1 Þegar allir konungar Amoríta vestan við Jórdan og allir konungar Kanverja við hafið fréttu að Drottinn hefði þurrkað vatnið í Jórdan frammi fyrir Ísraelsmönnum þar til þeir voru komnir yfir misstu þeir móðinn og þeim féllst hugur andspænis Ísraelsmönnum.

Umskurn í Gilgal

2 Um þær mundir gaf Drottinn Jósúa þessi fyrirmæli:
„Gerðu þér nokkra steinhnífa og umskerðu Ísraelsmenn öðru sinni.“
3 Þá gerði Jósúa sér hnífa úr steinum og umskar Ísraelsmenn á Yfirhúðahæð.
4 En ástæða þess að Jósúa umskar þá var sú að allt fólkið, sem fór frá Egyptalandi, hafði dáið á leiðinni gegnum eyðimörkina, það er allir vopnfærir menn. 5 Allir sem höfðu farið frá Egyptalandi höfðu að sönnu verið umskornir en ekki hinir sem fæddust á leiðinni um eyðimörkina eftir brottförina frá Egyptalandi. 6 Í fjörutíu ár gengu Ísraelsmenn um eyðimörkina uns þjóðin öll var dáin, allir vopnfærir menn sem höfðu farið frá Egyptalandi. Þeir höfðu ekki hlýtt rödd Drottins. Þess vegna hafði Drottinn svarið að sýna þeim ekki landið sem hann hafði heitið forfeðrum þeirra að gefa okkur, land sem flýtur í mjólk og hunangi. 7 En syni þeirra, sem Drottinn hafði látið koma í þeirra stað, umskar Jósúa því að þeir voru enn óumskornir, af því að þeir höfðu ekki verið umskornir á leiðinni.
8 En þegar lokið var að umskera alla þjóðina héldu allir kyrru fyrir í búðunum þar til þeir höfðu náð sér. 9 Og Drottinn sagði við Jósúa: „Í dag hef ég velt af ykkur hinni egypsku skömm.“ Þess vegna er þessi staður nefndur Gilgal[ og er svo enn.

Páskahátíð

10 Þegar Ísraelsmenn höfðu búðir sínar í Gilgal héldu þeir páska að kvöldi fjórtánda dags mánaðarins á sléttunum við Jeríkó. 11 Þeir átu ósýrð brauð og ristað korn af uppskeru landsins daginn eftir páska, einmitt þann dag. 12 Daginn eftir að þeir höfðu neytt af uppskeru landsins hættu þeir að fá manna og þaðan í frá fengu Ísraelsmenn ekki manna framar heldur neyttu þeir af uppskeru Kanaanslands þetta ár.

Jósúa og maðurinn með sverðið

13 Einu sinni er Jósúa var staddur við Jeríkó og varð litið upp kom hann auga á mann sem stóð andspænis honum með brugðið sverð í hendi. Jósúa gekk til hans og spurði: „Hvort ert þú okkar maður eða fjandmannanna?“ 14 Hann svaraði: „Ég er hershöfðingi Drottins og var að koma.“
Jósúa féll þá til jarðar fram á ásjónu sína, laut honum og spurði: „Hvað skipar þú, herra, þjóni þínum?“ 15 Hershöfðingi Drottins svaraði Jósúa: „Drag skó af fótum þér því að staðurinn, sem þú stendur á, er heilagur.“ Og Jósúa gerði svo.