Aí fellur
1 Drottinn sagði við Jósúa:
„Óttastu ekki, lát ekki hugfallast. Taktu allan herinn með þér og haltu til Aí. Ég sel þér konung Aí í hendur, þjóð hans, borg og land. 2 Þú skalt fara með Aí og konung hennar eins og þú fórst með Jeríkó og konung hennar. Samt megið þið taka herfangið úr henni og fénað handa sjálfum ykkur. Láttu menn leggjast í launsátur að baki borginni.“
3 Þá hélt Jósúa og allur herinn upp til Aí. Jósúa valdi þrjátíu þúsund reynda hermenn og sendi þá af stað um nóttina 4 og lagði fyrir þá: „Þið skuluð leggjast í launsátur á bak við borgina en samt ekki of langt frá henni og verið allir viðbúnir. 5 En ég og allt liðið, sem með mér er, mun halda gegn borginni. Ef borgarbúar gera útrás eins og í fyrra skiptið munum við flýja undan þeim. 6 Þeir munu veita okkur eftirför þar til við höfum króað þá af nokkuð frá borginni því að þeir munu hugsa með sér: Þeir flýja undan okkur eins og í fyrra skiptið. En þegar við erum lagðir á flótta undan þeim 7 skuluð þið sækja fram úr launsátrinu og taka borgina. Drottinn, Guð ykkar, mun selja ykkur borgina í hendur. 8 Þegar þið hafið tekið borgina skuluð þið leggja eld að henni. Hlýðið boði Drottins. Það býð ég ykkur.“
9 Síðan sendi Jósúa þá af stað og þeir fóru og lögðust í launsátur vestan við Aí, á milli Betel og Aí. En Jósúa dvaldist þessa nótt með fólkinu.
10 Morguninn eftir var Jósúa snemma á fótum. Hann kannaði liðið og síðan hélt hann og öldungar Ísraels í broddi fylkingar upp til Aí. 11 Allt herliðið, sem var með honum, fór upp eftir í átt til borgarinnar og þar til þeir stóðu gegnt henni. Þeir settu herbúðir sínar norðan við borgina en dalur var milli búðanna og Aí. 12 Jósúa valdi um fimm þúsund menn og lét þá leggjast í launsátur vestan við Aí, milli Betel og Aí. 13 Fólkið hafði sett upp búðir norðan við borgina og í launsátrinu vestan hennar. En Jósúa dvaldist í dalnum um nóttina.
14 Þegar konungurinn í Aí sá þetta hraðaði hann sér og allir borgarmenn með honum snemma morguns til að mæta Ísrael í bardaga á tilteknum stað gegnt Arabasléttu.[ En hann vissi ekki að honum hafði verið gert launsátur vestan við borgina. 15 Jósúa og allur Ísrael létu eins og þeir hefðu verið ofurliði bornir og flýðu í átt til eyðimerkurinnar.
16 Allir borgarbúar voru þá kallaðir saman til þess að reka flóttann. Þeir veittu Jósúa eftirför og voru króaðir af nokkuð frá borginni. 17 Allir sem eftir voru í Aí og Betel héldu á eftir Ísrael. Þeir skildu borgina eftir opna og óvarða á meðan þeir eltu Ísrael.
18 Þá sagði Drottinn við Jósúa:
„Réttu fram spjótið, sem er í hendi þinni, í áttina að Aí því að ég sel þér hana í hendur.“
Jósúa rétti þá fram spjótið, sem var í hendi hans, í áttina að borginni. 19 Um leið og hann rétti út hönd sína risu mennirnir, sem voru í launsátrinu, upp af stað sínum. Þeir þustu fram og komust inn í borgina, unnu hana og lögðu eld í hana umsvifalaust.
20 Þá sneru Aímenn sér við og sáu reykjarmökk leggja upp af borginni til himins. En þeir komust hvorki fram né aftur og áttu enga undankomuleið því að liðið, sem flúið hafði í átt til eyðimerkurinnar, sneri nú við gegn þeim sem ráku flótta þeirra.
21 Þegar Jósúa og allur Ísrael sáu að launsátursmennirnir höfðu tekið borgina og að reyk lagði upp af henni sneru þeir við og tóku að höggva Aímenn. 22 Þeir höfðu farið út úr borginni á móti Ísraelsmönnum en lentu innan um þá, sumir hér og aðrir þar. Ísraelsmenn hjuggu Aímenn til síðasta manns, enginn varð eftir og enginn bjargaði sér á flótta. 23 En þeir gripu konunginn í Aí lifandi og færðu Jósúa hann.
24 Þegar Ísraelsmenn höfðu fellt alla íbúa Aí úti á sléttunni og í eyðimörkinni þangað sem þeir höfðu veitt þeim eftirför, og allir sem einn voru fallnir fyrir sverðseggjum, sneru Ísraelsmenn aftur til Aí. 25 Tólf þúsund féllu þennan dag, karlar og konur, allir íbúar Aí. 26 En Jósúa dró ekki að sér höndina sem hann hélt spjótinu í fyrr en hann hafði helgað alla Aímenn banni.
27 En Ísrael tók búfé og ránsfeng eins og Drottinn hafði boðið Jósúa. 28 Því næst brenndi Jósúa Aí[ og gerði hana að ævarandi grjóthaug, gereyddum stað eins og hún hefur verið allt til þessa dags. 29 En Jósúa hengdi konung Aí í tré og lét hann hanga þar til kvölds. Um sólarlag skipaði Jósúa að taka lík hans niður. Var því fleygt út fyrir borgarhliðið. Því næst var gerð mikil steindys yfir hann og er hún þar enn í dag.
Altari reist á Ebalfjalli
30 Jósúa reisti Drottni, Guði Ísraels, altari á Ebalfjalli. 31 Það var úr óhöggnum steinum sem ekkert járnverkfæri hafði snert, eins og Móse, þjónn Drottins, hafði lagt fyrir Ísraelsmenn og ritað er í lögbók Móse. Á altarinu voru Drottni færðar brennifórnir og heillafórnir.
32 Enn fremur skráði Jósúa í augsýn allra Ísraelsmanna þarna á steinana eftirrit af lögmáli Móse. 33 Allur Ísrael, öldungar, embættismenn og dómarar stóðu báðum megin við örkina andspænis Levítaprestunum sem báru sáttmálsörk Drottins, einnig innbornir og aðkomumenn. Helmingur fólksins sneri að Garísímfjalli en hinn helmingurinn að Ebalfjalli eins og Móse, þjónn Drottins, hafði boðið í upphafi þegar hann gaf fyrirmæli um að blessa Ísraelsþjóð. 34 Því næst las Jósúa upp lagasafnið, orð fyrir orð, blessunina og bölvunina, nákvæmlega eins og skráð er í lögbókinni. 35 Allt það sem Móse hafði gefið fyrirmæli um las Jósúa frammi fyrir öllum söfnuði Ísraels, einnig konum, börnum og þeim aðkomumönnum sem slegist höfðu í för með þeim, og sleppti engu orði.