Svikul þjóð
1Efraím umkringdi mig með lygi
og Ísraelsmenn með svikum.
En Júda gengur enn með Guði,
tryggur Hinum heilaga. [
2Efraím hefur vingast við vindinn
og eltir austanstorminn allan daginn,
hann margfaldar lygi og ofbeldi.
Þeir gera sáttmála við Assýríu
og flytja olíu til Egyptalands.
3Þess vegna sækir Drottinn mál á hendur Ísrael
til að draga Jakob til ábyrgðar fyrir breytni hans.
4Í móðurkviði blekkti hann bróður sinn
og fullvaxinn glímdi hann við Guð,
5hann glímdi við engil og hafði betur,
hann grét og bað um miskunn.
Í Betel fann Drottinn hann
og talaði við hann,
6Drottinn, Guð allsherjar,
Drottinn er nafn hans.
7En þú skalt snúa aftur til Guðs þíns.
Vertu trúr og réttlátur
og vona stöðugt á Guð.
8Prangari með svikna vog í hendi
sækist eftir að pretta
9en Efraím sagði:
„Ég er kominn í álnir,
ég hef aflað mér fjár,
ekkert af gróða mínum,
ekkert af gróða mínum hefur gert mig sekan um synd.“
10Ég er Drottinn, Guð þinn,
síðan í Egyptalandi,
ég fæ þér aftur bústað í tjöldum
eins og þegar við fundumst fyrst. [
11Ég mun tala til spámannanna
og ég mun fjölga sýnunum
og fyrir munn spámannanna mun ég tala í líkingum.
12Sé Gíleað illur
eru þeir einskis nýtir.
Í Gilgal fórnuðu menn nautum
en ölturu þeirra urðu eins og grjóthrúgur
í plógförum á ökrum.
13Jakob flýði til Aramsléttu,
Ísrael gerðist þjónn vegna konu,
vegna konu gætti hann fjár.
14Fyrir meðalgöngu spámanns
leiddi Drottinn Ísrael út af Egyptalandi
og um hann var annast
fyrir meðalgöngu spámanns.
15Efraím olli sárri gremju.
Því mun Drottinn leggja hans eigin blóðsekt á hann
og láta svívirðingu hans koma honum í koll.