Þurrkurinn mikli
1Orð Drottins, sem kom til Jeremía, um þurrkinn mikla.
2Júda skrælnar af þurrki,
borgir hennar hrörna,
íbúarnir syrgja, beygðir til jarðar,
harmakvein stígur upp frá Jerúsalem.
3Höfðingjarnir senda þjóna sína eftir vatni.
Þegar þeir koma að brunnunum
finna þeir ekkert vatn.
Þeir snúa heim með tómar krukkur,
vonsviknir og skömmustulegir og hylja höfuð sín.
4Jarðvegurinn er sprunginn
því að ekkert hefur rignt í landinu.
Bændurnir eru því vonsviknir, þeir hylja höfuð sitt.
5Jafnvel hindin í haganum
yfirgefur nýborinn kálf
því að hvergi sést stingandi strá.
6Villiasnarnir standa á nöktum hæðum,
þeir grípa andann á lofti eins og sjakalar,
augu þeirra daprast
því að hvergi er beit að hafa.
7Þó að syndir vorar vitni gegn oss,
láttu samt til þín taka vegna nafns þíns, Drottinn.
Svik vor eru margvísleg,
vér höfum syndgað gegn þér.
8Þú, von Ísraels,
frelsari hans á neyðartímum.
Hvers vegna ertu eins og aðkomumaður í landinu,
eins og ferðamaður sem tjaldar til einnar nætur?
9Hvers vegna ertu eins og ruglaður maður,
eins og hermaður sem ekki getur sigrað?
Þú ert þó sjálfur á meðal vor,
Drottinn, vér erum kenndir við þig, [
yfirgef oss ekki.
10 Svo segir Drottinn um þessa þjóð: Þeir hafa gaman af að eigra um stefnulaust, þeir hvíla ekki fæturna. En Drottinn gleðst ekki yfir þeim, nú minnist hann sektar þeirra og dregur þá til ábyrgðar fyrir synd þeirra.
11 Drottinn sagði enn fremur við mig: Ekki biðja um að þessu fólki farnist vel. 12 Þegar þeir fasta hlusta ég ekki á kvein þeirra. Þegar þeir færa brennifórn eða kornfórn gleðst ég ekki yfir þeim. Ég mun gereyða þeim með sverði, hungri og drepsótt.
13 Þá sagði ég: Æ, herra Drottinn! Spámennirnir segja við þá: Þér munuð ekki sjá sverð og ekkert hungur steðjar að því að ég mun veita yður varanlega heill á þessum stað.
14 En Drottinn svaraði mér: Spámennirnir boða lygi í mínu nafni. Ég hef hvorki sent þá, gefið þeim fyrirmæli né talað til þeirra. Upplognar sýnir, fánýtar spásagnir og eigin uppspuna boða þeir yður. 15 Þess vegna mælir Drottinn svo gegn spámönnunum sem flytja boð í mínu nafni án þess að ég hafi sent þá og segja að hvorki sverð né hungur muni ganga yfir þetta land: Þessir spámenn munu falla fyrir sverði og deyja úr hungri. 16 En mönnunum, sem þeir fluttu þessi boð, verður fleygt á göturnar í Jerúsalem. Þeir munu falla úr hungri og fyrir sverði. Enginn mun grafa þá, hvorki þá sjálfa né konur þeirra, syni þeirra né dætur. Þannig mun ég úthella yfir þá þeirri ógæfu sem þeir verðskulda.
17Tala þessi orð til þeirra:
Augu mín flóa í tárum
dag og nótt, án afláts,
því að mærin, dóttir þjóðar minnar,
er beinbrotin og limlest,
særð banvænu sári.
18Gangi ég út á víðan vang
sjást þar menn sem reknir hafa verið í gegn með sverði.
Gangi ég inn í borgina
sjást þar menn máttvana af hungri.
Jafnvel spámaður og prestur
hrekjast til lands sem þeir þekkja ekki.
19Hefur þú hafnað Júda algjörlega?
Hefur þú fengið andstyggð á Síon?
Hvers vegna hefur þú sært oss sári
sem ekki verður grætt?
Vér væntum farsældar en ekkert gott kom,
tíma endurreisnar en lítið á: aðeins skelfing!
20Drottinn, vér játum afbrot vor,
sekt feðra vorra,
vér höfum syndgað gegn þér.
21Afneitaðu ekki, smánaðu ekki hásæti dýrðar þinnar
vegna nafns þíns.
Minnstu sáttmálans við oss,
rjúfðu hann ekki.
22 Geta fánýt goð framandi þjóða gefið regn?
Eða sendir himinninn regnskúrir að eigin frumkvæði?
Ert það ekki þú, Drottinn, Guð vor?
Vér vonum á þig
því að þú hefur gert þetta allt.