Línbeltið
1 Drottinn sagði við mig: Farðu og kauptu þér línbelti, hnýttu það um lendar þér en láttu það ekki koma í vatn.
2 Ég keypti þá beltið samkvæmt boði Drottins og hnýtti það um lendar mér.
3 Þá kom orð Drottins aftur til mín: 4 Taktu beltið sem þú keyptir og þú hefur um lendar þér, haltu af stað austur að Efrat. Þar skaltu fela það í klettaskoru.
5 Ég fór þá og faldi það við Efrat eins og Drottinn hafði skipað mér.
6 Löngu síðar bar svo við að Drottinn sagði við mig: Haltu af stað austur að Efrat og sæktu beltið sem ég skipaði þér að fela þar.
7 Ég fór þá austur að Efrat, leitaði að beltinu og tók það þar sem ég hafði falið það. En þá kom í ljós að beltið var ónothæft með öllu.
8 Þá kom orð Drottins til mín: 9 Svo segir Drottinn: Þannig mun ég eyða stolti Júda og stolti Jerúsalem þó að mikið sé. 10 Þessi illa þjóð neitar að hlýða á boð mín. Þeir fylgja þrjósku eigin hjarta og elta framandi guði, þjóna þeim og dýrka. Því fer fyrir þeim eins og þessu belti sem er með öllu ónothæft. 11 Eins og beltið lagar sig að lendum mannsins hafði ég lagað alla Ísraelsmenn og Júdamenn að mér, segir Drottinn. Þeir áttu að vera minn lýður, mér til frægðar, lofstírs og prýði en þeir hlýddu ekki.
Vínkerin
12 Segðu við þá: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: „Hvert vínker verður fyllt víni.“ Ef þeir þá svara þér: „Vitum vér ekki sjálfir að öll vínker eru fyllt víni?“ 13 skaltu segja við þá: Svo segir Drottinn: Ég fylli alla íbúa þessa lands svo að þeir verði drukknir, konungana, sem sitja í hásæti Davíðs, prestana, spámennina og alla Jerúsalembúa. 14 Ég mun mola þá sundur hvern með öðrum, feður með sonum, segir Drottinn. Hvorki samúð, vorkunn né miskunn getur varnað því að ég eyði þeim.
Afleiðing hrokans
15Hlustið, takið eftir, hreykið yður ekki
því að Drottinn talar.
16Gefið Drottni, Guði yðar, dýrðina
áður en dimmir,
áður en yður skrikar fótur
á rökkvuðum fjöllum.
Þér væntið ljóss,
hann breytir því í myrkur,
gerir það að niðdimmu.
17En ef þér viljið ekki hlusta
hlýt ég að gráta í leynum yfir hrokanum.
Tárin streyma af hvörmum mínum
af því að hjörð Drottins verður flutt í útlegð.
18Segðu við konunginn og konungsmóðurina:
Setjist í neðstu sætin
því að kórónan glæsta
er fallin af höfðum ykkar.
19Borgirnar í Suðurlandinu eru lokaðar
og enginn opnar þær.
Allir Júdamenn verða fluttir í útlegð,
allir með tölu.
20Hef upp augu þín,
sjáðu þá sem koma úr norðri.
Hvar er hjörðin sem þér var falin,
hinir vænu sauðir þínir?
21Hvað ætlarðu að segja
þegar vinir þínir, sem þú hefur laðað að þér,
verða settir til að ríkja yfir þér?
Færðu þá ekki hríðir eins og kona í barnsnauð?
22 Ef þú hugsar með sjálfri þér:
Hvers vegna hefur allt þetta dunið á mér?
skaltu vita að vegna mikillar syndar þinnar
hefur pilsfaldi þínum verið lyft
og þér nauðgað.
23 Getur Núbíumaður breytt hörundslit sínum
eða pardusdýr blettum sínum?
Þá getið þér líka gert gott
sem hafið vanist að gera illt.
24 Ég mun því dreifa yður eins og stráum
sem fjúka undan eyðimerkurvindinum.
25 Það er hlutskipti þitt,
launin sem ég hef skammtað þér, segir Drottinn,
af því að þú gleymdir mér
en treystir lygum.
26 Nú lyfti ég einnig pilsfaldi þínum yfir höfuð þér
svo að blygðun þín verði sýnileg.
27 hjúskaparbrot þín, lostavein
og blygðunarlaus hórdómur.
Ég hef séð andstyggilega hegðun þína
á hæðunum og á sléttunum.
Vei þér, Jerúsalem, ef þú hreinsar þig ekki.
Hve lengi enn mun þetta vara?