1 Orð Drottins sem kom til Sefanía Kúsísonar, Gedaljasonar, Amarjasonar, Hiskíasonar á dögum Jósía Amónssonar Júdakonungs.
Eyðingin mikla
2Ég mun gereyða öllu af yfirborði jarðar,
segir Drottinn.
3Ég mun eyða mönnum og skepnum,
ég mun eyða fuglum himinsins og fiskum sjávarins,
ég mun leiða hina óguðlegu til falls
og þurrka út mennina af ásjónu jarðarinnar,
segir Drottinn.
4Ég mun hefja hönd mína gegn Júda
og öllum Jerúsalembúum
og afmá af þeim stað öll ummerki Baals,
nöfn hofgoðanna og prestanna,
5þá sem falla fram á húsþökum
fyrir herskörum himinsins
og þá sem falla fram fyrir Drottni
og sverja við hann en sverja þó við Milkóm, [
6og eins þá sem snúið hafa baki við Drottni
og hvorki leita Drottins
né spyrja hann ráða.
Dómsdagur
7Verið hljóð frammi fyrir Drottni Guði
því að dagur Drottins er í nánd.
Drottinn hefur efnt til sláturfórnar, [
gesti sína hefur hann þegar helgað.
8Á fórnardegi Drottins
mun ég refsa höfðingjunum
og konungssonunum
og öllum þeim sem bera erlend klæði.
9Á þeim degi refsa ég
öllum þeim sem stökkva yfir þröskuldinn, [
þeim sem fylla hús Drottins síns
með ofbeldi og svikum.
10Á þeim degi, segir Drottinn,
munu neyðaróp berast úr Fiskhliðinu,
kveinstafir frá nýja borgarhverfinu
og angistaróp frá hæðunum.
11Þeir munu kveina sem búa í lágborginni
því að allir kaupmenn verða horfnir
og afmáðir allir þeir er silfur vega.
12Á þeim degi mun ég grandskoða Jerúsalem með ljóskerum
og hegna þeim sem liggja andvaralausir [
og hugsa með sér:
„Drottinn mun ekkert aðhafast, hvorki gott né illt.“
13Auður þeirra verður að ránsfeng
og heimili þeirra að auðn.
Þeir munu byggja hús
en eigi búa í þeim,
gera sér víngarða
en ekki njóta vínsins.
Dagur reiðinnar
14Í nánd er hinn mikli dagur Drottins,
hann er í nánd og færist óðfluga nær.
Bitran hljóm fær dagur Drottins
og beiskleg verða óp kappans.
15Dagur reiði verður dagur sá,
dagur neyðar og þrengingar,
dagur eyðingar og auðnar,
dagur myrkurs og sorta,
dagur skýja og dimmu,
16dagur hornaþyts og herópa
gegn víggirtu borgunum
og varðturnunum háu.
17Ég mun skelfa þessa menn
og þeir munu reika um sem blindir menn
því að þeir hafa syndgað gegn Drottni.
Blóði þeirra verður þyrlað sem ryki
og innyflum þeirra sem saur.
18Hvorki silfur þeirra né gull
megnar að bjarga þeim.
Á reiðidegi Drottins
og í heiftarbáli hans verður öllu landinu eytt.
Gereyðingu og bráða tortímingu
býr hann öllum sem í landinu eru.