Endanlegt uppgjör
1Þegar Efraím tók til máls
skelfdust menn,
hann var virtur í Ísrael
en varð sekur vegna Baals og dó.
2Og nú syndga þeir áfram
og steypa sér líkneski úr silfri sínu,
skurðgoð af eigin hugviti
sem öll eru verk handverksmanna.
Þeir segja:
„Menn færa fórnir og kyssa kálfa.“
3Þess vegna munu þeir líkjast morgunþoku
og dögg sem hverfur fljótt
eða hismi sem feykt er af þreskivelli
og reyk sem hverfur út um ljóra.
4En ég, Drottinn, er Guð þinn
síðan í Egyptalandi
og þú skalt engan Guð játa annan en mig
og enginn er frelsari nema ég.
5Ég annaðist þig í eyðimörkinni,
í skraufþurru landi.
6Þegar þeir höfðu haglendi urðu þeir saddir,
urðu saddir og fylltust hroka
og því gleymdu þeir mér.
7Ég mun reynast þeim sem ljón,
ligg í leyni við veginn eins og pardus,
8ræðst á þá eins og birna
svipt húnum sínum
og ríf þá á hol,
ég gleypi þá eins og ljón,
villidýr munu slíta þá í sundur.
9Eyðing kemur yfir þig, Ísrael,
en hjálp þín er í mér.
10Hvar er nú konungur þinn
sem gæti bjargað þér
og öllum borgum þínum,
hvar stjórnendur þínir?
Þú baðst um þá og sagðir:
„Fáðu mér konung og höfðingja.“
11Ég gaf þér konung í reiði minni
og tók hann aftur í heift minni.
12Sekt Efraíms er innsigluð,
synd hans geymd.
13Þrautir líkar fæðingarhríðum koma yfir hann.
Hann er heimskur sonur.
Þegar stundin er komin
kemur hann ekki í burðarliðinn.
14Á ég að leysa þá úr
greipum heljar,
frelsa þá frá dauða?
Hvar eru sóttir þínar, dauði,
hvar broddur þinn, hel?
Augu mín þekkja enga miskunn.
15Þó að Efraím blómgist innan um sefgresi
kemur austanvindurinn,
stormur frá Drottni.
Hann hefur sig upp frá eyðimörkinni,
vatnsból þorna
og uppsprettur þrjóta.
Hann [ rænir fjárhirsluna
öllum dýrgripum sínum.