Hvatning til hinna hógværu
1Safnast, kom saman,
þú blygðunarlausa þjóð,
2áður en stundin rennur
sem feykist hjá eins og hismi,
áður en hin brennandi reiði Drottins
kemur yfir þig,
áður en reiðidagur Drottins
kemur yfir þig.
3Leitið Drottins,
allir hógværir í landinu
sem farið að boðum hans.
Ástundið réttlæti,
ástundið auðmýkt.
Ef til vill veitist yður hæli
á reiðidegi Drottins.
Ræður gegn þjóðunum
4Því að Gasa verður yfirgefin
og Askalon fer í eyði.
Íbúar Asdódborgar munu hraktir burt
um hábjartan dag
og Ekron verður lögð í eyði.
5Vei þér, þjóð Kreta,
sem býrð við sjávarsíðuna.
Orð Drottins beinist gegn þér,
Kanaan, land Filistea.
Þig mun ég gera að mannlausri auðn.
6Við sjávarsíðuna
verður athvarf fjárhirða og sauðfjárkvíar.
7Hún fellur í hlut þeim
sem eftir verða af ætt Júda.
Þar munu þeir beita fé sínu
og leggjast til hvílu að kvöldi
í húsum Askalonborgar.
Því að Drottinn, Guð þeirra, mun vitja þeirra
og snúa við högum þeirra.
8Ég hef hlýtt á háðsyrði Móabs
og skopyrði Ammónsbúa
sem lítilsvirtu þjóð mína
og hreyktu sér yfir landi hennar.
9Svo sannarlega sem ég lifi,
segir Drottinn allsherjar, Guð Ísraels,
mun Móab farnast eins og Sódómu
og Ammónsbúum eins og Gómorru.
Illgresi og saltgrafir verða þar
og auðn að eilífu.
Þar munu leifar lýðs míns ræna
og þar munu þeir hreppa hlut sinn
sem eftir verða af þjóð minni.
10Þannig gjalda þeir fyrir drambsemina,
spottið og smánaryrðin
sem þeir hafa haft í frammi við lýð Drottins allsherjar.
11Ógurlegur mun Drottinn allsherjar reynast þeim,
hann dregur þrótt úr öllum guðum jarðarinnar
og hver maður mun lúta honum,
allar þjóðir eylandanna,
hver á sínum stað.
12Þér, Eþíópíumenn,
fallið einnig fyrir sverði mínu.
13Hann mun hefja arm sinn gegn norðri
og tortíma Assýríu,
gera Níníve að auðn,
að vatnslausri eyðimörk.
14Þar munu hjarðir liggja,
allar tegundir dýra.
Dvergkrákur og uglur munu gera sér náttból
á súlum hennar.
Uglur væla í gluggum
og hrafnar krunka við þröskuldana [
því að sedrusþilin hafa verið rifin.
15Þetta var þá borg glaumsins,
sem uggði ekki að sér
og hugsaði í hjarta sínu:
„Ég og engin önnur.“
Hvílík auðn er hún orðin,
bæli villidýra.
Sá sem nú fer þar hjá
hnussar og veifar hendinni.