Páll og postularnir í Jerúsalem
1 Fjórtán árum síðar fór ég aftur upp til Jerúsalem ásamt Barnabasi og tók líka Títus með mér. 2 Ég fór þangað eftir opinberun og útskýrði einslega fyrir þeim sem í áliti voru fagnaðarerindið sem ég boða heiðingjum. Það mátti ekki henda að starf mitt væri og hefði verið til einskis. 3 Ekki einu sinni Títus, sem með mér var og var grískur maður, var neyddur til að láta umskerast. 4 Það vildu aðeins falsbræður er illu heilli hafði verið hleypt inn og laumast höfðu inn til að njósna um frelsi okkar sem við höfum í Kristi Jesú. Þeir vildu hneppa okkur í þrældóm. 5 En undan þeim létum við ekki eitt andartak til þess að þið gætuð haft fagnaðarerindið óbrenglað. 6 Og þeir sem í áliti voru lögðu ekkert frekara fyrir mig. Hvað þeir einu sinni voru skiptir mig engu, Guð fer ekki í manngreinarálit. 7 Þvert á móti sáu þeir að mér var trúað fyrir fagnaðarerindinu til óumskorinna manna eins og Pétri til umskorinna 8 því að sá sem hefur eflt Pétur til postuladóms meðal hinna umskornu hefur einnig eflt mig til postuladóms meðal hinna óumskornu. 9 Og er Jakob, Kefas og Jóhannes, sem álitnir voru máttarstólparnir, höfðu komist að raun um hvílík náð mér var veitt, þá réttu þeir mér og Barnabasi hönd sína til samkomulags: Við skyldum fara til hinna óumskornu en þeir til hinna umskornu. 10 Það eitt var til skilið að við skyldum minnast hinna fátæku og einmitt þetta hef ég líka[ kappkostað að gera.
Réttlæting af trú
11 En þegar Kefas kom til Antíokkíu andmælti ég honum upp í opið geðið því hann var sannur að sök. 12 Áður en menn nokkrir komu frá Jakobi hafði hann setið að borði með heiðingjum en er þeir komu dró hann sig í hlé og tók sig út úr af ótta við þá sem héldu fram umskurninni. 13 Hinir Gyðingarnir tóku einnig að hræsna með honum svo að jafnvel Barnabas lét dragast með af hræsni þeirra. 14 En þegar ég sá að þeir gengu ekki beint eftir sannleika fagnaðarerindisins sagði ég við Kefas í allra áheyrn: „Úr því að þú, sem ert Gyðingur, lifir að heiðingja siðum en eigi Gyðinga, hvernig getur þú þá neytt þá sem ekki eru Gyðingar til að lifa eins og Gyðingar?“
15 Við erum fæddir Gyðingar, ekki heiðnir syndarar að uppruna. 16 En við vitum að maðurinn réttlætist ekki af lögmálsverkum heldur fyrir trú á Jesú Krist. Og við tókum trú á Krist Jesú til þess að við réttlættumst af trú á Krist en ekki af lögmálsverkum. Enda réttlætist enginn lifandi maður af lögmálsverkum. 17 En ef við nú sjálfir reynumst syndarar, þegar við leitumst við að réttlætast í Kristi, er þá Kristur farinn að þjóna syndinni? Fjarri fer því. 18 Fari ég að byggja upp aftur það sem ég braut niður, þá geri ég sjálfan mig beran að afbroti. 19 Því að lögmálið leiddi mig til dauða svo að nú er ég ekki lengur undir valdi þess heldur lifi Guði. Ég er krossfestur með Kristi. 20 Sjálfur lifi ég ekki framar heldur lifir Kristur í mér. Lífinu, sem ég lifi nú hér á jörð, lifi ég í trúnni á Guðs son sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig. 21 Ég ónýti ekki náð Guðs. Ef réttlæting fæst fyrir lögmál þá hefur Kristur dáið til einskis.