Glæpur Akans og refsing
1 En Ísraelsmenn virtu ekki bannhelgina. Akan Karmíson, Sabdísonar, Serakssonar af ættbálki Júda tók nokkuð af því sem helgað hafði verið banni. Þá blossaði reiði Drottins upp gegn Ísraelsmönnum.
2 Jósúa sendi menn frá Jeríkó til Aí, sem er nálægt Betaven og austan við Betel, og sagði við þá: „Farið upp eftir og kannið landið.“ Mennirnir fóru upp eftir og könnuðu Aí. 3 Þegar þeir komu aftur til Jósúa sögðu þeir við hann: „Sendu ekki allt fólkið upp eftir. Sendu tvö þúsund eða þrjú þúsund menn upp eftir til að vinna Aí því að þar eru aðeins fáeinir menn og þú skalt ekki þreyta allt fólkið með því að senda það þangað.“
4 Þá fóru um það bil þrjú þúsund menn upp eftir en þeir urðu að flýja fyrir Aímönnum 5 sem felldu þrjátíu og sex þeirra. Þeir ráku flótta Ísraelsmanna frá borgarhliðinu að grjótnámunni og felldu þá við stíginn niður eftir. Við þetta missti fólkið móðinn og varð að gjalti.
6 Jósúa reif klæði sín og varpaði sér til jarðar fram á ásjónu sína frammi fyrir örk Drottins og lá þar til kvölds ásamt öldungum Ísraels. Hann og öldungar Ísraels jusu mold yfir höfuð sér 7 og Jósúa sagði: „Æ, Drottinn Guð. Hvers vegna leiddir þú þetta fólk yfir Jórdan? Var það til að selja okkur í hendur Amorítum svo að þeir tortími okkur? Betra væri að við hefðum látið okkur lynda að vera um kyrrt austan við Jórdan. 8 Drottinn, hvað get ég nú sagt þegar Ísrael hefur beðið ósigur og flúið fjandmenn sína? 9 Kanverjar og aðrir íbúar landsins munu frétta þetta og umkringja okkur og eyða nafni okkar úr landinu. Hvað ætlar þú nú að gera í þágu þíns mikla nafns?“
10 Þá sagði Drottinn við Jósúa:
„Rís þú á fætur. Hvers vegna liggur þú þarna á grúfu? 11 Ísrael hefur syndgað. Þeir hafa sniðgengið sáttmálann sem ég gaf þeim og tekið af því sem var helgað banni, þeir hafa stolið, þeir hafa svikið og þeir hafa bætt því sem þeir tóku við eigin eign. 12 Þess vegna geta Ísraelsmenn ekki staðist fjandmenn sína heldur verða að leggja á flótta fyrir þeim enda sjálfir helgaðir banni. Ég verð ekki lengur með ykkur nema þið eyðið öllu sem helgað var banni. 13 Rís á fætur, helgaðu fólkið og segðu við það: „Helgið ykkur fyrir morgundaginn,“ því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: „Meðal ykkar, Ísrael, eru bannhelgir munir. Þú getur ekki staðið augliti til auglitis við fjandmenn þína fyrr en þið hafið fjarlægt það sem helgað var banni.“ 14 Í fyrramálið skuluð þið ganga fram eftir ættbálkum ykkar. Síðan skal sá ættbálkur, sem Drottinn velur, ganga fram eftir ættum sínum. Þá skal sú ætt, sem Drottinn velur, ganga fram eftir fjölskyldu og að lokum skal sú fjölskylda, sem Drottinn velur, ganga fram, hver maður fyrir sig. 15 En þann sem hið bannhelgaða finnst hjá skal brenna í eldi og allt sem hann á því að hann hefur sniðgengið sáttmála Drottins og framið svívirðu í Ísrael.“
16 Morguninn eftir var Jósúa snemma á fótum og lét Ísrael ganga fram eftir ættbálkum sínum. Varð ættbálkur Júda fyrir valinu. 17 Því næst lét hann ættir Júda ganga fram og varð þá ætt Seraks fyrir valinu. Þá lét hann ætt Seraks ganga fram, hvern mann fyrir sig. Að lokum varð Sabdí fyrir valinu og 18 lét hann fjölskyldu hans ganga fram, hvern mann fyrir sig. Þá varð Akan Karmíson, Sabdísonar, Serakssonar af ættbálki Júda fyrir valinu.
19 Síðan sagði Jósúa við Akan: „Sonur minn. Gefðu Drottni, Guði Ísraels, dýrðina og gerðu játningu fyrir honum. Skýrðu mér nú frá því sem þú hefur gert. Leyndu mig engu.“ 20 Akan svaraði Jósúa og sagði: „Það er satt, ég syndgaði gegn Drottni, Guði Ísraels, 21 þegar ég sá fallega skikkju frá Sínear[ í herfanginu og tvö hundruð sikla silfurs og gulltungu sem vó fimmtíu sikla. Ég girntist þetta, tók það og gróf í jörð í tjaldi mínu og er silfrið neðst.“
22 Þá sendi Jósúa menn sem hlupu að tjaldinu og í ljós kom að þetta var falið í tjaldinu og var silfrið neðst. 23 Þeir tóku það allt úr tjaldinu, færðu Jósúa og öllum Ísraelsmönnum og dreifðu því frammi fyrir augliti Drottins.
24 Því næst tók Jósúa og allur Ísrael með honum Akan Seraksson, silfrið, skikkjuna og gulltunguna, syni hans og dætur, nautgripi hans, asna og sauði, tjald hans og allt sem hann átti. Þeir fóru með hann upp í Akordalinn.[ 25 Þá sagði Jósúa: „Hvers vegna steyptir þú okkur í þessa ógæfu? Drottinn steypir þér í ógæfu í dag.“ Því næst grýtti allur Ísrael Akan, brenndi þau í eldi og grýtti þau. 26 Loks hlóðu þeir stóra steindys yfir hann sem er þar enn í dag. Þess vegna er þessi staður enn nefndur Akordalur.