1 Job hélt áfram ræðu sinni og sagði:
2Svo sannarlega sem Guð lifir sem svipti mig rétti mínum,
Hinn almáttki sem hefur fyllt líf mitt beiskju,
3svo lengi sem ég dreg lífsanda
og andi Guðs er í nösum mínum,
4skal ósatt orð ekki fara um varir mínar
og tunga mín ekki fara með lygi.
5Það sé mér fjarri að játa að þér hafið á réttu að standa,
ég stend við sakleysi mitt þar til ég dey,
6ég ver rétt minn og sleppi honum ekki,
hjarta mitt átelur mig ekki fyrir neinn af dögum mínum.
7Fjandmanni mínum farnist sem guðleysingja,
andstæðingi mínum sem illmenni.
8Já, hver er von hins óguðlega þegar skorið er á þráðinn,
þegar Guð hrífur burt líf hans?
9Heyrir Guð neyðaróp hans
þegar að honum þrengir?
10Er Hinn almáttki yndi hans,
ákallar hann Guð hvenær sem er?
11Ég skal fræða yður um mátt Guðs,
leyna engu sem Hinn almáttki hefur í huga.
12Þér hafið allir séð þetta,
hvers vegna farið þér þá með eintóman þvætting?
13Þetta er hlutskipti óguðlegs manns hjá Guði,
arfur ofbeldismanna frá Hinum almáttka.
14Verði synir hans margir eru þeir ætlaðir sverðinu
og börn hans mettast ekki af brauði.
15Dauðinn grefur þá sem undan komast
og ekkjurnar gráta ekki.
16Ef hann hrúgar saman silfri eins og sandi
og safnar að sér klæðum eins og leir,
17safnar hann að vísu en réttlátur maður mun ganga í þeim
og saklausir skipta með sér silfrinu.
18Hann byggði hús sitt eins og köngurlóarvef,
eins og skýli sem varðmaður reisir sér.
19Ríkur leggst hann til svefns en gerir það ekki aftur.
Þegar hann opnar augun er ekkert eftir.
20Skelfingar hellast yfir hann eins og vatnsflaumur,
stormsveipur ber hann burt um nótt,
21austanvindurinn hefur hann á loft svo að hann berst af stað,
feykir honum að heiman.
22 Hann ræðst vægðarlaust gegn honum,
hann reynir að komast undan á flótta.
23 Menn klappa saman lófum yfir honum
og flauta háðslega á eftir honum frá bústað hans.
Jobsbók 27. kafliHið íslenska biblíufélag2024-06-27T02:38:43+00:00
Jobsbók 27. kafli
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.