1Samaría er sek
því að hún reis gegn Guði sínum.
Íbúar hennar munu falla fyrir sverði,
brjóstmylkingum verður slegið við
og þungaðar konur ristar á kvið.
Hvatt til iðrunar og afturhvarfs
2Snú þú aftur, Ísrael,
til Drottins, Guðs þíns,
því að misgjörð þín varð þér að falli.
3Takið orð með yður
og hverfið aftur til Drottins.
Segið við hann:
„Þú fyrirgefur hverja sekt,
taktu við orðum vorum,
vér færum fram varir vorar í stað nauta.
4Assýría bjargar oss ekki,
vér ríðum ekki oftar á stríðsfákum
og segjum ekki framar: „Guð vor“
við eigin handaverk
því að munaðarleysinginn hlýtur miskunn hjá þér.“
5Ég ætla að lækna tryggðarof þeirra
og elska þá af frjálsum og fúsum vilja.
Reiði mín er snúin frá þeim.
6Ég verð Ísrael sem dögg,
hann mun blómgast eins og lilja,
skjóta rótum eins og trén í Líbanon.
7Greinar hans munu breiða úr sér
og krónan verður eins og á ólífutré,
og hann mun ilma eins og skógurinn í Líbanon.
8Þeir sem búa í skugga Drottins
munu rækta korn
og blómgast sem vínviður.
9Hvaða gagn hefur Efraím af skurðgoðum?
Ég mun bænheyra hann og annast hann.
Ég er sem gróskumikill einirunni,
hjá mér muntu finna nægan ávöxt.
Lokaorð
10Hver er svo vitur að hann skilji þetta,
svo glöggur að hann játi það?
Vegir Drottins eru beinir,
réttlátir fara þá
en syndarar hrasa á þeim.