Abía konungur Júda
1 Á átjánda stjórnarári Jeróbóams konungs varð Abía konungur í Júda. 2 Hann ríkti þrjú ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Míkaja Úríelsdóttir frá Gíbeu.
Til ófriðar kom milli Abía og Jeróbóams. 3 Abía hóf stríðið með her þjálfaðra stríðsmanna, fjögur hundruð þúsund manna einvalaliði. Jeróbóam fylkti gegn honum átta hundruð þúsund manna úrvalsliði, þjálfuðum stríðsmönnum.
4 Þá tók Abía sér stöðu á tindi Semaraímfjalls, sem er í Efraímsfjöllum, og hrópaði: „Jeróbóam og allur Ísrael, hlýðið á mig. 5 Vitið þið ekki að Drottinn, Guð Ísraels, hefur veitt Davíð og niðjum hans konungdóm yfir Ísrael um alla framtíð með saltsáttmála?[
6 Jeróbóam Nebatsson, þjónn Salómons, sonar Davíðs, reis samt upp og gerði uppreisn gegn herra sínum. 7 Lausingjar og hrakmenni söfnuðust að honum og þeir urðu Rehabeam, syni Salómons, öflugri. Rehabeam var ungur og óharðnaður og gat ekki veitt þeim viðnám. 8 En nú ætlið þið að ráðast gegn konungdómi Drottins, sem er í hendi niðja Davíðs, af því að þið eruð fjölmennir og gullkálfarnir, sem Jeróbóam gerði að guðum ykkar, eru hjá ykkur. 9 Hafið þið ekki rekið burt presta Drottins, niðja Arons, og Levítana og skipað ykkur presta sjálfir eins og þjóðir í öðrum löndum? Sérhver, sem kom með ungt naut og sjö geithafra til þess að láta setja sig í prestsembætti, varð prestur falsguðanna. 10 En Drottinn er Guð okkar og við höfum ekki yfirgefið hann. Þeir prestar, sem þjóna Drottni, eru niðjar Arons og Levítarnir eru í þjónustu hans. 11 Morgun eftir morgun og kvöld eftir kvöld færa þeir Drottni brennifórnir og ilmandi reykelsi og raða brauðum á hið hreina borð. Þeir kveikja á lömpum gullljósastikunnar kvöld eftir kvöld. Því að við fylgjum fyrirmælum Drottins, Guðs okkar, en þið hafið snúið baki við honum. 12 Takið eftir: Hinn sanni Guð er með okkur í broddi fylkingar. Prestar hans eru hér með lúðrana, reiðubúnir að blása til atlögu. Ísraelsmenn, berjist ekki gegn Drottni, Guði feðra ykkar, því að ykkur mun ekkert verða ágengt.“
13 Jeróbóam hafði látið hluta liðs síns fara umhverfis Júdamenn og koma aftan að þeim. Meginherinn stóð því frammi fyrir Júdamönnum en launsátursliðið að baki þeim. 14 Þegar Júdamenn sneru sér við sáu þeir að þeim var bardagi búinn bæði að baki og að framan. Þá ákölluðu þeir Drottin og prestarnir blésu í lúðrana. 15 Því næst lustu Júdamenn upp herópi. Á meðan Júdamenn hrópuðu sigraði Drottinn Jeróbóam og allan Ísrael frammi fyrir Abía og Júdamönnum. 16 Ísraelsmenn lögðu á flótta undan Júdamönnum en Guð seldi þá í hendur þeim 17 og Abía og her hans vann þeim mikið tjón. Af Ísraelsmönnum féllu fimm hundruð þúsund úrvals hermenn. 18 Þannig voru Ísraelsmenn niðurlægðir þessu sinni en Júdamenn reyndust yfirsterkari af því að þeir studdust við Drottin, Guð feðra sinna.
19 Abía rak flótta Jeróbóams og vann af honum nokkrar borgir: Betel, Jesana og Efron, ásamt þorpum þeirra borga. 20 Jeróbóam endurheimti ekki völd sín meðan Abía lifði. Loks laust Drottinn hann til bana. 21 En Abía varð voldugur, tók sér fjórtán eiginkonur og eignaðist tuttugu og tvo syni og sextán dætur.
Dauði Abía
22 Það sem ósagt er af sögu Abía, bæði af verkum hans og orðum, er skráð í skýringariti Iddó spámanns. 23 Abía var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum. Hann var grafinn í borg Davíðs. Asa, sonur hans, varð konungur eftir hann. Friður ríkti í landinu tíu ár á stjórnartíma hans.