Börn Guðs
1 Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt okkur, að við skulum kallast Guðs börn. Og það erum við. Heimurinn þekkir okkur ekki vegna þess að hann þekkti hann ekki. 2 Þið elskuðu, nú þegar erum við Guðs börn og það er enn þá ekki orðið bert hvað við munum verða. Við vitum að þegar hann birtist, þá verðum við honum lík því að við munum sjá hann eins og hann er. 3 Hver sem hefur þessa von til hans hreinsar sjálfan sig eins og Kristur er hreinn.
4 Hver sem drýgir synd fremur lögmálsbrot. Syndin er lögmálsbrot. 5 Þið vitið að Kristur birtist til þess að taka burt syndir.[ Í honum er engin synd. 6 Hver sem er stöðugur í honum syndgar ekki, hver sem heldur áfram að syndga hefur ekki séð hann og þekkir hann ekki heldur.
7 Börnin mín, látið engan villa ykkur. Sá sem iðkar réttlætið er réttlátur eins og Kristur er réttlátur. 8 Hver sem syndgar heyrir djöflinum til því að djöfullinn hefur syndgað frá upphafi. Til þess birtist Guðs sonur að hann skyldi brjóta niður verk djöfulsins. 9 Hver sem af Guði er fæddur syndgar ekki því að það sem Guð hefur í hann sáð varir í honum. Hann getur ekki syndgað af því að hann er fæddur af Guði. 10 Af þessu má greina að börn Guðs og börn djöfulsins. Sá sem iðkar ekki réttlæti og elskar ekki bróður sinn heyrir ekki Guði til.
Elskum hvert annað
11 Því að þetta er sá boðskapur sem þið hafið heyrt frá upphafi: Við eigum að elska hvert annað. 12 Ekki vera eins og Kain sem var af hinum vonda og myrti bróður sinn. Og af hverju myrti hann hann? Af því að verk hans voru vond en verk bróður hans góð.
13 Undrist ekki, systkin, þótt heimurinn hati ykkur. 14 Við vitum að við erum komin yfir frá dauðanum til lífsins af því að við elskum bræður okkar og systur.[ Sá sem ekki elskar er áfram í dauðanum. 15 Hver sem hatar bróður sinn eða systur[ er manndrápari og þið vitið að enginn manndrápari hefur eilíft líf í sér. 16 Af því þekkjum við kærleikann að Jesús lét lífið fyrir okkur. Svo eigum við og að láta lífið hvert fyrir annað. 17 Ef sá sem hefur heimsins gæði horfir á bróður sinn eða systur[ vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir þeim, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum? 18 Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.
19 Af þessu munum við þekkja að við erum sannleikans megin og munum geta friðað hjörtu okkar frammi fyrir honum, 20 hvað sem hjarta okkar kann að dæma okkur fyrir. Því að Guð er meiri en hjarta okkar og þekkir allt. 21 Þið elskuðu, ef hjartað dæmir okkur ekki, þá höfum við djörfung til Guðs. 22 Og hvað sem við biðjum um fáum við hjá honum af því að við höldum boðorð hans og gerum það sem honum er þóknanlegt. 23 Og þetta er hans boðorð, að við skulum trúa á nafn sonar hans Jesú Krists og elska hvert annað, samkvæmt því sem hann hefur gefið okkur boðorð um. 24 Sá sem heldur boðorð Guðs er stöðugur í Guði og Guð í honum. Að hann er stöðugur í okkur þekkjum við af andanum sem hann hefur gefið okkur.