Tólf minningarsteinar
1 Þegar öll þjóðin var komin yfir Jórdan sagði Drottinn við Jósúa: 2 „Veljið tólf menn af fólkinu, einn úr hverjum ættbálki, 3 og gefið þeim þessi fyrirmæli: Takið tólf steina héðan úr miðri Jórdan, af staðnum þar sem prestarnir stóðu. Hafið þá síðan með ykkur yfir um ána og komið þeim fyrir á staðnum þar sem þið verðið í nótt.“
4 Þá kallaði Jósúa á þá tólf menn sem hann hafði valið meðal Ísraelsmanna, einn úr hverjum ættbálki, 5 og sagði við þá: „Farið fyrir örk Drottins, Guðs ykkar, út í Jórdan miðja. Sérhver taki einn stein á öxl sér, einn fyrir hvern ættbálk Ísraelsmanna. 6 Þetta skal síðan verða tákn á meðal ykkar. Þegar börn ykkar spyrja síðar meir: Hvað tákna þessir steinar? 7 þá skuluð þið svara: Þeir tákna að vatnið í Jórdan skiptist í sundur frammi fyrir sáttmálsörk Drottins. Þegar hún var flutt yfir Jórdan skiptist vatnið í Jórdan í sundur og skulu þessir steinar vera Ísraelsmönnum minnismerki um alla framtíð.“
8 Ísraelsmenn framfylgdu því sem Jósúa hafði skipað. Þeir tóku tólf steina upp úr miðri Jórdan eins og Drottinn hafði lagt fyrir Jósúa, jafnmarga steina og ættbálkar Ísraelsmanna eru. Þeir höfðu þá með sér þangað sem þeir voru um nóttina og komu þeim þar fyrir. 9 Jósúa reisti tólf steina mitt í Jórdan á staðnum þar sem prestarnir, sem báru sáttmálsörkina, höfðu staðið. Þar hafa þeir verið allt til þessa dags.
10 Prestarnir, sem báru örkina, stóðu kyrrir mitt í Jórdan þar til allt, sem Drottinn hafði falið Jósúa að skipa fólkinu, hafði verið gert eins og Móse hafði boðið honum. Þá hraðaði fólkið sér yfir um.
11 Þegar allt fólkið var komið yfir ána fylgdi örk Drottins ásamt prestunum sem fóru fyrir fólkinu. 12 Niðjar Rúbens og Gaðs og hálfur ættbálkur Manasse fóru í herklæðum fyrir Ísraelsmönnum eins og Móse hafði sagt.
13 Um fjörutíu þúsund vopnaðra manna fóru fyrir augliti Drottins til bardaga á sléttunum við Jeríkó.
14 Þennan dag jók Drottinn veg Jósúa í augum alls Ísraels og virtu þeir hann eins og þeir höfðu virt Móse á meðan hann lifði.
15 Drottinn sagði við Jósúa:
16 „Skipaðu prestunum, sem bera örk sáttmálstáknsins, að stíga upp úr Jórdan.“
17 Þá bauð Jósúa prestunum: „Stígið upp úr Jórdan.“
18 Um leið og prestarnir, sem báru sáttmálsörk Drottins, voru stignir upp úr Jórdan og iljar þeirra snertu þurrt land féll vatnið í Jórdan aftur í farveg sinn og flæddi yfir alla bakka eins og áður. 19 Það var á tíunda degi fyrsta mánaðarins sem fólkið kom upp úr Jórdan og sló upp herbúðum í Gilgal, við austurmörk borgarlanda Jeríkó.
20 Steinana tólf, sem teknir höfðu verið úr Jórdan, reisti Jósúa í Gilgal 21 og hann ávarpaði Ísraelsmenn og sagði: „Þegar niðjar ykkar spyrja feður sína síðar meir: Hvaða tákn eru þessir steinar ykkur? 22 skuluð þið kenna þeim: Ísrael gekk hér þurrum fótum yfir Jórdan 23 því að Drottinn, Guð ykkar, þurrkaði vatnið upp frammi fyrir ykkur þar til þið voruð komin yfir. Það var eins og það sem Drottinn, Guð ykkar, gerði við Sefhafið sem hann lét þorna upp frammi fyrir okkur þar til við vorum komin yfir. 24 Það varð til þess að allar þjóðir jarðar játuðu að hönd Drottins er sterk og til þess að þið óttist ávallt Drottin, Guð ykkar.“