1 Í Ramataím í Efraímsfjöllum bjó maður af Súfætt. Hann hét Elkana og var sonur Jeróhams Elíhúsonar, Tóhúsonar, Súfssonar frá Efraím. 2 Hann átti tvær eiginkonur, hét önnur Hanna en hin Peninna. Peninna átti börn en Hanna ekki.
3 Elkana fór á hverju ári frá borginni, þar sem hann bjó, upp til Síló til að biðjast þar fyrir og færa Drottni hersveitanna sláturfórn. Þar voru báðir synir Elí, Hofní og Pínehas, prestar Drottins. 4 Jafnan þegar Elkana færði sláturfórn gaf hann Peninnu, konu sinni, sonum hennar og dætrum sinn hlut hverju af kjötinu. 5 Hönnu gaf hann tvöfaldan hlut því að hann elskaði hana þó að Drottinn hefði lokað móðurlífi hennar. 6 Hin konan olli Hönnu sárri gremju og skapraunaði henni af því að Drottinn hafði lokað móðurlífi hennar. 7 Þessu fór fram ár eftir ár. Í hvert skipti, sem Hanna fór upp til húss Drottins, skapraunaði Peninna henni svo að hún fór að gráta og vildi ekki borða. 8 Elkana, maður hennar, sagði þá við hana: „Hanna, hvers vegna grætur þú og borðar ekki? Hvers vegna ertu svona döpur? Er ég þér ekki meira virði en tíu synir?“
Hanna og Elí
9 Að lokinni máltíð í Síló stóð Hanna á fætur og gekk fram fyrir auglit Drottins. Elí prestur sat á stól sínum við dyrastafinn á musteri Drottins. 10 Full örvæntingar bað hún til Drottins, 11 grét sáran og vann svohljóðandi heit: „Drottinn hersveitanna, ef þú lítur á neyð ambáttar þinnar og minnist mín og ef þú gleymir ekki ambátt þinni og gefur mér son, þá skal ég gefa hann Drottni alla ævi hans og rakhnífur skal ekki snerta höfuð hans.“[
12 Hún bað lengi frammi fyrir Drottni og á meðan fylgdist Elí með munni hennar 13 en Hanna baðst fyrir í hljóði. Af því að varir hennar bærðust án þess að rödd hennar heyrðist hélt Elí að hún væri drukkin 14 og sagði við hana: „Hversu lengi ætlar þú að láta sjá þig drukkna? Láttu renna af þér.“ 15 Hanna svaraði: „Nei, herra. Ég er aðeins örvingluð kona og hef hvorki bragðað vín né áfengt öl. Ég hef aðeins létt á hjarta mínu fyrir Drottni. 16 Líttu ekki á ambátt þína sem úrhrak. Ég hef talað svona lengi af sorg og örvæntingu.“ 17 Elí svaraði og sagði: „Farðu í friði. Guð Ísraels mun veita þér það sem þú baðst hann um.“ 18 Hún sagði: „Megi ambátt þín finna náð fyrir augum þínum.“ Gekk hún síðan leiðar sinnar, byrjaði aftur að borða og var ekki lengur döpur í bragði.
19 Morguninn eftir fóru þau snemma á fætur, báðu til Drottins og sneru síðan aftur heim til Rama. Elkana kenndi Hönnu, konu sinnar, og Drottinn minntist hennar 20 og varð hún þunguð. Í lok ársins fæddi hún son og nefndi hann Samúel, „af því að ég hef beðið Drottin um hann“.
Samúel færður Guði
21 Elkana fór nú ásamt allri fjölskyldu sinni upp til Síló til þess að færa Drottni hina árlegu sláturfórn og heitfórn. 22 En Hanna fór ekki heldur sagði hún við mann sinn: „Ég verð hér þar til drengurinn hefur verið vaninn af brjósti. Þá fer ég með hann til að sýna hann fyrir augliti Drottins. Upp frá því skal hann ævinlega vera þar.“ 23 „Gerðu það sem þér þykir rétt,“ svaraði Elkana, maður hennar. „Vertu um kyrrt heima þar til þú hefur vanið hann af brjósti. Megi Drottinn láta heit þitt rætast.“
Konan var síðan um kyrrt heima og hafði soninn á brjósti þar til hún vandi hann af. 24 Þegar hún hafði vanið hann af brjósti fór hún með hann með sér upp eftir. Hún hafði einnig með sér þriggja vetra naut, eina efu mjöls og vínbelg. Hún fór með drenginn í hús Drottins í Síló en hann var enn mjög ungur.
25 Þau færðu nautið í sláturfórn og fóru síðan með drenginn til Elí 26 og Hanna sagði: „Hlýddu á mál mitt, herra. Svo sannarlega sem þú lifir, herra, er ég konan sem stóð hér hjá þér og bað til Drottins. 27 Ég bað um þennan dreng og Drottinn heyrði bæn mína og gaf mér það sem ég bað um. 28 Nú gef ég hann Drottni. Drottinn hefur beðið um hann. Alla ævi sína skal hann heyra Drottni til.“ Síðan báðu þau til Drottins.