Dómur og náð
1Ég lét þá leita svara hjá mér sem ekki spurðu
og lét þá finna mig sem ekki leituðu mín.
Ég sagði: „Hér er ég, hér er ég,“
við þjóð sem ákallaði ekki nafn mitt.
2Ég breiddi út hendur mínar dag hvern
móti hinni þrjósku og uppreisnargjörnu þjóð
sem gengur veg sem ekki er góður
og fer að eigin geðþótta,
3móti þjóð sem reitir mig sífellt til reiði
fyrir augliti mínu.
Þeir fórna í görðum
og brenna reykelsi á tígulsteinum,
4hafast við í gröfum,
dveljast um nætur meðal kletta,
eta svínakjöt
og hafa súpu af óhreinu kjöti í pottum sínum.
5Þeir segja: „Vertu þar sem þú ert,
komdu ekki nærri mér því að ég er of helgur fyrir þig.“
Slíkir menn eru reykur í nösum mínum,
eldur sem brennur liðlangan daginn.
6Þetta er vissulega skráð fyrir augliti mínu,
ég mun ekki þagna fyrr en ég hef endurgoldið þeim
og varpað gjaldinu í skaut þeirra,
7bæði fyrir sekt þeirra og sekt feðra þeirra,
segir Drottinn.
Þeir brenndu reykelsi á fjöllum
og smánuðu mig á hæðunum.
Ég mun gjalda þeim eftir verkum þeirra
og endurgjalda í skaut þeirra.
8Svo segir Drottinn:
Þegar menn finna safa í vínberi
segja þeir: „Skemmdu það ekki
því að í því er blessun.“
Hið sama mun ég gera fyrir þjóna mína
til að tortíma þeim ekki öllum.
9Ég gef Jakobi niðja
og Júda erfingja að fjöllum mínum,
þeir sem ég hef valið skulu taka þau til eignar
og þjónar mínir búa þar.
10Saron verður beitiland fyrir fé
og Akordalur hvíldarstaður nauta
fyrir þjóð mína sem leitar svara hjá mér.
11En yður sem hafið yfirgefið Drottin
og gleymt mínu heilaga fjalli,
yður sem búið Gað borð
og skenkið Mení bikar,
12yður ofursel ég sverðinu.
Þér verðið allir að krjúpa til aftöku
því að ég hrópaði en þér svöruðuð ekki,
ég talaði en þér hlustuðuð ekki
heldur gerðuð það sem var illt í augum mínum
og völduð það sem mér þóknaðist ekki.
13Þess vegna segir Drottinn Guð svo:
Þjónar mínir munu eta
en yður mun hungra,
þjónar mínir munu drekka
en yður mun þyrsta,
þjónar mínir munu gleðjast
en von yðar mun bregðast.
14Þjónar mínir munu hrópa af glöðu hjarta
en þér munuð kveina af kvöldu hjarta
og hljóða af angist.
15Þér skuluð ljá mínum útvöldu nöfn yðar
og þeir munu nota þau sem formælingu:
„Drottinn Guð drepi þig,“
en þjónum sínum gefur hann nýtt nafn.
16Sá sem óskar sér blessunar í landinu
óski sér blessunar í nafni hins trúfasta Guðs
og hver sem vinnur eið í landinu,
hann vinni eið í nafni hins trúfasta Guðs
þar sem fyrri þrengingar eru gleymdar
og huldar fyrir augum mínum.
Nýr himinn og ný jörð
17Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð
og hins fyrra verður ekki minnst framar
og það skal engum í hug koma.
18Gleðjist og fagnið ævinlega
yfir því sem ég skapa
því sjá, ég geri Jerúsalem að fögnuði
og íbúa hennar að gleði.
19Ég mun gleðjast yfir Jerúsalem
og fagna yfir þjóð minni,
þar mun aldrei framar heyrast grátur og kvein.
20Þar verða ekki framar börn sem aðeins lifa fáa daga
eða öldungur sem ekki nær fullum aldri
en sá sem deyr tíræður telst ungur
og sá sem ekki nær tíræðu verður talinn bölvaður.
21Menn munu reisa hús og búa í þeim,
planta víngarða og neyta ávaxta þeirra.
22 Menn munu ekki reisa hús sem annar býr í,
ekki planta og annar neyta
en þjóð mín mun ná aldri trjánna
og mínir útvöldu njóta ávaxta iðju sinnar.
23 Þeir munu ekki erfiða til einskis
og ekki eignast börn sem deyja fyrir tímann
því að þeir eru niðjar þeirra sem Drottinn hefur blessað
og börn þeirra með þeim.
24 Áður en þeir hrópa mun ég svara
og áður en þeir hafa orðinu sleppt mun ég bænheyra.
25 Úlfur og lamb verða saman á beit,
ljón mun bíta gras eins og naut
og mold verða fæða höggormsins.
Hvergi á mínu heilaga fjalli
munu þau vinna mein né gera skaða,
segir Drottinn.