Fjársjóður í leirkerum
1 Guð hefur sýnt mér miskunn og falið mér þessa þjónustu. Þess vegna læt ég ekki hugfallast. 2 Ég hafna allri skammarlegri launung, ég beiti ekki klækjum né falsa Guðs orð heldur birti ég sannleikann. Guð veit að ég skírskota til samvisku hvers manns um sjálfan mig. 3 En ef fagnaðarerindi mitt er hulið þá er það hulið þeim einum sem glatast. 4 Því guð þessarar aldar hefur blindað huga vantrúaðra til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans sem er mynd Guðs. 5 Ekki prédika ég sjálfan mig heldur prédika ég að Kristur Jesús sé Drottinn og hann sendi mig til að vera þjónn ykkar. 6 Því að Guð sem sagði: „Ljós skal skína fram úr myrkri!“ lét það skína í hjarta mitt til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists.
7 En þennan fjársjóð ber ég í leirkerum til þess að sýna að krafturinn mikli kemur frá Guði en ekki frá mér. 8 Á allar hliðar er ég aðþrengdur en læt þó ekki bugast, ég er efablandinn en örvænti þó ekki, 9 ofsóttur en þó ekki yfirgefinn, felldur til jarðar en tortímist þó ekki. 10 Jafnan á ég á hættu að vera deyddur á sama hátt og Jesús til þess að ég geti einnig sýnt hvernig Jesús lifir. 11 Vegna Jesú lifi ég jafnan í hættu á að deyja til þess að jarðneskt líf mitt sýni að Jesús lifir. 12 Þannig er dauðinn að verki í mér en lífið í ykkur. 13 Í Ritningunni stendur: „Ég trúði, þess vegna talaði ég.“ Ég hef sama anda og tala af því að ég trúi. 14 Ég veit að Guð, sem vakti upp Drottin Jesú, mun einnig uppvekja mig ásamt Jesú og leiða mig fram ásamt ykkur. 15 Allt er þetta ykkar vegna til þess að náðin verði sem mest og láti sem flesta flytja þakkargjörð Guði til dýrðar.
Eilíft hús á himnum
16 Fyrir því læt ég ekki hugfallast. Jafnvel þótt minn ytri maður hrörni þá endurnýjast dag frá degi minn innri maður. 17 Þrenging mín er skammvinn og léttbær og aflar mér eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt. 18 Ég horfi ekki á hið sýnilega heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt en hið ósýnilega eilíft.