1 Stríðið milli ættar Sáls og ættar Davíðs dróst á langinn. Davíð efldist sífellt en ætt Sáls varð æ veikari.

Synir Davíðs í Hebron

2 Í Hebron fæddust Davíð þessir synir: Amnon var frumburður hans með Akínóam frá Jesreel. 3 Kíleab var næstelstur en hann eignaðist Davíð með Abígail sem áður var eiginkona Nabals frá Karmel, þriðji Absalon, sonur Maöku dóttur Talmaí, konungs í Gesúr, 4 fjórði Adónía, sonur Haggítar, fimmti Sefatja, sonur Abít-alar, 5 sjötti Jitream, með Eglu sem var eiginkona Davíðs. Þessir synir fæddust Davíð í Hebron.

Abner gengur í lið með Davíð

6 Á meðan stríðið stóð milli ættar Sáls og ættar Davíðs jók Abner sífellt völd sín í ætt Sáls.
7 Sál hafði átt hjákonu sem hét Rispa og var Ajasdóttir. Einhverju sinni sagði Ísbóset við Abner: „Hvers vegna gekkst þú inn til hjákonu föður míns?“ 8 Abner reiddist mjög orðum Ísbósets og svaraði: „Er ég hundshaus frá Júda? Enn í dag sýni ég ætt Sáls, föður þíns, bræðrum hans og vinum fullan trúnað. Ég hef ekki selt þig í hendur Davíðs. En nú sakarðu mig um að hafa gerst brotlegur með þessari konu. 9 Guð láti mig gjalda þess, nú og síðar, ef ég breyti ekki við Davíð samkvæmt því sem Drottinn hét honum 10 með því að svipta ætt Sáls konungdóminum og reisa hásæti Davíðs yfir Ísrael og Júda frá Dan til Beerseba.“ 11 Ísbóset gat ekki svarað Abner einu orði af ótta við hann.
12 Í stað þess að fara sjálfur gerði Abner menn á fund Davíðs með þessa orðsendingu: „Hver á landið? Gerðu við mig sáttmála og ég skal styðja þig til að snúa öllum Ísrael til fylgis við þig.“ 13 „Já,“ svaraði Davíð. „Ég skal gera sáttmála við þig en eins krefst ég af þér: Þú færð ekki að líta mig augum nema þú færir mér Míkal, dóttur Sáls, þegar þú kemur á minn fund.“ 14 Davíð sendi nú menn til Ísbósets, sonar Sáls, og lét segja honum: „Fáðu mér aftur Míkal, konu mína, sem ég greiddi hundrað forhúðir Filistea fyrir í brúðarverð.“ 15 Ísbóset sendi þegar í stað mann og lét taka hana frá Paltíel Laíssyni, eiginmanni hennar. 16 Maður hennar fylgdi henni grátandi alla leið til Bahúrím. Þá sagði Abner við hann: „Farðu heim aftur,“ og hann fór heim.
17 Abner tók nú að semja við öldunga Ísraels og sagði: „Þið hafið lengi óskað þess að Davíð yrði konungur yfir ykkur. 18 Látið nú verða af því. Drottinn hefur sagt við Davíð: „Fyrir atbeina Davíðs, þjóns míns, mun ég frelsa þjóð mína, Ísrael, úr höndum Filistea og allra annarra fjandmanna hennar.“ 19 Abner talaði einnig við ættbálk Benjamíns. Loks fór hann til Davíðs í Hebron til þess að skýra honum frá því hvað Ísrael og ættbálkur Benjamíns höfðu ákveðið.
20 Þegar Abner kom til Davíðs í Hebron ásamt tuttugu mönnum hélt Davíð Abner og fylgdarmönnum hans veislu. 21 Þá sagði Abner við Davíð: „Nú held ég af stað, safna öllum Ísrael saman og stefni honum til herra míns, konungsins. Þá munu þeir gera sáttmála við þig og þú munt ráða yfir öllu því sem hugur þinn girnist.“ Síðan sendi Davíð Abner af stað og hann fór í friði.

Abner myrtur

22 Skömmu síðar komu menn Davíðs ásamt Jóab úr ránsferð og höfðu mikið herfang með sér. Abner var þá ekki lengur hjá Davíð í Hebron því að hann hafði sent hann frá sér í friði.
23 Þegar Jóab var kominn ásamt öllum hernum, sem með honum var, var honum sagt: „Abner Nersson kom til konungs sem sendi hann frá sér í friði.“ 24 Jóab fór þegar í stað til konungsins og spurði: „Hvað hefurðu gert? Abner kom til þín. Hvers vegna leyfðirðu honum að fara leiðar sinnar? 25 Þú þekkir Abner Nersson. Hann kom aðeins til að blekkja þig og njósna um ferðir þínar og allt sem þú aðhefst.“
26 Þegar Jóab var genginn út frá Davíð sendi hann menn á eftir Abner. Þeir komu aftur með hann frá Sírabrunni án þess að Davíð vissi. 27 Þegar Abner var kominn aftur til Hebron vék Jóab honum afsíðis inni í borgarhliðinu til að tala við hann undir fjögur augu og stakk hann í kviðinn í hefndarskyni fyrir Asael, bróður sinn, og varð það hans bani.
28 Þegar Davíð frétti þetta nokkru síðar sagði hann: „Ég er ævinlega saklaus fyrir Drottni, og einnig konungdæmi mitt, af því að hafa úthellt blóði Abners Nerssonar. 29 Sökin skal koma yfir Jóab og fjölskyldu hans. Ávallt skal einhver af ætt Jóabs þjást af blæðandi sárum, holdsveiki, eða þurfa að styðjast við hækjur, falla fyrir sverði eða svelta.“ 30 Jóab og Abísaí, bróðir hans, myrtu Abner af því að hann hafði fellt Asael, bróður þeirra, í orrustunni við Gíbeon.
31 Síðan sagði Davíð við Jóab og allt fólkið sem hjá honum var: „Rífið klæði ykkar, gyrðist hærusekk og syrgið Abner.“ Davíð konungur gekk sjálfur á eftir líkbörunum. 32 Abner var grafinn í Hebron. Konungurinn grét hástöfum við gröf Abners og allt fólkið grét.
33 Konungurinn flutti harmljóð í minningu Abners:
Varð Abner að deyja
eins og auðnuleysingi?
34 Hendur þínar voru ekki bundnar,
fætur þínir ekki hlekkjaðir,
þú féllst eins og sá sem
fellur fyrir níðings hendi.

Og allt fólkið grét hann enn meir.
35 Þá komu allir og reyndu að fá Davíð til að neyta matar meðan dagur var en Davíð sór og sagði: „Guð refsi mér nú og síðar ef ég bragða brauð eða eitthvað annað fyrir sólsetur.“ 36 Allt fólkið veitti þessu athygli og féll það vel eins og hvað eina sem konungur hafði gert. 37 Þann dag sannfærðist allt fólkið og allur Ísrael um að konungurinn hefði ekki verið valdur að vígi Abners Nerssonar.
38 Konungur sagði enn fremur við þjóna sína: „Vitið þið ekki að sá sem féll í Ísrael í dag var höfðingi og mikilmenni í Ísrael? 39 En ég má mín enn of lítils, þó að ég sé smurður konungur, og þessir menn, synir Serúju, eru mér öflugri. Drottinn endurgjaldi illvirkjanum eins og hann á skilið.“