mós 14.3; 4Mós 5.2; 2Kon 15.5