Trú Abrahams
1 Hvað skal þá segja um forföður vorn Abraham, hvað ávann hann? 2 Ef hann varð réttlættur vegna verka sinna mætti hann hrósa sér. Þó ekki fyrir Guði. 3 Eða hvað segir ritningin? Abraham trúði Guði og það var honum til réttlætis reiknað. 4 Sá sem vinnur verk fær ekki laun fyrir það af náð. Hann fær það sem hann á rétt á. 5 En sá hins vegar sem engu afkastar en treystir þeim sem réttlætir óguðlegan fær trú sína metna sér til réttlætis. 6 Eins og líka Davíð lýsir þann mann sælan sem Guð tilreiknar réttlæti án tillits til verka:
7Sælir eru þeir sem afbrotin eru fyrirgefin,
syndir þeirra huldar.
8Sæll er sá maður sem Drottinn
tilreiknar ekki synd.
9 Nær þessi sæluboðun aðeins til umskorinna manna? Eða líka til óumskorinna? Ég segi: Trúin var Abraham til réttlætis reiknuð. 10 Hvenær? Var hann umskorinn þá eða óumskorinn? Hann var ekki umskorinn þá, hann var óumskorinn. 11 Hann fékk umskurnina sem tákn, innsigli til staðfestingar á því réttlæti af trú sem hann átti óumskorinn. Þannig skyldi hann vera faðir allra þeirra sem trúa óumskornir svo að réttlætið tilreiknist þeim, 12 og eins faðir þeirra umskornu manna sem eru ekki aðeins umskornir heldur feta veg þeirrar trúar sem faðir vor Abraham átti óumskorinn.
Fyrirheitið og Abraham
13 Það var ekki vegna hlýðni við lögmálið að Abraham og niðjar hans fengu fyrirheitið um að erfa heiminn heldur vegna þeirrar trúar sem réttlætir. 14 Ef erfingjar hans eru þeir einir sem lögmálið halda er sú trú gerð að engu og fyrirheitið verður marklaust. 15 Því lögmálið vekur reiði en þar sem ekkert lögmál er þar eru ekki heldur lögmálsbrot.
16 Því er fyrirheitið bundið við trúna að það er gefið af náð og á að gilda fyrir alla niðja Abrahams, ekki fyrir þá eina sem hafa lögmálið heldur og fyrir þá sem trúa á Guð á sama hátt og hann. 17 Hann er faðir okkar allra eins og skrifað stendur: „Föður margra þjóða hef ég sett þig.“ Og það er hann frammi fyrir Guði sem hann trúði á, honum sem gerir dauða lifandi og kallar fram það sem er ekki til, og það verður til. 18 Abraham trúði með von, gagnstætt allri von, að hann yrði faðir margra þjóða, samkvæmt því sem Guð sagði við hann: „Svo margir skulu niðjar þínir verða.“ 19 Og ekki veiklaðist hann í trúnni þótt hann vissi sig kominn að fótum fram – hann var nær tíræður – og Sara ófær um að verða móðir sakir elli. 20 Um fyrirheit Guðs efaðist hann ekki í vantrú heldur styrktist í trúnni og gaf Guði dýrðina, 21 fullviss þess að Guð megnar að koma því fram sem hann hefur heitið. 22 Og það var metið honum til réttlætis. 23 En að það var þannig metið var ekki ritað vegna hans eins 24 heldur og okkar vegna. Trúin verður tilreiknuð okkur sem trúum á þann Guð sem vakti Jesú, Drottin vorn, upp frá dauðum, 25 hann sem var framseldur vegna misgjörða okkar og upp vakinn okkur til réttlætingar.