Hræsni og viðbrögð Drottins við henni
1Komið, hverfum aftur til Drottins
því að hann reif sundur en mun lækna oss,
hann særði en mun gera að sárunum.
2Hann lífgar oss eftir tvo daga,
á þriðja degi reisir hann oss upp,
til þess að vér lifum fyrir augliti hans.
3Vér skulum leita þekkingar,
sækjast eftir að þekkja Drottin.
Hann kemur jafn áreiðanlega og morgunroði,
eins og vorskúr sem vökvar jarðveginn.
4Hvað á ég að gera við þig, Efraím,
hvernig að fara með þig, Júda?
Tryggð þeirra er eins og morgunþoka,
eins og dögg sem hverfur skjótt.
5Þess vegna hegg ég þá með spámönnum,
veg þá með orðum munns míns
og réttur minn mun ljóma sem birta.
6Miskunnsemi þóknast mér en ekki sláturfórn
og guðsþekking fremur en brennifórn.
7Þeir rufu sáttmála í Adam, [
þar brugðust þeir mér.
8Gíleað er borg illvirkja,
flekkuð blóði.
9Eins og ræningjahópur í leynum
er flokkur presta.
Þeir myrða á veginum til Síkem,
þeir hafa framið svívirðu.
10Ég hef séð skelfingar í Ísrael,
þar hórast Efraím,
Ísrael hefur saurgað sig
11og þér, Júda,
er einnig ætlaður uppskerutími
þegar ég sný við högum þjóðar minnar.