Annar ræðukafli
Önnur ræða Elífasar
1 Elífas frá Teman svaraði og sagði:
2Svarar vitur maður innantómum orðum
og fyllir brjóst sitt austanvindi
3til þess að verja málstað sinn með orðagjálfri?
4Þú brýtur jafnvel guðsóttann niður,
gerir lítið úr íhugun frammi fyrir augliti Guðs.
5Já, sekt þín leggur þér orð í munn
og þú velur þér tungutak lævísra.
6Munnur þinn dæmir þig sekan en ekki ég
og varir þínar vitna gegn þér.
7Fæddist þú fyrstur manna,
komstu í heiminn á undan hæðunum?
8Varstu áheyrandi í ráði Guðs
og aflaðir þér visku þar?
9Hvað veist þú sem vér vitum ekki,
hvað skilur þú sem oss er hulið?
10Öldungar og gráhærðir menn eru á meðal vor,
mun eldri en faðir þinn.
11Nægir þér ekki huggun Guðs,
mildilegt orð til þín talað?
12Hví læturðu hjarta þitt hlaupa með þig í gönur
og hvers vegna skjóta augu þín gneistum
13er þú beinir heift þinni gegn Guði
og lætur þvílík orð þér um munn fara?
14Hvernig getur dauðlegur maður verið hreinn
og sá haft rétt fyrir sér sem er af konu fæddur?
15Hann getur ekki einu sinni treyst sínum heilögu
og himinninn er ekki hreinn í augum hans,
16hvað þá andstyggilegur og spilltur maður
sem svelgir í sig ranglæti eins og vatn.
17Nú ætla ég að kenna þér, hlustaðu á mig,
ég ætla að segja frá því sem ég hef sjálfur séð
18og vitrir menn hafa sagt
og földu ekki fyrir feðrum sínum.
19Þeim einum var landið gefið
og enginn ókunnugur var á meðal þeirra.
20Guðleysinginn kvelst alla ævidaga sína
og ofbeldismaðurinn þau ár sem honum eru mæld,
21skelfingaróp hljóma í eyrum hans,
eyðandinn ræðst gegn honum á friðartímum.
22 Hann trúir því ekki að hann sleppi úr myrkrinu,
sverðið bíður hans.
23 Hann eigrar um í leit að brauði: „Hvar er það?“
Hann veit að hans bíður dimmur dagur.
24 Þrenging og neyð skelfa hann,
bera hann ofurliði eins og konungur búinn til atlögu
25 því að hann reiddi hönd sína gegn Guði,
hreykti sér gegn Hinum almáttka,
26 hljóp hnakkakerrtur í móti honum
búinn sterkum, hvelfdum skildi
27 því að hann safnaði spiki á andlit sitt
og hlóð fitu á lendar sér.
28 Hann settist að í eyddum borgum,
í húsum þar sem enginn skyldi búa og átti að leggja í rúst.
29 Hann auðgast ekki, auður hans varðveitist ekki
og kornöx hans svigna ekki til jarðar.
30 Hann sleppur ekki úr myrkrinu.
Græðlingar hans skrælna í glóandi hita
og hann hverfur í vindinn.
31 Hann ætti ekki að reiða sig á hégóma, blekkja sjálfan sig,
því að laun hans verða fánýti.
32 Áður en tími hans kemur skrælnar hann
og greinar hans grænka ekki,
33 hann líkist vínviði sem missir grænjaxlana
og ólífutré sem varpar frá sér blómum sínum.
34 Ófrjór er hópur guðlausra
og eldur gleypir tjöld mútuþega,
35 þungaðir kvöl fæða þeir böl,
kviður þeirra elur af sér blekkingu.