Saga Davíðs konungs
Fall Sáls
1 Filistear réðust á Ísrael og flýðu Ísraelsmenn undan þeim en margir lágu fallnir á Gilbóafjalli. 2 Filistear þrengdu mjög að Sál og sonum hans og felldu Jónatan, Abínadab og Malkísúa, syni hans. 3 Var nú gerð hörð atlaga að Sál. Nokkrar bogaskyttur höfðu komið auga á hann, hæft hann og var hann mikið særður.
4 Þá sagði Sál við skjaldsvein sinn: „Dragðu sverð þitt úr slíðrum og rektu mig í gegn. Annars koma þeir óumskornu, reka mig í gegn og fara háðulega með mig.“ En skjaldsveinninn vildi ekki gera þetta því að hann var mjög hræddur. Þá tók Sál sjálfur sverð sitt og lét fallast á það. 5 Þegar skjaldsveinninn sá að Sál var látinn lét hann sig einnig falla á sverð sitt og dó með Sál. 6 Þannig lét Sál lífið og synir hans þrír og öll fjölskylda hans í einu.
7 Þegar Ísraelsmennirnir, sem bjuggu handan við sléttuna og austan við Jórdan, gerðu sér grein fyrir að Ísraelsmenn voru flúnir og Sál og synir hans fallnir yfirgáfu þeir borgir sínar og flýðu. Síðan komu Filistear og settust að í þeim. 8 Daginn eftir, þegar Filistear komu til að ræna valinn, fundu þeir Sál og syni hans þrjá á Gilbóafjalli. 9 Þeir hjuggu af honum höfuðið og rændu vopnum hans. Síðan sendu þeir boðbera um land Filistea til að flytja skurðgoðum sínum og fólkinu fregnir af sigrinum. 10 Vopnum Sáls komu þeir fyrir í húsi guða sinna en hauskúpu hans festu þeir upp í húsi Dagóns.
11 Þegar íbúarnir í Jabes í Gíleað fréttu hvernig Filistearnir höfðu farið með Sál 12 héldu allir vopnfærir menn af stað, sóttu lík Sáls og sona hans og fluttu þau til Jabes. Því næst grófu þeir bein þeirra undir eikinni í Jabes og föstuðu í sjö daga. 13 Sál lét lífið vegna svika sinna við Drottin og vegna þess að hann hafði ekki hlýtt fyrirmælum Drottins. Hann hafði jafnvel leitað úrskurðar hjá framliðnum 14 í stað þess að leita úrskurðar Drottins. Drottinn lét hann því deyja og afhenti Davíð Ísaísyni konungdæmið.