Júdamönnum refsað
1Synd Júdamanna er skráð með járnpenna,
grafin með demantsoddi
í töflur hjartna þeirra
og á altarishorn þeirra
2svo að synir þeirra muni ölturu þeirra og Asérustólpa
undir laufguðum trjám á hæðunum,
3í fjöllunum á hálendinu.
Ég framsel auð þinn og fjársjóði sem herfang,
sem endurgjald fyrir allar syndir þínar
sem þú hefur drýgt um allt land þitt.
4Þú verður að láta af hendi erfðaland þitt
sem ég gaf þér.
Ég geri þig að þræli fjandmanna þinna
í landi sem þú þekkir ekki
því að reiði mín hefur blossað upp,
hún brennur ævinlega.
Traust til Guðs, ekki manna
5Svo segir Drottinn:
Bölvaður er sá sem treystir mönnum
og reiðir sig á styrk dauðlegra
en hjarta hans víkur frá Drottni.
6Hann er eins og nakinn runni í eyðimörk
og verður ekki hins góða var sem fram hjá fer.
Hann verður að búa í sviðnu landi í eyðimörkinni,
á óbyggilegri saltsléttu.
7Blessaður er sá maður sem treystir Drottni,
Drottinn er athvarf hans.
8Hann er sem tré, gróðursett við vatn
og teygir rætur sínar að læknum,
það óttast ekki að sumarhitinn komi
því að lauf þess er sígrænt.
Það er áhyggjulaust í þurru árferði,
ber ávöxt án afláts.
Spakmæli
9Svikult er hjartað framar öllu öðru
og forhert. Hver skilur það?
10Ég, Drottinn, rannsaka hjartað og prófa nýrun,
geld hverjum manni eftir breytni hans
og ávöxtum verka hans.
11Sá er safnar rangfengnum auði
er eins og akurhæna
sem liggur á eggjum sem hún hefur ekki verpt.
Á miðri ævi tapar hann auðæfunum,
við ævilok telst hann heimskingi.
Bæn Jeremía
12Hásæti dýrðarinnar er upp hafið frá öndverðu.
Það er helgistaður vor.
13Drottinn, von Ísraels,
allir sem yfirgefa þig hljóta vansæmd,
þeir sem snúa frá þér verða skráðir í sand
því að þeir hafa yfirgefið Drottin,
lind hins lifandi vatns.
14Lækna mig, Drottinn, svo að ég verði heill,
hjálpa mér svo að ég bjargist
því að þú ert lofsöngur minn.
15Nú spyrja menn mig:
„Hvar er orð Drottins? Nú ætti það að rætast.“
16Ég hef hvorki þrábeðið þig um ógæfu
né óskað eftir óheilladeginum.
Þú veist sjálfur hvað varir mínar hafa sagt,
það liggur ljóst fyrir augliti þínu.
17Vertu ekki ógnvaldur minn,
þú sem ert athvarf mitt á óheilladeginum.
18Ofsækjendur mínir skulu smánaðir
en ég verð ekki smánaður,
þeir skulu skelfast
en ég skelfist ekki.
Sendu óheilladaginn yfir þá,
brjóttu þá niður,
brjóttu þá niður enn og aftur.
Hvíldardagsboð
19 Drottinn sagði við mig: Farðu og taktu þér stöðu í hliði, Þjóðhliðinu, sem Júdakonungar fara um þegar þeir koma heim eða fara í hernað, og í öllum borgarhliðum Jerúsalem. 20 Segðu við borgarbúa: „Hlýðið á orð Drottins, Júdakonungar, allir Júdamenn og allir Jerúsalembúar sem komið inn um þessi hlið. 21 Svo segir Drottinn: Gætið yðar, líf yðar liggur við. Berið enga byrði á hvíldardegi og flytjið ekkert inn um hlið Jerúsalem. 22 Berið engar byrðar úr húsum yðar á hvíldardegi og vinnið ekkert verk. Haldið hvíldardaginn heilagan eins og ég bauð feðrum yðar.“
23 En þeir gáfu engan gaum að því og lögðu ekki við hlustir heldur þverskölluðust og vildu hvorki hlýða né láta sér segjast.
24 En ef þér hlýðið á mig með athygli, segir Drottinn, og flytjið ekkert inn um hlið þessarar borgar á hvíldardegi, heldur haldið hann heilagan með því að vinna ekkert verk, 25 þá munu konungar, sem sitja í hásæti Davíðs, koma inn um hlið þessarar borgar. Þeir koma akandi í vögnum og ríðandi á hestum, þeir sjálfir og hirðmenn þeirra, Júdamenn og Jerúsalembúar. Þá verður þessi borg ævinlega í byggð. 26 Þá munu koma menn frá borgunum í Júda og úr umhverfi Jerúsalem, frá landi Benjamíns og af láglendinu, frá fjalllendinu og Suðurlandinu. Þeir munu hafa með sér brennifórn, sláturfórn, kornfórn og reykelsi og færa að þakkarfórn í húsi Drottins.
27 En ef þér hlýðið ekki á boð mitt að halda hvíldardaginn heilagan með því að bera engar byrðar um hlið Jerúsalem á hvíldardegi þá kveiki ég í hliðum Jerúsalem og eldurinn mun gleypa hallir Jerúsalem og ekki verða slökktur.