Davíð berst við Amalekíta
1 Þegar Davíð og menn hans komu til Siklag á þriðja degi höfðu Amalekítar farið í ránsferð inn í Negeb og til Siklag. Þeir höfðu tekið borgina og brennt hana. 2 Konurnar höfðu þeir tekið til fanga og aðra sem þar voru, bæði unga og gamla, en engan drepið. Þeir höfðu alla með sér þaðan og fóru leiðar sinnar. 3 Þegar Davíð og menn hans komu til borgarinnar sáu þeir að borgin var brunnin og að konum þeirra, sonum og dætrum hafði verið rænt. 4 Þá tók Davíð og herinn, sem með honum var, að gráta hástöfum. Þeir grétu þangað til þeir megnuðu ekki að gráta lengur. 5 Báðum konum Davíðs, Akínóam frá Jesreel og Abígail, sem verið hafði kona Nabals frá Karmel, hafði verið rænt.
6 Davíð átti nú í vök að verjast. Liðsmenn hans vildu grýta hann, svo bitrir voru þeir vegna sona sinna og dætra. En Davíð leitaði styrks hjá Drottni, Guði sínum, 7 og sagði við Abjatar prest, son Ahímeleks: „Færðu mér hökulinn.“ Abjatar færði Davíð þá hökulinn. 8 Davíð leitaði síðan svara hjá Drottni og spurði: „Á ég að elta þennan ræningjaflokk? Mun ég ná honum?“ Drottinn svaraði: „Eltu þá. Þú nærð þeim örugglega og frelsar þá sem teknir voru til fanga.“
9 Davíð hélt þá af stað ásamt þeim sex hundruð mönnum sem fylgdu honum. Þegar þeir komu að Besórlæk námu þeir staðar sem áttu að bíða þar. 10 Davíð hélt eftirförinni áfram með fjögur hundruð manns. En tvö hundruð menn, sem höfðu ekki þrek til að fara yfir Besórlæk, urðu eftir.
11 Úti á sléttunni fundu þeir egypskan mann og fóru með hann til Davíðs. Þeir gáfu honum brauð að eta og vatn að drekka, 12 einnig fíkjuköku og tvær rúsínukökur. Þegar hann hafði matast hresstist hann en hann hafði hvorki fengið vott né þurrt í þrjá sólarhringa. 13 Nú spurði Davíð hann: „Hver er húsbóndi þinn og hvaðan kemur þú?“ Hann svaraði: „Ég er Egypti, þræll Amalekíta nokkurs. Húsbóndi minn skildi mig hér eftir af því að ég veiktist fyrir þremur dögum. 14 Við höfum farið í ránsför inn í suðurhéruðin, sem eru eign Kreta og Júda, einnig inn í suðurhéruð Kalebs. Og við brenndum Siklag.“ 15 Þá spurði Davíð: „Geturðu vísað okkur á þennan ræningjaflokk?“ Hann svaraði: „Sverðu við Guð að þú munir ekki drepa mig og ekki selja mig í hendur húsbónda mínum. Ef þú gerir það skal ég vísa þér á ræningjaflokkinn.“
16 Þegar hann hafði vísað þeim þangað sáu þeir að ræningjarnir voru dreifðir um allar jarðir, átu og drukku og gerðu sér glaðan dag vegna hins mikla ránsfengs sem þeir höfðu tekið í landi Filistea og Júda. 17 Daginn eftir hjó Davíð þá niður frá því að gránaði af degi og til kvölds. Enginn þeirra komst undan nema fjögur hundruð ungir menn sem komust á bak úlföldum sínum og flýðu.
18 Davíð frelsaði alla sem Amalekítarnir höfðu rænt. Hann bjargaði einnig báðum konum sínum. 19 Allt náðist aftur, smátt og stórt, synir og dætur, herfangið allt eins og það lagði sig. Og Davíð flutti allt heim aftur. 20 Hann tók einnig með sér allt sauðfé þeirra og nautgripi og menn hans ráku hjarðirnar á undan eigin hjörðum og sögðu: „Þetta er herfang Davíðs.“
21 Þegar Davíð kom aftur til þeirra tvö hundruð manna, sem höfðu verið of máttfarnir til að fylgja honum og voru skildir eftir við Besórlæk, gengu þeir á móti Davíð og flokknum sem með honum var. Þegar Davíð og menn hans voru komnir til þeirra heilsaði hann þeim. 22 En allir ódrengir og illmenni, sem voru í hópi þeirra sem fylgt höfðu Davíð, sögðu: „Af því að þeir fóru ekki með okkur látum við þá ekki fá neitt af herfanginu sem við höfum tekið. Samt má hver þeirra fá konu sína og börn og fara sína leið.“ 23 En Davíð sagði: „Bræður mínir, svona megið þið ekki fara með það sem Drottinn hefur gefið okkur. Hann hefur verndað okkur og selt ræningjaflokkinn, sem réðst á okkur, okkur í hendur. 24 Hvernig getur nokkur maður hlustað á það sem þið segið um þetta mál? Nei, hlutur þess sem fór til orrustunnar skal vera jafn hlut þess sem gætti farangursins. Herfanginu skal skipta jafnt.“ 25 Þannig hefur þetta verið upp frá þessu því að Davíð gerði þetta að reglu og lagaákvæði í Ísrael og það hefur haldist allt til þessa dags.
26 Þegar Davíð kom heim til Siklag sendi hann hluta af herfanginu til öldunganna í Júda, sem voru vinir hans, og lét skila til þeirra: „Þetta er gjöf til ykkar, hluti af herfangi sem ég hef tekið af fjandmönnum Drottins.“ 27 Hann sendi þessar gjafir til öldunganna í Betel, Ramat Negeb, Jattír 28 og einnig til öldunganna í Aróer, Sífmót, Estmóa, 29 Rakal, í borgum Jerahmeelíta og borgum Keníta, 30 öldunganna í Horma, Bor Asan, Aþak 31 og Hebron og enn fremur til allra þeirra staða sem Davíð og menn hans höfðu komið til á ferðum sínum.