Ævi spámannsins, tákn fyrir þjóðina

1 Orð Drottins kom til mín: 2 Þú skalt ekki taka þér eiginkonu og hvorki eignast syni né dætur á þessum stað. 3 Því að svo segir Drottinn um syni og dætur sem fæðast hér og um mæðurnar sem ala þau og feðurna sem geta þau í þessu landi: 4 Þau munu deyja úr banvænum sjúkdómum og verða hvorki grátin né grafin. Þau munu verða áburður fyrir jarðveginn. Þau munu falla fyrir sverði og farast úr hungri og lík þeirra verða fuglum himinsins og dýrum merkurinnar að æti. 5 Svo segir Drottinn: Gakktu ekki inn í sorgarhús, taktu ekki þátt í sorgarathöfninni og sýndu enga samúð því að ég hef svipt þetta fólk friði mínum, segir Drottinn, kærleika og miskunnsemi. 6 Bæði stórir og smáir munu deyja í þessu landi. Þeir verða hvorki grafnir né grátnir. Enginn mun rista á sig skinnsprettur né raka höfuð sitt þeirra vegna. 7 Brauð verður ekki brotið fyrir neinn syrgjanda honum til huggunar eftir látinn mann og honum verður ekki réttur huggunarbikar að drekka af eftir móður eða föður. 8 Þú mátt ekki heldur ganga inn í hús, þar sem veisla er haldin, til að setjast með fólkinu og eta og drekka. 9 Því að Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels, segir: Ég mun þagga niður öll gleðihróp og fagnaðaróp, raddir brúðguma og brúðar, hér á þessum stað, fyrir augum yðar og á yðar dögum.
10 Þegar þú kunngjörir þjóðinni allt þetta mun hún spyrja þig: „Hvers vegna hefur Drottinn hótað oss allri þessari ógæfu? Hver er sekt vor og hvaða synd höfum vér drýgt gegn Drottni, Guði vorum?“ 11 Þá skaltu svara: „Af því að feður yðar yfirgáfu mig, segir Drottinn. Þeir eltu aðra guði, þjónuðu þeim og sýndu þeim lotningu, þeir yfirgáfu mig og héldu ekki lög mín.“ 12 Sjálfir hafið þér breytt enn verr en feður yðar. Sérhver yðar hefur fylgt þrjósku síns illa hjarta í stað þess að hlusta á mig. 13 Þess vegna fleygi ég yður úr þessu landi til lands sem hvorki þér né feður yðar hafið þekkt. Þar munuð þér þjóna öðrum guðum, bæði dag og nótt, af því að ég sýni yður enga miskunn.

Heimför úr útlegð

14 Þeir dagar munu því koma, segir Drottinn, að ekki verður lengur sagt: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir sem leiddi Ísraelsmenn frá Egyptalandi,“ 15 heldur verður sagt: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir sem leiddi Ísraelsmenn frá landinu í norðri og öllum öðrum löndum sem hann hafði hrakið þá til.“ Ég flyt þá aftur til heimalands síns sem ég gaf feðrum þeirra.

Syndagjöld

16 Ég sendi menn eftir mörgum fiskimönnum, segir Drottinn, þeir eiga að veiða þá. Því næst sendi ég eftir mörgum veiðimönnum. Þeir eiga að veiða þá á hverju fjalli og á hverri hæð og í klettaskorunum. 17 Þar sem augu mín fylgjast með öllum ferðum þeirra geta þeir ekki falið sig fyrir mér og sekt þeirra verður ekki dulin fyrir augum mínum. 18 Fyrst mun ég gjalda þeim tvöfalt fyrir sekt þeirra og synd því að þeir hafa vanhelgað land mitt með hræjum fórnardýra sinna viðurstyggilegu guða og fyllt erfðahlut minn með andstyggilegum skurðgoðum sínum.

Framandi þjóðir snúa til Drottins

19Drottinn, styrkur minn og vígi,
athvarf mitt á degi neyðarinnar.
Til þín koma þjóðirnar
frá endimörkum jarðar og segja:
„Arfur feðra vorra var tál,
guðir þeirra vindur sem engum hjálpar.“
20Getur maðurinn gert sér guði?
Það væru engir guðir.
21Nú mun ég birta þeim
afl mitt og mátt
og þeir skulu játa að nafn mitt er Drottinn.