Guð kallar á Samúel
1 Sveinninn Samúel gegndi nú þjónustu við Drottin undir handleiðslu Elí. Á þessum tíma var orð Drottins sjaldgæft og sýnir fátíðar.
2 Einhverju sinni bar svo við að Elí lá og svaf þar sem hann var vanur. Hann var hættur að sjá því að augu hans höfðu daprast. 3 Lampi Guðs hafði enn ekki slokknað og Samúel svaf í musteri Drottins þar sem örk Guðs stóð.
4 Þá kallaði Drottinn til Samúels og hann svaraði: „Já, hér er ég.“ 5 Hann hljóp síðan til Elí og sagði: „Hér er ég, þú kallaðir á mig.“ En hann svaraði: „Ég kallaði ekki, farðu aftur að sofa,“ og Samúel fór að sofa. 6 Drottinn kallaði þá aftur: „Samúel!“ og Samúel reis upp, gekk til Elí og sagði: „Hér er ég, þú kallaðir á mig.“ En hann svaraði: „Ég kallaði ekki, sonur minn, farðu aftur að sofa.“
7 En Samúel þekkti Drottin ekki enn þá og orð Drottins hafði ekki enn opinberast honum. 8 Þá kallaði Drottinn til Samúels í þriðja sinn og hann reis upp, gekk til Elí og sagði: „Hér er ég, þú kallaðir á mig.“ Nú skildi Elí að það var Drottinn sem var að kalla til drengsins. 9 Elí sagði því við Samúel: „Farðu að sofa. En kalli hann aftur til þín skaltu svara: Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir.“ Samúel fór og lagðist fyrir á sínum stað.
10 Þá kom Drottinn, nam staðar andspænis honum og hrópaði eins og í fyrri skiptin: „Samúel, Samúel!“ Samúel svaraði: „Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir.“
11 Þá sagði Drottinn við Samúel: „Nú ætla ég að vinna verk í Ísrael sem mun óma fyrir eyrum allra þeirra sem um það heyra. 12 Á þeim degi mun ég láta rætast á Elí allt sem ég hef ógnað ætt hans með frá upphafi til enda. 13 Ég hef boðað honum að dómur minn yfir ætt hans muni ævinlega standa vegna þess að hann vissi að synir hans lastmæltu Guði og hann kom ekki í veg fyrir það. 14 Þess vegna hef ég svarið ætt Elí að aldrei verði bætt fyrir synd hennar, hvorki með sláturfórn né kornfórn.“
15 Samúel lá nú kyrr til morguns. Þá opnaði hann dyrnar á húsi Drottins en þorði ekki að segja Elí frá sýninni. 16 Þá kallaði Elí á Samúel og sagði: „Samúel, sonur minn.“ Hann svaraði: „Já, hér er ég.“ 17 En Elí spurði: „Hvað var það sem hann sagði við þig? Leyndu mig því ekki. Drottinn láti þig gjalda þess ef þú leynir mig nokkru af því sem hann sagði við þig.“ 18 Samúel sagði honum þá allt án þess að draga nokkuð undan. En Elí sagði: „Hann er Drottinn. Hann gerir það sem honum þóknast.“
19 Samúel óx og Drottinn var með honum og lét ekkert af því sem hann hafði boðað falla til jarðar. 20 Allur Ísrael, frá Dan til Beerseba, viðurkenndi að Samúel væri trúað fyrir því að vera spámaður Drottins. 21 Drottinn hélt áfram að birtast í Síló og hann opinberaðist Samúel í Síló með orði sínu.