1 Þá, segir Drottinn, verða bein Júdakonunga, bein hirðmanna þeirra, bein presta og spámanna og Jerúsalembúa sótt í grafir þeirra. 2 Þeim verður dreift móti sólinni, tunglinu og öllum her himinsins sem þeir elskuðu, þjónuðu og eltu, sem þeir leituðu úrskurðar hjá og tilbáðu. Þau verða hvorki tínd saman né grafin, þau skulu verða að áburði á akrinum. 3 Allir sem eftir verða af þessari vondu kynslóð munu kjósa dauðann fremur en lífið, allir sem eftir verða á þeim fjölmörgu stöðum sem ég hef hrakið þá til, segir Drottinn hersveitanna.
Synd og refsing
4Segðu því við þá:
Svo segir Drottinn:
Hvort falla menn og standa ekki upp aftur?
Snýr sá ekki við sem villist?
5Hvers vegna hefur þetta fólk snúið baki við mér
fyrir fullt og allt?
Hvers vegna heldur það fast við svikin
og neitar að hverfa aftur til mín?
6Ég lagði við hlustir og heyrði:
Þeir fara með lygi,
enginn iðrast illsku sinnar og spyr:
Hvað hef ég gert?
Allir æða áfram, hver sína leið
eins og hestur sem ryðst fram í orrustu.
7Jafnvel storkurinn í loftinu
þekkir sinn ákveðna tíma,
dúfan, svalan og tranan
snúa aftur á réttum tíma.
En þjóð mín þekkir ekki
hvers Drottinn krefst.
Rangtúlkuð lög
8Hvernig getið þér sagt: „Vér erum vitrir,
lögmál Drottins er hjá oss“?
Rétt er það. En lygapenni skrifaranna
hefur gert það að lygi.
9Hinir vitru hafa orðið sér til skammar,
þeir eru skelfingu lostnir og verða teknir til fanga.
Þeir hafa hafnað orði Drottins,
hvers virði er þeim þá eigin viska?
10Þess vegna gef ég öðrum konur þeirra,
akra þeirra fæ ég nýjum eigendum.
Því að bæði háir sem lágir sækjast eftir gróða af okri,
spámenn jafnt sem prestar,
allir hafa þeir svik í frammi.
11Þeir vilja lækna limlesta dóttur þjóðar minnar með hægu móti
með því að segja:
„Heill, heill,“ þar sem engin heill er.
12Þeir ættu að skammast sín
því að þeir hafa framið viðurstyggilegt athæfi.
En þeir skammast sín ekki
því að þeir þekkja enga blygðun.
Þess vegna munu þeir falla með þeim sem falla.
Þegar ég dreg þá til ábyrgðar
verður þeim steypt, segir Drottinn.
Uppskerubrestur
13Þegar ég ætlaði að taka til við uppskeru meðal þeirra,
segir Drottinn,
voru engin ber á vínviðnum,
engar fíkjur á fíkjutrénu
og laufið var fölnað.
Ég hef því framselt þá eyðendum sem tortíma þeim.
14Hvers vegna sitjum vér með hendur í skauti?
Safnist saman.
Höldum inn í víggirtu borgirnar,
þar munum vér farast.
Drottinn, Guð vor, lætur oss farast,
hann lætur oss drekka eitrað vatn
því að vér höfum syndgað gegn Drottni.
15Vér væntum friðar en ekkert gott kom,
lækningartíma en skelfing dundi yfir.
16Frá Dan heyrist frýsið í fákum hans,
allt landið nötrar af hneggi stríðalinna hesta hans.
Þeir koma og gleypa landið og allt sem í því er,
borgirnar og íbúa þeirra.
17Ég sendi yður höggorma
sem engar særingar hrína á,
þeir munu bíta yður, segir Drottinn,
og engin björg er til.
Harmljóð vegna þjóðarinnar
18Ég er yfirkominn af sorg,
hjarta mitt er þjakað.
19Hlustið. Kvein dótturinnar, þjóðar minnar,
heyrist um þvert og endilangt landið.
Er Drottinn ekki á Síon, er enginn konungur þar?
Hvers vegna vöktuð þér reiði mína
með skurðgoðum yðar, með framandi guðum?
20Kornuppskeran er liðin, ávaxtauppskeran á enda
en oss hefur ekki borist hjálp.
21Þar sem dóttirin, þjóð mín, er limlest
er ég niðurbrotinn,
ég syrgi, skelfingu lostinn.
22 Eru engin smyrsl til í Gíleað?
Er þar enginn læknir?
Hvers vegna hafa sár dótturinnar, þjóðar minnar, ekki gróið?
23 Ég vildi að höfuð mitt væri vatn,
augu mín táralind,
þá mundi ég gráta nótt og dag
yfir hinum föllnu af dótturinni, þjóð minni.