Amasía Júdakonungur
1 Á öðru stjórnarári Jóasar Jóahassonar Ísraelskonungs varð Amasía Jóasson konungur yfir Júda. 2 Hann var tuttugu og fimm ára, þegar hann varð konungur, og hann ríkti tuttugu og níu ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Jóaddín og var frá Jerúsalem.
3 Hann gerði það sem rétt var í augum Drottins, þó ekki eins og Davíð, forfaðir hans. Hann breytti í öllu eins og Jóas faðir hans. 4 Fórnarhæðirnar hurfu þó ekki og fólkið hélt áfram að færa sláturfórnir og reykelsisfórnir á hæðunum.
5 Þegar Amasía var orðinn fastur í sessi sem konungur lét hann taka þá af embættismönnum sínum af lífi sem drepið höfðu föður hans, konunginn. 6 Þó lét hann ekki lífláta syni morðingjanna vegna þess sem skrifað stendur í lögmálsbók Móse þar sem Drottinn mælir svo fyrir: „Ekki skal drepa feður fyrir afbrot sonanna né syni fyrir afbrot feðranna, heldur skal hver maður deyja fyrir eigin afbrot.“
7 Það var hann sem sigraði Edómíta í Saltdalnum, tíu þúsund menn, og tók borgina Sela með áhlaupi. Hann nefndi hana Joktel og það heitir hún enn í dag.
8 Amasía sendi nú menn með þessi boð til Jóasar Jóahassonar, Jehúsonar, Ísraelskonungs: „Nú skulum við reyna með okkur.“ 9 Þá sendi Jóas, konungur Ísraels, þessi boð til Amasía, konungs í Júda: „Þistillinn á Líbanon sendi sedrustrénu á Líbanon þessi skilaboð: Gefðu syni mínum dóttur þína að konu. En villidýrin á Líbanon hlupu þar hjá og tróðu þistilinn niður. 10 Þú hefur gersigrað Edóm og því ofmetnast hjarta þitt. Njóttu frægðarinnar og sittu heima. Hvers vegna storkarðu gæfunni þér og Júda til falls?“
11 En Amasía vildi ekki hlusta. Hélt þá Jóas Ísraelskonungur af stað og laust þeim Amasía Júdakonungi saman við Bet Semes sem heyrir undir Júda. 12 Júdamenn biðu lægri hlut fyrir Ísraelsmönnum og flýðu til tjalda sinna.
13 Jóas Ísraelskonungur tók Amasía Júdakonung, son Jóasar Ahasíasonar, til fanga við Bet Semes. Síðan kom hann til Jerúsalem og reif niður múra Jerúsalem frá Efraímshliði að hornhliðinu, fjögur hundruð álnir. 14 Hann tók með sér allt gull og silfur og öll áhöld sem fundust í musteri Drottins og í fjárhirslum konungshallarinnar. Hann tók einnig gísla og sneri aftur til Samaríu. 15 Það sem ósagt er af sögu Jóasar, verkum hans, afrekum og hernaði gegn Amasía er skráð í annála Ísraelskonunga.
16 Jóas var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og grafinn í Samaríu hjá konungum Ísraels. Jeróbóam, sonur hans, varð konungur eftir hann.
Amasía deyr
17 Amasía Jóasson Júdakonungur lifði í fimmtán ár eftir dauða Jóasar Jóahassonar Ísraelskonungs. 18 Það sem ósagt er af sögu Amasía er skráð í annála Júdakonunga.
19 Í Jerúsalem var gert samsæri gegn Amasía svo að hann flýði til Lakís, menn voru sendir á eftir honum til Lakís og þar drápu þeir hann. 20 Hann var fluttur á hestum til Jerúsalem og grafinn þar hjá feðrum sínum í borg Davíðs. 21 Því næst sóttu allir Júdamenn Asaría, sem þá var sextán ára, og gerðu hann að konungi eftir Amasía föður sinn. 22 Hann víggirti Elat og lagði aftur undir Júda. Hafði Amasía konungur þá verið lagður til hvíldar hjá feðrum sínum.
Jeróbóam II Ísraelskonungur
23 Á fimmtánda stjórnarári Amasía Jóassonar Júdakonungs varð Jeróbóam Jóasson konungur yfir Ísrael og ríkti fjörutíu og eitt ár í Samaríu. 24 Hann gerði það sem illt var í augum Drottins. Hann lét ekki af að drýgja þær syndir sem Jeróbóam Nebatsson kom Ísrael til að drýgja. 25 Hann vann aftur landsvæði Ísraels frá Lebo Hamat til Arabavatnsins[ samkvæmt orði Drottins, Guðs Ísraels, sem hann flutti fyrir munn þjóns síns, Jónasar spámanns Amittaísonar frá Gat Hefer.
26 Drottinn hafði séð bitra neyð Ísraels. Bæði skorti þræla og frjálsa menn og enginn gat bjargað Ísrael. 27 En Drottinn hafði ekki sagt að hann ætlaði að afmá nafn Ísraels af jörðinni og lét Jeróbóam Jóasson bjarga Ísraelsmönnum.
28 Það sem ósagt er af sögu Jeróbóams, verkum hans og afrekum, hernaði hans og hvernig hann lagði Damaskus og Hamat aftur undir Ísrael er skráð í annála Ísraelskonunga. 29 Jeróbóam var lagður til hvíldar hjá feðrum sínum, Ísraelskonungum. Sakaría, sonur hans, varð konungur eftir hann.