Sáttmálsörkin flutt frá Kirjat Jearím
1 Þegar Davíð hafði ráðgast við foringja þúsund og hundrað manna liðssveita, við alla leiðtogana, 2 ávarpaði hann allan söfnuð Ísraels svofelldum orðum: „Ef það er ykkur að skapi og ef það er vilji Drottins, Guðs okkar, skulum við senda boðbera til bræðra okkar, sem eru um kyrrt í öllum héruðum Ísraels, ásamt prestunum og Levítunum, sem búa í borgum sínum og beitilöndunum umhverfis, til að stefna þeim saman hingað til okkar. 3 Því næst skulum við flytja örk Guðs okkar hingað en við létum okkur hana engu varða í stjórnartíð Sáls.“
4 Allur söfnuðurinn féllst á að þetta yrði gert því að tillagan var góð að mati alls fólksins. 5 Davíð safnaði nú saman öllum Ísrael frá Síhor í Egyptalandi til Lebó Hamat til þess að sækja örkina til Kirjat Jearím. 6 Davíð fór upp til Baala, það er að segja til Kirjat Jearím, sem er í Júda, ásamt öllum Ísrael til þess að sækja þangað örk Guðs sem ber nafn Drottins herskaranna sem situr í hásæti yfir kerúbunum.[ 7 Þeir sóttu örk Guðs á nýjum vagni úr húsi Abínadabs. Ússa og Ahjó stjórnuðu vagninum 8 en Davíð og allur Ísrael dönsuðu með miklum tilþrifum frammi fyrir augliti Guðs, sungu og léku á sítara, hörpur, pákur, bjöllur og lúðra.
9 Þegar þeir komu á þreskivöll Kídons rétti Ússa út hönd sína til að styðja örkina því að uxarnir höfðu hrasað. 10 Þá blossaði reiði Drottins upp gegn Ússa og laust hann Ússa samstundis banahögg af því að hann hafði gripið til arkarinnar með hendi sinni. Hann lét lífið þarna fyrir augliti Guðs. 11 Davíð var mjög brugðið vegna þess að Drottinn hafði hrifið Ússa svo snögglega í burtu. Hann nefndi þennan stað Peres Ússa,[ og það heitir hann enn í dag. 12 Davíð hræddist Drottin á þessum degi og spurði: „Hvernig get ég flutt örk Guðs heim til mín?“ 13 Davíð vildi því ekki láta flytja örkina heim til sín í borg Davíðs heldur sneri með hana að húsi Óbeðs Edóms frá Gat. 14 Örk Guðs var í húsi Óbeðs Edóms í þrjá mánuði og Drottinn blessaði Óbeð Edóm og allt sem hann átti.