Guðsþjónustan og musterið
1Svo segir Drottinn:
Himinninn er hásæti mitt og jörðin fótskör mín.
Hvar er húsið sem þér gætuð reist mér,
hvar sá staður sem verið gæti hvíldarstaður minn?
2Allt þetta gerði hönd mín
og allt þetta er mitt, segir Drottinn.
Samt lít ég til þess sem er umkomulaus og beygður í anda
og skelfur fyrir orði mínu.
3Sá sem slátrar nauti er engu mætari en manndrápari,
sá sem færir sauð í sláturfórn er engu mætari en sá sem hefur hálsbrotið hund,
sá sem færir kornfórn ber fram svínablóð,
sá sem brennir reykelsi blessar skurðgoð.
4Þeir völdu sína eigin vegi
og gleðjast yfir viðurstyggðum sínum,
eins valdi ég þeim misþyrmingar
og sendi það yfir þá sem þeir skelfast
því að ég hrópaði en enginn svaraði,
talaði en enginn hlustaði.
Þeir gerðu það sem illt var í augum mínum
og höfðu mætur á því sem mér mislíkaði.
5Heyrið orð Drottins, þér sem skjálfið fyrir boðskap hans.
Bræður yðar, sem hata yður
og hrekja yður brott vegna nafns míns, segja:
„Drottinn birtist í dýrð sinni
svo að vér getum séð gleði yðar,“
en þeir skulu til skammar verða.
6Heyr gnýinn frá borginni, heyr óminn frá musterinu.
Heyr, Drottinn endurgeldur fjandmönnum sínum verk þeirra.
7Áður en kona fær hríðir
hefur hún fætt,
áður en hún tekur jóðsótt
hefur hún alið sveinbarn.
8Hver hefur heyrt annað eins,
hver séð nokkuð þessu líkt?
Fæðist land á einum degi,
þjóð í einni andrá?
Óðar en Síon fékk hríðir
fæddi hún syni sína. [
9Opna ég móðurlíf
án þess að barn fæðist
eða læt ég fæðingu hefjast
og hindra hana síðan? segir Guð þinn.
10Gleðjist með Jerúsalem og fagnið í henni,
allir þér sem elskið hana,
fagnið með henni og kætist,
allir þér sem eruð hryggir hennar vegna
11svo að þér getið sogið og saðst af huggunarbrjósti hennar,
svo að þér getið teygað og gætt yður á nægtabarmi hennar.
12Því að svo segir Drottinn:
Ég veiti velsæld til hennar eins og fljóti
og auðæfum þjóðanna eins og bakkafullum læk.
Brjóstmylkingar hennar verða bornir á mjöðminni
og þeim hossað á hnjánum.
13Eins og móðir huggar barn sitt,
eins mun ég hugga yður,
í Jerúsalem verðið þér huggaðir.
14Þegar þér sjáið þetta mun hjarta yðar fagna
og bein yðar blómgast sem grængresi.
Hönd Drottins birtist þjónum hans
en reiðin bitnar á fjandmönnum hans.
15Því sjá, Drottinn kemur í eldi
og stríðsvagnar hans verða sem stormsveipur,
hann kemur til að endurgjalda með glóandi reiði sinni
og logandi heift sinni.
16Því að Drottinn kemur í eldi
til að dæma alla jörðina
og allt hold með sverði sínu
og margir verða vegnir af Drottni.
17Þeir sem helga sig og hreinsa til að fara í garðana
og leita þann uppi sem er í miðjunni,
eta svínakjöt, maðka og mýs,
munu allir farast, segir Drottinn.
Ég þekki athafnir þeirra og hugsanir.
Allar þjóðir tilbiðja Guð Ísraels
18 Ég mun sjálfur koma til að stefna saman öllum þjóðum og tungum og þær munu koma og sjá dýrð mína. 19 Ég mun setja upp tákn á meðal þeirra og senda þá sem undan komust til þjóðanna í Tarsis, Pút, Lúd, Mesek, Túbal, Javan[ og á hinum fjarlægu eyjum sem hvorki hafa heyrt neitt um mig né séð dýrð mína og þeir skulu skýra frá dýrð minni meðal þjóðanna. 20 Þeir skulu flytja alla bræður yðar frá öllum þjóðum sem fórnargjöf til Drottins, á hestum og í vögnum og burðarstólum, á múldýrum og úlföldum til míns heilaga fjalls, til Jerúsalem, segir Drottinn, eins og þegar Ísraelsmenn færa kornfórn í hreinum kerum til húss Drottins. 21 Ég mun jafnvel velja nokkra þeirra til að vera prestar og Levítar, segir Drottinn.
22 Já, eins og hinn nýi himinn
og hin nýja jörð, sem ég skapa,
standa frammi fyrir augliti mínu, segir Drottinn,
munu niðjar yðar og nafn standa þar.
23 Frá tunglkomudegi til tunglkomudags
og frá hvíldardegi til hvíldardags
koma allir menn til að falla fram fyrir augliti mínu, segir Drottinn.
24 Þeir munu ganga út og sjá lík þeirra sem risu gegn mér.
Hvorki deyja í þeim maðkarnir
né slokknar í þeim eldurinn
og þeir verða öllum mönnum viðurstyggð.