Innrás Sanheríbs í Júda
1 Eftir þessar aðgerðir, sem báru trúfesti Hiskía vitni, kom Sanheríb Assýríukonungur og hélt inn í Júda. Hann réðst á víggirtu borgirnar og hugðist vinna þær og taka til eignar.
2 Hiskía varð ljóst að Sanheríb var kominn til þess að ráðast á Jerúsalem. 3 Hann ráðgaðist því við herforingja sína og kappa um það hvort stífla ætti uppspretturnar sem voru utan við borgina og veittu þeir honum stuðning. 4 Miklum mannfjölda var þá safnað saman og stíflaði hann allar uppspretturnar og lækinn sem rennur neðanjarðar[ því að þeir hugsuðu með sér: „Hvers vegna ættu konungar Assýríu að finna gnægð vatns þegar þeir koma?“
5 Hiskía herti nú upp hugann, lét gera við borgarmúrinn alls staðar þar sem hann var brotinn, hækka turnana og reisa annan múr fyrir utan borgarmúrinn. Hann lét einnig víggirða Milló í borg Davíðs og smíða mörg kastspjót og skildi. 6 Því næst skipaði hann herforingja yfir fólkið, safnaði því saman á torginu við borgarhliðið, hvatti það og sagði: 7 „Verið djörf og hraust. Óttist ekki og skelfist ekki frammi fyrir konungi Assýríu og þeim mikla her sem kemur með honum. Sá sem er með okkur er meiri en sá sem er með honum. 8 Með honum er mannlegur máttur[ en með okkur er Drottinn, Guð okkar. Hann mun hjálpa okkur og berjast með okkur.“ Fólkið styrktist við orð Hiskía Júdakonungs.
9 Eftir þetta sendi Sanheríb Assýríukonungur embættismenn sína til Jerúsalem. Sjálfur var hann um kyrrt við Lakís ásamt öllum her sínum en sendi þessa orðsendingu til Hiskía Júdakonungs og allra Júdamanna í Jerúsalem: 10 „Svo segir Sanheríb Assýríukonungur: Á hvað treystið þið fyrst þið eruð um kyrrt í herkvínni í Jerúsalem? 11 Þegar Hiskía segir: Drottinn, Guð okkar, mun bjarga okkur úr hendi Assýríukonungs, er hann þá ekki að blekkja ykkur svo að þið deyið úr hungri og þorsta? 12 Var það ekki þessi sami Hiskía sem afnam fórnarhæðir hans og ölturu og skipaði Júdamönnum og Jerúsalembúum svo fyrir: Þið megið aðeins falla fram fyrir einu altari og færa reykelsisfórnir á því. 13 Vitið þið ekki hvað ég og feður mínir hafa gert við allar aðrar þjóðir? Hafa þjóðaguðir þessara landa getað bjargað þeim úr hendi minni? 14 Hver af guðum allra þessara þjóða, sem feður mínir hafa helgað banni, hefur getað bjargað þjóð sinni úr hendi minni? Hvernig ætti guð ykkar þá að geta bjargað ykkur úr hendi minni? 15 Látið nú ekki Hiskía blekkja ykkur og svíkja á þennan hátt. Treystið honum ekki. Enginn guð neinnar þjóðar eða konungsríkis hefur getað bjargað þjóð sinni úr hendi minni né úr hendi feðra minna. Hversu miklu síður getur þá guð ykkar bjargað ykkur úr hendi minni?“
16 Þjónar hans töluðu enn fleira gegn Drottni Guði og Hiskía, þjóni hans. 17 Sanheríb skrifaði einnig svohljóðandi bréf til að hæða Drottin, Guð Ísraels, og til að tala gegn honum: „Guð Hiskía mun ekki geta bjargað þjóð sinni úr hendi minni fremur en guðir hinna þjóðanna gátu bjargað þjóðum sínum úr hendi minni.“
18 Þeir hrópuðu einnig hárri röddu á máli Júdamanna til þeirra íbúa Jerúsalem sem voru uppi á borgarmúrnum til að hræða þá og skelfa til þess að þeir ættu hægara með að ná borginni. 19 Þeir töluðu um Guð Jerúsalem á sama hátt og guði annarra þjóða sem eru gerðir af manna höndum.
20 Vegna þessa báðu Hiskía konungur og Jesaja spámaður Amotsson og hrópuðu til himins. 21 Drottinn sendi þá engil sem drap alla hermenn, hershöfðingja og liðsforingja í herbúðum Assýríukonungs. Hann varð því að snúa aftur heim til lands síns með skömm. Einhverju sinni, þegar hann kom í hús guðs síns, hjuggu synir hans hann með sverði. 22 Þannig bjargaði Drottinn Hiskía og íbúum Jerúsalem úr hendi Sanheríbs Assýríukonungs og úr hendi allra fjandmanna hans. Hann veitti þeim frið allt um kring. 23 Margir færðu Drottni gjafir í Jerúsalem og Hiskía Júdakonungi gersemar. Eftir þetta var hann mikils metinn af öllum þjóðum.
Hiskía deyr
24 Um þessar mundir veiktist Hiskía og var að dauða kominn. Þá bað hann til Drottins sem bænheyrði hann og veitti honum tákn þess. 25 En Hiskía endurgalt ekki þá velvild, sem honum hafði verið sýnd, heldur gerðist hrokafullur. Þess vegna hefði reiði Drottins átt að koma yfir hann, Júdamenn og Jerúsalembúa. 26 En Hiskía auðmýkti sig og íbúar Jerúsalem með honum. Heift Drottins kom því ekki yfir þá á meðan Hiskía lifði.
27 Hiskía var mjög auðugur og mikils metinn. Hann lét gera fjárhirslur fyrir silfur, gull og dýrindis steina, einnig fyrir ilmjurtir, skildi og alls kyns dýrgripi. 28 Hann lét líka gera skemmur fyrir korn, vínberjasafa og olíu og gripahús fyrir alls konar búfé og fyrir hjarðirnar. 29 Hann hafði látið reisa borgir handa sér og eignast margt sauðfjár og nauta því að Guð gaf honum miklar eignir.
30 Það var Hiskía sem lét stífla efri uppsprettu Gíhonlindar og veita vatninu niður og vestur til borgar Davíðs. Hiskía farnaðist vel í öllu sem hann tók sér fyrir hendur.
31 Þegar babýlonsku herforingjarnir sendu fulltrúa sína til hans til að spyrjast fyrir um táknið sem hafði orðið í landinu yfirgaf Guð hann til þess að reyna hann og komast að því hver hugur hans væri í raun og veru.
32 Það sem ósagt er af sögu Hiskía og afrekum hans er skráð í sýnum Jesaja spámanns Amotssonar og bók konunga Júda og Ísraels.
33 Hiskía var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum. Hann var grafinn við veginn að gröfum niðja Davíðs. Allir Júdamenn og íbúar Jerúsalem sýndu honum virðingu við lát hans. Manasse, sonur hans, varð konungur eftir hann.